- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Verðlaun
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Reglugerð Styrktarsjóðs BÍ
1. gr. Nafn sjóðsins
1.1. Sjóðurinn heitir Styrktarsjóður Blaðamannafélags Íslands.
1.2. Sjóðurinn er eign Blaðamannafélags Íslands (hér eftir BÍ). Heimili hans og varnarþing er í Reykjavík.
2. gr. Verkefni sjóðsins
2.1. Verkefni Styrktarsjóðs BÍ eru eftirfarandi:
2.1.1. Að greiða sjóðfélögum sjúkradagpeninga eða veita þeim fjárhagsaðstoð með öðrum hætti verði þeir óvinnufærir vegna veikinda eða slysa, enda hafi launatekjur þeirra fallið niður.
2.1.2. Að greiða sjóðfélögum sjúkradagpeninga eða veita þeim fjárhagsaðstoð með öðrum hætti vegna langvarandi veikinda maka og barna, enda hafi sjóðfélagi misst launatekjur vegna þeirra.
2.1.3. Að greiða sjóðfélögum styrk vegna áfengismeðferðar eða annarrar meðferðar sem leggja má að jöfnu, enda hafi launatekjur þeirra fallið niður.
2.1.4. Að greiða sjóðfélögum styrk vegna sjúkraþjálfunar, sjúkranudds og meðferðar hjá kírópraktorum (hnykkjum) sem Tryggingastofnun ríkisins tekur þátt í að greiða eða nýtur opinbers stuðnings með öðrum hætti.
2.1.5. Að greiða sjóðfélögum styrk vegna krabbameinsskoðunar og hjartaskoðunar.
2.1.6. Að greiða sjóðfélögum, sem þurfa á sérstökum hjálpartækjum að halda vegna sjúkdóms eða fötlunar til að geta sinnt starfi sínu, styrk til kaupa á slíkum tækjum.
2.1.7. Að greiða mökum eða börnum sjóðfélaga útfararstyrki vegna fráfalls félagsmanns.
2.1.8. Að greiða læknisvottorð sem nauðsynleg eru vegna umsókna úr Styrktarsjóði BÍ.
2.1.9. Að greiða sjóðfélögum styrk vegna þátttöku í heilsueflingu.
2.1.10. Að greiða sjóðfélögum fæðingarstyrk í fæðingarorlofi.
3. gr. Réttur til styrkja
3.1. Réttur til styrkja úr sjóðnum er bundinn eftirfarandi skilyrðum:
a) Sjóðsfélagi er félagi í Blaðamannafélagi Íslands. b) Greitt er vegna sjóðfélaga iðgjald í sjóðinn.
3.2. Sjóðsaðild byggist á því að greitt sé lögákveðið, kjarasamningsbundið eða ráðningarsamningsbundið Styrktarsjóðsframlag af heildarlaunum. Framlag skal greiða mánaðarlega til sjóðsins og skal hafa verið greitt a.m.k. í sex næstliðna mánuði, í hlutfalli við starfshlutfall viðkomandi, svo hann eigi rétt til styrkja úr sjóðnum.
3.3. Réttur til greiðslu úr sjóðnum fyrnist á sex mánuðum eftir að sjóðfélagi gat fyrst sótt um styrk samkvæmt úthlutunarreglum.
3.4. Atvinnulausir: Sjóðsfélagar með full réttindi við upphaf atvinnuleysis halda réttindum sínum í eitt ár, enda hefjist bótatímabil eða til útgjalda sé stofnað innan árs frá upphafi atvinnuleysis. Skilyrði er að greitt sé félagsgjald af atvinnuleysisbótum til Blaðamannafélags Íslands
3.5. Fyrrverandi sjóðfélagar njóta ekki réttar til styrktar úr sjóðnum nema slíkt sé tekið sérstaklega fram í úthlutunarreglum.
3.6. Ef farsóttir geisa getur sjóðstjórn leyst sjóðinn frá greiðsluskyldum sínum um stundarsakir. Einnig getur sjóðstjórn ákveðið að lækka um stundarsakir dagpeninga ef afkomu sjóðsins virðist hætta búin.
