Fréttir

Kokkvold, framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Noregs

Kokkvold kærir blöð fyrir auglýsingar í umfjöllun

Per Edgar Kokkvold, framkvæmdastjóri norska Blaðamannafélagsins hefur kært tvö dagblöð fyrir brot á ákvæðum siðareglna um auglýsingar í ritstjórnarumföllun. Þetta er í fyrsta sinn í þrjú ár sem slík kæra kemur fram frá Kokkvold, en hann hefur 15 sinnum lagt fram slíka kæru frá því hann varð framkvæmdastjóri félagsins árið 1996.  Þessar kærur vekja jafnan mikla athygli vegna þess hver það er sem hefur forgöngu um kæruna. Kokkvold hefur hins vegar stuðning hóps sem fylgist með auglýsingum í umfjöllunum fjölmiðla. Í báðum tilvikum er að ræða ferðakálfa með blöðum, annars vegar Tønsbergs Blad og  hins vegar Sandefjords Blad. Á forsíðum blaðanna var tilvísun á lúxusferðir og þegar greinarnar sjálfar voru skoðaðar þá kemur í ljós, ef marka má kæruna, að greinarnar höfði "jafnt hvað varðar framsetningu, myndir og innihald, öll einkenni auglýsinga.” Sjá einnig hér
Lesa meira
Blaðamaður leitar skjóls í loftárás í Sýrlandi

Drápum á blaðamönnum fjölgar um 42% milli ára

 Blaðamönnum sem drepnir voru við störf sín á árinu 2012 fjölgaði um 42% frá því í fyrra. Nú um miðjan desember höfðu 67 blaðamenn fallið við vinnu sína og því stefnir í að árið verði eitt það versta hvað þetta varðar frá því að “Committee to Protect Journalists", CPJ, hóf reglulega skráningu á þessu árið 1992. Stærstu orsakavaldarnir í þessari aukningu eru stríðið í Sýrlandi, óvenju miklar róstur í Sómalíu, og ískyggilegur vöxtur ofbeldis í Brasilíu. Versta árið hvað mannfall úr röðum blaðamanna varðar var árið 2009 þegar 74 einstaklingar voru drepnir, og þar af var nærri helmingurinn drepinn í fjöldamorði á Filipseyjum í Maguindanao héraði. Til viðbótar þessum 67 drápum sem staðfest eru að hafi verið vinnutengd er CPJ nú að kanna 60 dauðsföll til viðbótar til að fá úr því skorið hvort einhver þeirra hafi verið vinnutengd. Því má búast við að tala fallinna blaðamanna á árinu 2012 eigi enn eftir að hækka. Sjá meira hér
Lesa meira
Að finna fyrir lífinu - Átök milli dauðleikans og ódauðleikans í ljósmyndum
Tilkynning

Að finna fyrir lífinu - Átök milli dauðleikans og ódauðleikans í ljósmyndum

Fimmtudaginn 20. desember kl. 12:05 verður Sigrún Sigurðardóttir ljósmyndafræðingur með fyrirlestur á vegum FÍSL, Félags íslenskra samtímaljósmyndara, í Þjóðminjasafni Íslands. Yfirskrift fyrirlestrarins er: „Að finna fyrir lífinu. Átök milli dauðleikans og ódauðleikans í ljósmyndum.” Bandaríski menningarfræðingurinn Susan Sontag sagði eitt sinn að allar myndir væru í vissum skilningi það sem kalla mætti memento mori eða áminning um dauðleika, hvort sem það er dauðleiki augnabliksins eða dauðleiki manneskjunnar. Ljósmyndin tengir saman lífið, dauðann og ódauðleikann. Hún skapar minningar, viðheldur minningum og býr til nýjar. Í fyrirlestrinum skoðar Sigrún hvernig ólíkir ljósmyndarar hafa tekist á við þessi viðfangsefni og verður sjónum beint sérstaklega að verkum íslenskra samtímaljósmyndara. Útgangspunkturinn er ekki aðeins dauðinn sjálfur heldur ekki síður hvernig dauðinn kallar stöðugt á andstæðu sína, lífið sjálft, og lætur okkur þannig finna fyrir og vera meðvituð um lífið hér og nú. Fyrirlesturinn verður brotinn upp með pallborðsumræðum við þau Báru Kristinsdóttur, Einar Fal Ingólfsson og Grétu S. Guðjónsdóttur sem öll hafa tekist á við ástvinamissi, minningar og sorgarúrvinnslu í ljósmyndum sínum. Áhorfendum gefst auk þess tækifæri til að taka þátt í umræðum.  Frekari upplýsingar í fisl@fisl.is eða hjá Pétri Thomsen í síma 899-801
Lesa meira
John Cusack er í stjórn hinna nýju samtaka.

