- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamönnum sem drepnir voru við störf sín á árinu 2012 fjölgaði um 42% frá því í fyrra. Nú um miðjan desember höfðu 67 blaðamenn fallið við vinnu sína og því stefnir í að árið verði eitt það versta hvað þetta varðar frá því að Committee to Protect Journalists", CPJ, hóf reglulega skráningu á þessu árið 1992. Stærstu orsakavaldarnir í þessari aukningu eru stríðið í Sýrlandi, óvenju miklar róstur í Sómalíu, og ískyggilegur vöxtur ofbeldis í Brasilíu.
Versta árið hvað mannfall úr röðum blaðamanna varðar var árið 2009 þegar 74 einstaklingar voru drepnir, og þar af var nærri helmingurinn drepinn í fjöldamorði á Filipseyjum í Maguindanao héraði.
Til viðbótar þessum 67 drápum sem staðfest eru að hafi verið vinnutengd er CPJ nú að kanna 60 dauðsföll til viðbótar til að fá úr því skorið hvort einhver þeirra hafi verið vinnutengd. Því má búast við að tala fallinna blaðamanna á árinu 2012 eigi enn eftir að hækka.