Ritstjórnarlegt sjálfstæði

Ritstjórnarlegt sjálfstæði er einn af hornsteinum faglegrar blaðamennsku. Í lögum um fjölmiðla nr. 38 frá 20. april 2011, grein 24 segir að fjölmiðlaveitur skuli setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði i samráði við fagfélög starfsmanna. Blaðamannafélag Íslands leggur áherslu á að eftirfarandi atriði verði hluti af slíkum reglum:

1. Eigendur og sérhagsmunir
Ritstjórnarlegt sjálfstæði felst í frelsi ritstjóra til að taka ákvarðanir án afskipta frá eigendum eða stjórnendum fjölmiðlaveitna, enda eru ritstjórar ráðnir til að framfylgja grundvallarsjónarmiðum og markmiðum eigenda og stjórnenda viðkomandi fjölmiðla- veitu. Allar reglur um samskipti forsvarsmanna fjölmiðlaveitna og ritstjórna ættu að vera tiltækar starfsmönnum.
 
Það er stefna fjölmiðlaveitu að í umboði ritstjóra hafi starfsmenn á ritstjórn sem heild fullt ritstjórnarlegt sjálfstæði. Í því felst að þeir þurfa ekki að taka tillit til skoðana eða hagsmuna eigenda eða viðskiptamanna miðilsins, ef siðareglur BÍ, samviska þeirra og sannfæring segir þeim að ekki sé rétt að gera slíkt. Blaða- og fréttamanni verður ekki gert að vinna verkefni sem stangast á við sannfæringu hans eða samvisku eða teljast niðurlægjandi. Blaða- og fréttamaður tekur ekki við verkefnum frá öðrum en yfirmönnum á ritstjórn.
 
Blaða- og fréttamenn eiga rétt á vera upplýstir um það verði umræða um skrif þeirra meðal eigenda eða stjórnenda fjölmiðaveitu. Eigendum og stjórnarmönnum fjölmiðlaveitu er óheimilt að hafa afskipti af einstökum fréttaskrifum eða ræða þau beint við viðkomandi blaðamenn, heldur skulu mál af því tagi ávallt tekin upp við ritstjóra fjölmiðlaveitunnar
 
2. Ritstjórnarstefna
Ritstjórnarlegt sjálfstæði tekur mið af og takmarkast af ritstjórnarstefnu blaðsins, og séu verkefni þau sem blaða- og fréttamanni er falið að vinna sannanlega innan ramma skilgreindrar og yfirlýstrar ritstjórnarstefnu, ber honum að sinna þeim og ekki vinna gegn þeim. Ritstjóri og yfirmenn á ritstjórn eru ábyrgir fyrir túlkun og framkvæmd ritstjórnarstefnu og þeirra túlkun á stefnunni og forgangsröðun verkefna, er það sem gildir í daglegu starfi.
 
3. Starfsskilyrði ritstjórnar
Blaða- og fréttamönnum ber að fá aðstöðu og tíma til að setja sig inn í mál og að þeir séu ekki sendir á vettvang án þess að hafa verið upplýstir um aðstæður og gefinn kostur á að setja sig inn í mál fyrirfram. Þeir skulu alla jafna fá tækifæri til að vinna mál á þann hátt sem þeir telja réttast og nota þau efnistök sem þeir telja best án sérstakrar leiðsagnar yfirmanna, nema þess sé óskað. Hins vegar ræður fréttamat yfirmanna og túlkun á því hvernig og hvað er endanlega birt.
 
Blaða- og fréttamenn fjölmiðlaveitu hafa fullan tillögurétt þegar kemur að því að velja sér efni og úrvinnslu þess. Sé frétt eða nálgun blaða- og fréttamanns í tilteknu máli breytt í veigamiklum atriðum á viðkomandi blaða- og fréttamaður rétt á skýringu yfirmanns á breytingum.
 
4. Skilyrði uppsagnar
Ekki er hægt að segja upp starfsmanni án skriflegrar skýringar. Gildir það undatekningarlaust hver svo sem ástæða uppsagnar er og eru slíkar skýringar ekki einkamál blaðamanns og útgefanda nema blaðamaður óski þess sérstaklega.