- Félagið&fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
1. gr.
Sjóðurinn nefndist „Menningarsjóður Blaðamannafélagsins“ og er heimili hans og varnarþing í Reykjavík.
Sjóðurinn er stofnaður af Blaðamannafélagi Íslands, samkvæmt félagssamþykkt gerði 14. júní 1942. Skal sjóðnum aflað fjár aðallega svo sem hér greinir en að öðru leyti eftir því, sem henta þykir hverju sinni:
a) Félagar í Blaðamannafélagi Íslands skulu á ári hverju greiða til sjóðsins gjöld, er eigi nemi minna en helmingi þess gjalds, sem þeir greiða í árgjald til félagsins á hverjum tíma, og eigi minna en jafnháu tillagi blaðs fyrir hvern starfsmann sinn í félagi, að fengnu samþykki blaðaútgefenda, er hlut eiga að máli.
b) Með útgáfu Ársrits Blaðamannafélag Íslands og annarri útgáfustarfsemi, eftir því sem ástæður þykja til.
c) Með skemmtanahöldum, fyrirlestrarstarfsemi og á annan hátt, sem stjórn sjóðsins í samráði við félagsstjórn þykir henta.
Tilgangur sjóðsins er að styrkja blaðamenn, sem félagar eru í Blaðamannafélagi Íslands, til utanfarar, svo sem til þess að sækja blaðamannafundi og námskeið erlendis, eða til þess að kynna sér ákveðin mál, er blaðamenn varða. Svo má og veita styrk úr sjóðnum til þeirra blaðamanna, sem eru eða hafa verið félagar í Blaðamannafélagi Íslands, en hafa orðið að láta af blaðamennsku vegna sjúkdóms eða örorku fyrir aldur fram. Styrk má og veita til ákveðinna ritstarfa.
Eigi má veita styrk úr sjóðnum fyrr en hann er orðinn 20.000.00 – tuttugu þúsund krónur – að upphæð. Má þá úthluta allt að helmingi vaxta sjóðsins annarra árstekna hans.
Til þess að styrkja blaðamenn til utanfarar má verja helmingi þess fjár, sem til úthlutunar kemur hverju sinni, svo sem að ofan greinir, og meira ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Jafnframt skal stjórn sjóðsins hlutast til um, í samráði og samvinnu við stjórn Blaðamannafélags Íslands, að jafnmikill styrkur komi á móti af opinberu fé, reynist þess nokkur kostur. Hljóti starfsmaður einhverrar blaðaútgáfu utanfararstyrk, skal jafnframt leitað eftir styrk hjá hlutaðeigandi fyrirtæki, eftir því sem eðlilegt og hentugt þykir hverju sinni. Haldi hann þó fullu kaupi hjá blaðinu.
Allt að helmingi þess fjár, sem til úthlutunar kemur, má verja til að útvega Blaðamannafélagi Íslands vistlegan samanstað og handbókasafn. Sé eigi af löggjafarinnar hálfu séð fyrir afkomu þeirra blaðamanna, sem vegna sjúkdóms eða örorku verða að láta af starfi fyrir aldur fram, má verja þessum hluta sjóðsteknanna til styrktar þeim blaðamönnum, sem svo er ástatt um eða til ættingja látinna blaðamanna. Er veittur er utanfararstyrkur, skal að jafnaði leitast við, að blaðamanni þeim, er styrksins nýtur, verði gert kleift að dvelja utanlands eigi skemur en þrjá mánuði. Skal hann senda stjórn Blaðamannafélagsins skýrslu um ferð sína og birta ritgerð í Ársriti um málefni þau, er hann hefir einkum lagt stund á í ferðinni.
Stjórn og framkvæmdir stjóðsins annast sérstök nefnd, skipuð þremur mönnum, er kosin sé á aðalfundi Blaðamannafélags Íslands, til eins árs í senn. Þá skal og kosinn varamaður í nefndina.
Endurskoðendur Blaðamannafélagsins skulu og hafa með höndum endurskoðun sjóðsins. Gjaldkeri nefndarinnar – en hún skiptir sjálf með sér störfum – skal annast fjárreiður sjóðsins og reikningshald.
Engin ákvörðun sjóðsnefndar er gild, nema samþykki meirihluta félagsstjórnar komi til á formlegum fundi.
Fé sjóðsins skal ávaxta í söfnunarsjóði Íslands. Þó má einnig verja fé til hagkvæmra verðbréfakaupa, sem tryggð séu með ábyrgð ríkissjóðs eða bæjar- eða sveitarfélags, þannig að jafngild þyki ábyrgð ríkissjóðs.
Leita skal staðfestingar forseta á skipulagsskrá þessari og hún birt.