- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Verðlaun
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Hér má sjá tillögur vinnuhóps að nýjum siðareglum með athugsemdum vinnuhópsins við hverja grein:
Inngangur
Öflug og vönduð blaðamennska, þar sem tjáningarfrelsið er í fyrirrúmi, er forsenda lýðræðis. Vönduð blaðamennska byggir á faglegum vinnubrögðum sem siðareglum þessum er ætlað að ramma inn. Í þeim er lögð áhersla á að frumskylda blaðamanns er gagnvart almenningi sem á rétt á að fá sannar upplýsingar settar fram á sanngjarnan og heiðarlegan hátt. Blaðamönnum og stjórnendum ber að þekkja og tileinka sér þessar siðareglur í störfum sínum.
1. grein
Blaðamaður hefur sannleikann að leiðarljósi, stendur vörð um tjáningarfrelsið, frjálsa fjölmiðlun og rétt almennings til upplýsinga.
- Hópnum fannst mikilvægt að fyrsta grein rammi inn grundvallarhlutverk blaðamennsku og leggi áherslu á tjáningarfrelsið, upplýsingarétt almennings og minni á frumskyldu blaðamannsins, sem er að segja sannleikann. Okkur fannst einnig mikilvægt að taka það fram að blaðamönnum beri að standa vörð um fjölmiðlafrelsið.
2. grein
Blaðamaður setur fram upplýsingar á heiðarlegan og sanngjarnan hátt samkvæmt bestu vitund hverju sinni, meðal annars með því að leita andstæðra sjónarmiða þegar við á. Blaðamaður hagræðir ekki staðreyndum og setur ekki fram órökstuddar ásakanir.
- Hópnum fannst mikilvægt að hér væri ákvæði um heiðarleika og sanngirni en vildum jafnframt árétta að þótt nýjar upplýsingar geti komið fram síðar sem varpa öðru ljósi á mál er mikilvægt að minna á að upplýsingar sem blaðamaður setur fram eru samkvæmt bestu vitund hverju sinni. Ennfremur fannst okkur mikilvægt að taka það fram að þó svo að ákvæði um andstæð sjónarmið sé mikilvægt á það sannarlega ekki alltaf við. Þetta ákvæði kemur í stað ákvæðis um nafnbirtingar - upplýsingar þurfa að vera settar fram á sanngjarnan hátt og á það einnig við um nafnbirtingar. Það þurfa að vera gild rök fyrir nafnbirtingum hverju sinni og er með þessari breytingu ekki verið að leggja til breytingu á þeirri hefð sem myndast hefur um nafnbirtingar sbr. úrskurði siðanefndar BÍ þar að lútandi.
3. grein
Blaðamaður gerir það sem í hans valdi stendur til þess að leiðrétta rangfærslur.
- Hópurinn taldi mikilvægt að setja inn ákvæði um leiðréttingar enda er það mikilvægt til að viðhalda trausti almennings á fjölmiðla að þeir leiðrétti þegar þeir fara rangt með.
4. grein
Blaðamaður lítur svo á að allar upplýsingar sem varða almannahagsmuni eigi að vera aðgengilegar og að hann eigi að fá fullt frelsi til að afla þeirra.
- Þetta ákvæði er til að árétta mikilvægi þess að blaðamaður fái aðgang að upplýsingum sem varða almenning og að blaðamaður hafi frelsi til að afla þeirra, líkt og dómstólar hafa þegar kveðið á um.
5. grein
Blaðamaður beitir ekki hótunum eða hvers konar þvingunum til þess að afla upplýsinga.
- Þetta er nýtt ákvæði sem hópnum fannst mikilvægt að hafa inni.
6. grein
Blaðamaður gerir greinarmun á staðreyndum og skoðunum, gengur úr skugga um áreiðanleika upplýsinga og gætir þess að umfjöllunin sé hlutlæg.
- Hópnum fannst mikilvægt að bæta inn ákvæði þar sem gerður er greinarmunur á staðreyndum og skoðunum og árétta nauðsyn þess að blaðamaður kanni sjálfur áreiðanleika upplýsinganna sem hann er að vinna með. Einnig er hér sett inn ákvæði um hlutlægni, til þess að tryggja að fréttir séu ekki settar fram með það fyrir augum að reka áróður fyrir tilteknum skoðunum eða málflutningi.
7. grein
Blaðamaður gætir þess að þegar hann vitnar til ummæla eða upplýsinga sem birst hafa opinberlega, þar á meðal á samfélagsmiðlum, sé þess getið hvaðan ummælin voru fengin.
- Þetta er líka nýtt. Við vildum reyna að ná utan um þau tilvik þar sem vitnað er í ummæli eða stöðuuppfærslur á samfélagsmiðlum - að þegar það er gert þá sé þess skýrt getið í fréttinni.
8. grein
Blaðamaður virðir trúnað við heimildarmenn sína.
- Óbreytt - nema tókum út orðið „nauðsynlegan“ sem segir sig sjálft.
9. grein
Blaðamaður þiggur ekki mútur, gjafir eða hvers kyns fyrirgreiðslu sem ætlað er að hafa áhrif á umfjöllun hans. Blaðamaður forðast hagsmunaárekstra og gerir grein fyrir tengslum við umfjöllunarefnið ef við á. Blaðamaður tekur ekki þátt í verkefnum sem kynnu að stofna sjálfstæði hans og trúverðugleika í hættu og nýtir ekki upplýsingar í eigin þágu.
- Við skýrðum betur ákvæði um mútur og hagsmunaárekstra svo það fari ekki á milli mála
10. grein
Blaðamaður gerist ekki sekur um ritstuld
- Bættum inn ákvæði um ritstuld.
11. grein
Blaðamaður blandar ekki saman ritstjórnarlegu efni og auglýsingum í myndum og/eða máli.
- Þetta er ákvæði úr núgildandi reglum sem fær nú að standa eitt.
12. grein
Siðareglur þessar setja ekki hömlur á tjáningarfrelsi blaðamanna. Blaðamaður gætir þess að persónulegar skoðanir hans hafi ekki áhrif á hlutlægni fréttaflutnings.
- Þetta er lítið breytt ákvæði úr núgildandi reglum en bætt var við setningu um að blaðamanni ber að gæta þess að persónulegar skoðanir hafi ekki áhrif á hlutlægni fréttaflutnings
13. grein
Hver sá sem telur að blaðamaður hafi brotið framangreindar reglur og á hagsmuna að gæta, getur kært ætlað brot til Siðanefndar BÍ samkvæmt sérstökum reglum þar um.
- Setjum sérstakar reglur um vinnulag Siðanefndar sbr. þær sem er í 6. grein núgildandi reglna.
Athugasemdir við tillögur má senda inn hér.
Til glöggvunar er núgildandi siðareglur að finna hér.