3.7. Stjórn sjóðsins setur nánari reglur um greiðslur úr sjóðnum sem samþykktar skulu af stjórn BÍ. Í þeim skal m.a. kveðið á um hversu lengi greiðslur vari, hvort greiðslur hefjist að tilteknum tíma liðnum frá því að launagreiðslur féllu niður, hversu háar greiðslur séu í hverju einstöku tilviki og hvernig umsóknum um greiðslur úr sjóðnum skuli háttað. Greiðslur skv. lið 2.1.8. skulu þó nema að fullu þeim kostnaði sem þar um ræðir.
3.8. Reglur um greiðslur úr sjóðnum skulu endurskoðaðar árlega með hliðsjón af fjárhagsstöðu sjóðsins. Hafi fjárhagsstaða sjóðsins rýrnað verulega að mati stjórnar hans skulu réttindi til greiðslu úr sjóðnum skert, en aukin hafi fjárhagsstaðan batnað verulega. 3.9. Sjóðnum er heimilt að kaupa vátryggingu er komi að einhverju eða öllu leyti í stað greiðsluskyldu sjóðsins skv. 1. mgr.
4. gr. Stjórn og rekstur
4.1. Fulltrúar BÍ í stjórn sjóðsins skulu vera þrír og skulu kosnir árlega á aðalfundi BÍ. Einnig skal kjósa varamenn fyrir hvern þeirra. Stjórn sjóðsins skiptir með sér verkum.
4.2. Stjórn sjóðsins fer með æðsta vald í málefnum hans milli aðalfunda og ber ábyrgð á rekstri hans og styrkveitingum. Stjórn sjóðsins er heimilt að fela starfsfólki á skrifstofu BÍ að afgreiða umsóknir í samræmi við þessa reglugerð og starfsreglur en á ábyrgð stjórnar sjóðsins.
4.3. Sjóðurinn hefur sjálfstæðan fjárhag og skal honum haldið aðgreindum frá fjárhag BÍ og fjárhag annarra sjóða í eigu eða á vegum BÍ. Stjórn BÍ skal hafa eftirlit með fjárreiðum sjóðsins.
4.4. Sjóðurinn greiðir allan kostnað sem af rekstri hans leiðir.
4.5. Daglegur rekstur sjóðsins skal vera á skrifstofu BÍ.
4.6. Stjórn sjóðsins lætur vinna úr umsóknum og kynna niðurstöður bréflega og með rökstuðningi með vísan í reglur eða mat stjórnar.
5. gr. Tekjur og ávöxtun eigna
5.1. Tekjur sjóðsins eru:
a) Samningsbundnar greiðslur atvinnurekenda eins og þær eru ákveðnar í kjarasamningi blaðamanna á hverjum tíma.
b) Vaxtatekjur og aðrar fjármagnstekjur.
5.2. Eignir sjóðsins skulu varðveittar í traustum verðbréfum og bankainnstæðum. Sjóðnum er óheimilt að kaupa fasteignir og taka eða veita lán.
5.3. Stjórn sjóðsins er heimilt að fela utanaðkomandi aðila ávöxtun hans.
6. gr. Ársreikningur og endurskoðun
6.1. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið. Ársreikningur sjóðsins skal endurskoðaður af skoðunarmönnum BÍ og löggiltum endurskoðanda eða endurskoðunarstofu. Hann skal lagður fram samhliða reikningum BÍ.
7. gr. Slit sjóðsins
7.1. Nú er BÍ lagt niður án þess að annað sameiginlegt félag blaðamanna komi í þess stað og skal sjóðnum þá slitið. Eignir sjóðsins skulu þá renna til fullgildra félagsmanna í réttu hlutfalli við fjölda þeirra.
7.2. Einstaklingar sem segja sig úr BÍ eða uppfylla ekki lengur skilyrði fyrir félagsaðild eiga ekki tilkall til eigna sjóðsins.
8. gr. Breytingar á reglugerðinni
8.1. Breytingar á reglugerð þessari öðlast ekki gildi nema þær hafi verið samþykktar á aðalfundi BÍ. Um atkvæðagreiðslu um breytingar á reglugerðinni á aðalfundi BÍ gilda sömu reglur og um lagabreytingar.
9. gr. Nánari starfsreglur
9.1. Sjóðstjórn setur nánari starfsreglur skv. reglugerð þessari, sem samþykktar skulu af stjórn BÍ.
10. gr. Gildistaka
10.1.Reglugerð þessi öðlast þegar gildi.
Samþykkt á framhaldsaðalfundi BÍ 4. september 2024