Félagar geta verið allir þeir sem hafa frétta- eða blaðamennsku að aðalstarfi, það er að miðla upplýsingum, skoðunum og hugmyndum til almennings í gegnum fjölmiðla, óháð því hvort um er að ræða dagblöð, vikublöð, sértímarit, landshlutablöð, vefmiðla, útvarps- eða sjónvarpsstöðvar eða aðra fjölmiðla, svo fremi sem staðið er skil á tilskildum gjöldum til félagsins og sjóða þess.
Á meðal þeirra sem samkvæmt þessu geta verið félagar eru blaðamenn, fréttamenn, útlitsteiknarar, prófarkalesarar, handritalesarar, ljósmyndarar, ritstjórar, ritstjórnarfulltrúar, fréttastjórar, dagskrárgerðarfólk, hljóð- og tökumenn, tækni- og aðstoðarfólk í frétta- eða blaðamennsku og hvert það annað starfsfólk sem sinna upplýsingamiðlun og störfum sem tengjast frétta- eða blaðamennsku t.d. samskiptastjórar og almannatenglar. Upptalning þessi er sett fram í dæmaskyni, en er ekki tæmandi.
Félagar geta einnig verið þeir sem starfa sjálfstætt að frétta- eða blaðamennsku og standa sjálfir skil á tilskildum greiðslum til félagsins og sjóða þess. Einnig lausamenn sem sinna sömu störfum sem eingöngu greiða lausamannagjald, sbr. gr. 3.2. Félagar geta einnig orðið allir þeir sem starfa að fjölmiðlun, upplýsingaöflun og miðlun, óháð miðlunarleið.
Blaðamaður starfandi á fjölmiðli þarf ekki að sækja sérstaklega um aðild að BÍ heldur óskar eftir því við launagreiðanda að greidd verði gjöld til félagsins. Þegar greiðslur berast til BÍ frá launagreiðanda verður blaðamaður sjálfkrafa félagi.
Aðrir þurfa hins vegar að fylla út formið hér að neðan til að óska eftir aðild.
Hér eru upplýsingar um aðildarskilyrði samkvæmt lögum félagsins. Það eru öll þau sem hafa frétta- eða blaðamennsku að aðalstarfi.
Sjálfstætt starfandi blaðamenn geta valið um tvenns konar aðild að félaginu. Annars vegar fulla aðild og hins vegar lausamannaaðild, sem veitir takmörkuð réttindi. Nánari upplýsingar er að finna hér.