Vilja aðstoða fjármögnun samtaka sem stuðla að gegnsæi

Hópur fólks sem berst fyrir auknu gegnsæi í stjórnsýslu hefur stofnað samtökin, “Freedom of the Press Foundation”, en þetta eru samtök sem starfa ekki í hagnaðarskyni og eiga að vera milliliður eða “stuðari” fyrir fjárframlög til samtaka eins og WikiLeaks. Hugmyndin er að skilja fjáröflunarstarf slíkra samtaka frá hugsanlegum utanaðkomandi pólitískum og efnahagslegum þrýstingi. Eins og kunnugt er neituðu kortafyrirtæki að afgeiða framlög til Wikileaks í desember árið 2010 og var þá talað um að það væri vegna pólitísks þrýstings frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum. Samtökin hafa þegar sett upp vefsíðu sem á að verða virk næstkomandi sunnudag. Meðal stjórnarmanna í hinum nýju samtökum eru Daniel Ellsberg, sem ljóstraði upp um hin svokölluðu Pentagon skjöl; Glenn Greenwald, blaðamaður sem skrifar um mannréttindamál í Guardian; John Perry Barlow, einn af stofnendum “Electronic Frontier Foundation”; Xeni Jardin sem starfar við vefsíðuna Boing Boing og leikarinn John Cusack sem hefur verið virkur í baráttu gegn leyndarhyggju stjórnvalda. Sjá meira hér  
Lesa meira

Vilja yfirráð yfir ljósmyndasafni Tímans

Tíu fyrrverandi ljósmyndarar Tímans hafa ákveðið að stefna Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði. Tilefnið er varsla Þjóðminjasafnsins á ljósmyndasafni Tímans. Ljósmyndararnir telja að safnið hafi borist í hendur Þjóðmynjasafnsins með ólögmætum hætti, þar eigi sér stað ólögmæt not á safninu og þeir hafi verið sviftir umráða- og höfundarrétti sínum. Málavextir eru þeir að á 10. áratug síðustu aldar var samið við fyrirtækið Frjálsa fjölmiðlun ehf. um útgáfu á Tímanum og var það félag því síðasti vörsluhafi filmu- og myndasafnsins. Bú Frjálsrar fjölmiðlunar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 2. júlí 2002 og var Sigurður Gizurarson hrl. skipaður skiptastjóri þrotabúsins. Á þeim tíma var filmu- og myndasafn Tímans, sem um er deilt í máli þessu, geymt í herbergi að Þverholti 11. Þar sem félagið var orðið gjaldþrota falaðist Inga Lára Baldvinsdóttir, starfsmaður Þjóðminjasafns Íslands, eftir ljósmyndasafninu sbr. bréf hennar til Sigurðar Gizurarsonar dags. 24. nóvember 2003. Á síðari hluta árs 2003 afhenti Sigurður Gizurarson Þjóðminjasafni Íslands safnið sbr. bréf lögmanns stefnenda dags. 21. apríl 2004 og bréf Sigurðar Gizurarsonar dags. 27. apríl 2004. Stefnendur voru afar ósáttir við þessa ráðstöfun enda töldu þeir Sigurð enga heimild hafa til slíkrar ráðstöfunar og kusu frekar að safnið yrði varðveitt annars staðar, þ.e. hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Í kjölfarið óskaði lögmaður stefnenda eftir viðræðum um málið við Þjóðminjasafn Íslands. Þrátt fyrir bréfaskrif og viðræður hefur ekki náðst samkomulag og því telja ljósmyndararnir 10 sig ekki eiga annars kosta en að stefna framangreindum aðilum til að fá safnið afhent. Vilji ljósmyndarana stendur til að koma safninu fyrir hjá Ljósmyndasafni Reykjavíkur. Þess ber að geta að Þjóðminjasafn Íslands hefur afhent óviðkomandi ljósmyndir úr umræddu ljósmyndasafni til notkunar án samþykkis stefnenda enda liggur enginn samningur fyrir á milli stefndu og stefnenda um nýtingu. Það er Blaðamannafélag Íslands sem rekur málið fyrir hönd ljósmyndaranna. Sigurður Már Jónsson
Lesa meira
Fréttastofa RÚV nýtur mests trausts

