- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Núgildandi siðareglur BÍ tóku gildi árið 1991 og hafa því verið óbreyttar í rúm þrjátíu ár. Þær hafa í raun lítið breyst frá því þær voru fyrst samþykktar árið 1965. Árið 2005 var ákveðið að hefja endurskoðun á siðareglum blaðamanna enda gætti verulegrar óánægja innan stéttarinnar með tiltekin ákvæði þeirra. Gagnrýnin laut almennt að því að reglurnar væru ekki nægilega skýrar og vel upp settar og ákvæði þóttu huglæg og matskennd – afstæð – svo sem ákvæði um tillitsemi. Endurskoðunarnefnd var skipuð 2009 sem skilaði af sér tillögum vorið 2010. Þær voru hins vegar ekki afgreiddar af aðalfundi. Þá kom einnig fram önnur tillaga sem ekki heldur var samþykkt. Í framhaldi var stofnuð nefnd sem gerði tillögu um breytingar árið 2012 og hópur blaðamanna (31 talsins) gerði annars konar tillögu en hvorug náði fram að ganga. Ákveðið var að setja á stofn einskonar sáttanefnd sem kom þó aldrei saman og því eru siðareglurnar enn óbreyttar.
Fljótlega eftir að nýr formaður tók við vorið 2021 hófst umræða um nauðsyn þess að endurskoða reglurnar. Haustið 2021 auglýsti formaður eftir áhugasömum í vinnuhóp um endurskoðun siðareglna sem kom fyrst saman í nóvember 2021 og hefur hist um það bil sex til átta sinnum síðan. Starfandi blaðamönnum, félagsmönnum í BÍ var boðið velkomið að starfa með hópnum. Um það bil 10-12 manns sem komu að starfi hópsins á einhverjum tímapunkti. Friðrik Þór Guðmundsson sérfræðingur var ráðgjafi hópsins. Hann kynnti á fyrsta fundi niðurstöður úr skoðanakönnun meðal blaðamanna um siðareglur sem meðal annars sýndu fram á vilja meirihluta blaðamanna í þá veru að vert væri að einfalda og skýra reglurnar, eins og nánar er skýrt frá hér í þessu tölublaði. Var það leiðarljós vinnu hópsins.
Við endurskoðunina var horft til núgildandi siðareglna – en einnig til siðareglna Alþjóðasambands blaðamanna (IFJ), auk siðareglna í löndunum í kringum okkur, svo sem hinna Norðurlandanna, Bretlands, Belgíu og fleiri landa. Þá var horft til breytt umhverfis fjölmiðla og breyttrar stöðu blaðamanna með nýjum miðlunarleiðum. Þá hefur umræða um upplýsingaóreiðu og falsfréttir skapað þörf á að skerpa á ákveðnum hugtökum, gildum og vinnubrögðum til þess að auðvelda blaðamönnum og almenningi að gera greinarmun á blaðamennsku og annarri miðlun hvers kyns upplýsinga.
Tillögur að nýjum siðareglum eru hér kynntar í fyrsta skipti opinberlega, þótt allir félagsmenn hafi haft möguleika á að kynna sér þær í öllu ferlinu með þátttöku í fundum hópsins. Um er að ræða tillögu að breytingum sem hópurinn vonast til að geti skapast góð og málefnaleg umræða um og í framhaldinu góð sátt. Við hvetjum ykkur öll til þess að kynna ykkur tillögurnar vandlega því siðareglur BÍ eru leiðarvísir sem blaðamenn styðjast daglega við í sinni vinnu og rammar inn þau faglegu gildi og reglur sem stéttin starfar samkvæmt.
Hér má finna tillögu að nýjum siðareglum
Hér má finna tillögu að nýjum siðareglum - með athugasemdum vinnuhópsins
Blaðamannafélag Íslands hefur stofnað sérstakt netfang þar sem tekið er á móti athugasemdum: sidareglur@press.is. Einnig hefur verið sett upp athugasemdakerfi á press.is þar sem koma má á framfæri ábendingum. Þá mun félagið ennfremur halda kynningar- og umræðufund um þessar tillögur í þann 31. janúar 2023. Um nýjar siðareglur verður síðan kosið á næsta aðalfundi, sem haldinn verður í mars nk.
Sigríður Dögg Auðunsdóttir formaður