Fréttastofa RÚV nýtur mests trausts

MMR kannaði traust almennings til helstu sjónvarps-, prent- og netfréttamiðla. Af þeim fréttamiðlum sem kannaðir voru báru svarendur mest traust til fréttastofu RÚV. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 75,3% bera mikið traust til Fréttastofu RÚV og 8,2% sögðust bera lítið traust til hennar. Í flokki netfréttamiðla var Mbl.is sá fréttamiðill sem naut mest trausts meðal almennings og var einnig sá fréttamiðill sem naut mest trausts að undaskildri fréttastofu RÚV. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 51,0% bera mikið traust til Mbl.is sem þó eru færri en í desember 2008 þegar 64,0% sögðust bera mikið traust til Mbl.is.Netfréttamiðillinn Visir.is naut einnig nokkurs traust meðal svarenda og hefur traust til Visir.is aukist frá maí 2009 þegar 24,4% þeirra sem tóku afstöðu sögðust bera mikið traust til Visir.is, borið saman við 34,8% nú. Þeir prentmiðlar sem nutu mest trausts meðal almennings voru Morgunblaðið og Fréttablaðið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 44,8% bera mikið traust til Morgunblaðsins en 40,6% sögðust bera mikið traust til Fréttablaðsins. Sjá meira hér  
Lesa meira
Met í fangelsun blaðamanna í ár

Met í fangelsun blaðamanna í ár

 Fangelsun blaðamanna og ritstjóra sem eru gagnrýnir á stjórnvöld vítt um heiminn hefur náð nýjum hæðum á þessu ári. Ástæðan er að hluta til sú að stjórnvöld í fjölmörgum löndum hafa beitt fyrir sig löggjöf um hryðuverk og annari löggjöf sem á að vera til varnar hagsmunum ríkisins. Þetta er megin niðurstaðan úr skýrslu sem Committee to Protect Journalists hefur birt.  Sjá skýrsluna hér  
Lesa meira
Breskir ritstjórar fallast á öflugra eftirlit en vija ekki fá yfir sig lagasetningu

Breskir ritstjórar fallast á öflugra eftirlit en vija ekki fá yfir sig lagasetningu

Ritstjórar helstu dagblaða í Bretlandi hittust fyrir helgina til að ræða hugmyndir um nýjan eftirlitsaðila með fjölmiðlum sem hefði mun víðtækari valdheimildir og tæki til ráðstöfunar en núverandi kerfi gerir ráð fyrir. Ritstjórarnirfunduðu undir talsverðum þrýstingi frá stjórnvöldum, einkum frá David Cameron, forsætisráðherra og féllust ritstjórarnir á að efla og styrkja eftirlitið með ýrri stofnun eins og rætt hefur verið um. Hins vegar þræddu ritstjórarnir nokkuð þröngan stig í þessu, því hugmyndirnar sem Leveson lávarður setti fram í skýrslu sinni gengu nokkuð lengra en ritstjórarnir voru tilbúnir til að sætta sig við. Þannig höfnuðu þeir róttækustu hugmyndinni í skýrslunni sem gekk út á að setja lög sem myndu búa til valdamikið og opinbert eftirlitskerfi með fjölmiðlum. Með þessari afstöðu sinni taka ritstjórarnir í stórum dráttum sömu afstöðu til tillagna skýrslunnar og Cameron forsætisráðherra hefur gert. Cameron hefur átt í nokkrum orðahnippingum við pólitíska adstæðinga vegna þess hversu tregur hann hefur verið að fallast á tillögur um að lögfesta eftirlit stjórnvalda með fjölmiðlum. Hefur hann sagt að ef stjórnmálamenn fari inn á þá braut sé 300 ára saga prentrelsis í hættu. Ef lög af þessu tagi séu á annað borð til staðar sé ákveðinn þröskuldur yfirstiginn og stjórnmálamenn gætu freistast til að víkka þau út smá saman, sem myndi þýða að stöðugt vaxandi eftirlit og ritskoðun með fjölmiðlum. Sjá einnig hér
Lesa meira
Simon Kruse Rasmussen

Er einhver þarna úti?

„Er einhver þarna úti?“ Þannig hljómar yfirskriftin á nýrri rannsóknarskýrslu sem sýnir að erlendum fréttariturum danskra fjölmiðla hefur fækkað um þriðjung frá því fjöldi þeirra var siðast kannaður árið 1998. Rannsóknin nær til stærri dagblaða í Danmörku og DR og TV2. Alls hefur erlendum fréttariturum fækkað úr 60 árið 1998 og niður í 39 árið 2012. Fréttariturum í Brussel hefur fækkað um næstum helming, eða úr 15 niður í 8 og fjöldinn í Berlín hefur farið úr 8 árið 1998 og niður í 3 í ár. Í dag eru nær engir fastráðnir fréttaritarar í Austur Evrópu, en á móti hefur fréttariturum heldur fjölgað í Kína. Það er fréttaritari Berlinske Medier í Moskvu, Simon Kruse Rasmunssen, sem tók þessa skýrslu saman. Hann segir að það kerfi sem áður var algengt, að miðlarnir höfðu fasta fréttaritara í útlöndum, hafi breyst og nú séu færri fastir fréttaritarar erlendis en fleiri blaðamenn sem eru á ferðinni og fari milli landa. Hann segir að þetta sé skynsamleg ráðstöfun út frá hagræðingarsjónarmiði. „Starfsstöðinni í Kabúl er bara lokað ef þungamiðja fréttanna færist til Norður Afríku i arabíska vorið,“ segir hann. En Rasmunssen bendir á að þetta sé ekki endilega heppilegt fyrir þá blaðamenn sem sendir eru á vettvang. „Þeir fréttamenn sem ég hef talað við segja að það sé mjög erfitt að þróa staðbundin tengsl og þekkingu, eða læra tungumál þegar unnið er með þessum hætti og því er hætt við að blaðamennskan verði mun yfirborðskenndari en ella,“ segir Simon Kruse. Sjá einnig hér og hér
Lesa meira
Forsíðumyndin úr New York Post

Er þetta í lagi? Hvað finnst þér?

Dagblaðið The New York Post framkallaði gríðarleg viðbrögð, mótmæli og hneykslan þegar það birti í gær mynd á forsíðu af manni sem hrint hafði verið niður á spor neðanjarðarlestar. Hann komst ekki upp og  lest kom brunandi að og keyrði á manninn nokkrum sekúndum eftir að myndin var tekin. Hann dó samstundis.Textinn var „Dæmdur: hrint niður á lestarteina, þessi maður er um það bil að deyja“.  Sá sem tók myndina er free-lance ljósmyndari og segir hann og ritstjórn New York Post að hann hafi ekki haft líkamsstyrk til að dragamanninn upp en hann hafi hins vegar reynt að gera lestarstjóranum viðvartmeð því að smella af flassi sínu ítrekað. Þetta þykir mörgum ekki boðleg afsökun og alvarlegar siðferðilegar spurningar vakna um hvort ljósmyndari hafi átt að reyna að aðstoða frekar en taka mynd, hvort réttlætanlegt sé að birta myndina og hvort yfirskriftin sé við hæfi. Sjá ítarlega umræðu hér
Lesa meira