Fréttir

Michelle Stanistreet, framkvæmdastjóri hjá NUJ

NUJ mun láta í sér heyra!

Svo virðist sem samtök blaðamanna í Bretlandi eigi að vera á hliðarlínunni þegar gerðar eru tillögur um nýtt eftirlitskerfi með siðferði og vinnubrögðum í breskum fjölmiðlum líkt og lagt ver til í Leveson skýrslunni. Í það minnsta var einungis ritstjórum og yfirmönnum stóru miðlanna boðið til samráðs við stjórnvöld í gær til að fara yfir þessi mál. Michelle Stanistreet, framkvæmdastjóri hjá NUJ, Blaðamannasambandi Bretlands ritaði af þessu tilefni grein í Guardian í gær og sagði að þó blaðamönnum hafi ekki verið boðið að kræsingaborði ritstjóra og ráðherra, þá geti menn treyst því að NUJ muni láta heyra í sér með skýrum og áberandi hætti ef þær tillögur sem fram koma kveða ekki á um regluramma sem er í raun og sann óháður stjórnvöldum og hagsmunaaðilum. Það dugi ekki að koma með gamla kerfið kannski örlítið breytt – þá væri starf Leveson nefndarinnar í raun unnið fyrir lítið. Stanistreet bendir á að í skýrslu Leveson nefndarinnar komi fram að það þurfi að verða almenn umbreyting á þeirri menningu sem ríkir á ritstjórnum í landinu til að koma í veg fyrir að blaðamenn séu í raun þvingaðir og settir í þá stöðu að skrifa og vinna með þeim hætti sem varð tilefni Leveson-rannsóknarinnar. Blaðamannasambandið (NUJ) sé enn að glíma við mál sem komið hafa upp á “virðulegum ritstjórnum” þar sem blaðamenn verða fyrir þrýstingi og einelti - sem bendi til að menn hafi ekki dregið mikla lærdóma af nýliðinni fortíð. Hún bendir á að ritstjórar og útgefendur verði að viðurkenna rétt blaðamanna sem stéttar til að eiga sameiginlegan talsmann í NUJ í þessu endurskoðunarferli öllu, ekki síst vegna þess að rétturinn til virðingar í vinnunni sé best tryggður með aðkomu og viðurkenningu stéttarfélagsins. Blaðamenn og almenningur þurfi að koma að þessu ekki síður en ritstjórarnir, segir Stanistreet.Sjá grein Stanistreet hér
Lesa meira
Tilkynning

Sagan að baki Nude Magazine

Jóhanna Björg Christensen margmiðlunarhönnuður svarar spurningunni hvað hún var að pæla. Fyrst gaf hún út tímarit á vefnum í miðri stafrænu byltingunni 2010, þegar allir hlupu sem hraðast frá prentinu. Nú hyggst hún gefa tímaritið út á prenti. Getur þetta gengið? Staðsetning: Skúlatúni 2, ReykjavíkTími: Föstudaginn 18. janúar, kl. 8.30 - 10.00.
Lesa meira

Heilt sveitarfélag skilaði upplaginu

Páll Ketillsson ritstjóri Víkurfrétta skrifaði eftirfarandi leiðara í blað vikunnar í tilefni 30 ára afmælis blaðsins: „Gleði, þakklæti og heppni eru orð sem koma upp í huga manns þegar maður lítur til baka yfir þrjátíu ára starfsemi Víkurfrétta ehf. en fyrirtækið fagnaði 30 ára afmæli sl. mánudag 7. janúar. Það er ekki sjálfgefið að fyrirtæki á Íslandi lifi svo lengi en það hefur tekist þó vissulega hafi reksturinn ekki alltaf verið dans á rósum. Á þessum langa tíma í sögu Víkurfrétta hefur gengið á ýmsu í umhverfi fyrirtækja, stór bankakreppa 2008 sem hafði alvarlegustu áhrif á samfélagið í seinni tíð er alls ekki eina áfallið sem hefur dunið yfir. Það voru líka minni kreppur í atvinnulífinu hér á árum áður. Á forsíðu Víkurfrétta í janúar 1983 þegar nýir eigendur tóku við blaðinu voru tvær fréttir um atvinnuleysi. Það er því ekkert nýtt að atvinnumálin hafi verið ofarlega í huga Suðurnesjamanna.Með samstilltu átaki frábærs starfsfólks VF hefur tekist að halda úti útgáfunni en auðvitað með góðu samstarfi við fyrirtæki á Suðurnesjum. Það er ljóst að mannauðurinn í fyrirtækjum skiptir mestu máli, ekki tækin og tólin. Þannig hefur það verið hjá okkur. Margir hafa komið að málum á löngum tíma, vinir, ættingjar og fjölskyldan. En það hafa ekki allir alltaf verið ánægðir og það fylgir því í rekstri fjölmiðils sem nær inn á öll heimili á Suðurnesjum og víðar. Það er ekki alltaf hægt að gera svo öllum líki. Einn dag fyrir margt löngu síðan var upplagi Víkurfrétta úr einu bæjarfélagi hér á Suðurnesjum þá vikuna skilað til baka á skrifstofuna því blaðið hafði fjallað um viðkvæm og erfið mál. Það er ekki auðvelt og kannski ástæðan fyrir því að hægt er að gagnrýna okkur á vissan hátt fyrir að vera ekki með harða rannsóknarblaðamennsku. Það hefur verið okkar stefna að fara varlega. Við búum í litlu samfélagi og við skilum fréttablaði inn á hvert heimili á svæðinu í hverri viku. Því fylgir mikil ábyrgð og það höfum við reynt að hafa í huga. Það má þó ekki gleyma því að fjölmiðlar þurfa að vera gagnrýnir, veita aðhald og halda uppi umræðu og það höfum við reynt að gera eftir bestu samvisku. Því er þó ekki að neita að í fjölmiðlun og blaðaútgáfu hefur ör tækni og þróun haft jákvæð áhrif á reksturinn. Það hefur hjálpað okkur á Víkurfréttum að halda úti stöðugri útgáfu blaðs og síðan fréttavefs. Markmiðið er að gera það eins vel og hægt er. Halda úti öflugri fréttaþjónustu og vera málsvari Suðurnesjamanna. Í erfiðri stöðu atvinnulífsins hefur VF haldið uppi vörnum fyrir svæðið og hvatt stjórnvöld og aðra sem hafa áhrif að gera betur en gert hefur verið. Það er nefnilega víða sem Suðurnesin hafa átt undir högg að sækja í framlögum ríkis, til dæmis til skóla og annarra stofnana og skilning til umhverfis atvinnulífs. Víkurfréttir eru óháð stjórnmálaflokkum en hafa alla tíð haft hagsmuni Suðurnesja í fararbroddi. Víkurfréttir eru á hinn bóginn vissulega háð því hvernig gangi í atvinnulífinu almennt eins og flest fyrirtæki á Suðurnesjum. Við stefnum að því að halda áfram á sömu braut í útgáfunni. Með góðri samvinnu við Suðurnesjamenn hér eftir sem hingað til vonum við að það takist. Sterkur fjölmiðill skiptir svæðið miklu máli. Á þessum merku tímamótum þökkum við Suðurnesjamönnum samfylgdina og samstarfið og vonum að það haldi áfram um ókomna tíð." Páll Ketilsson.
Lesa meira
Fundaröð um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands
Tilkynning

Fundaröð um fyrirhugaðar breytingar á stjórnarskrá Íslands

4. fundur - Stjórnarskráin og lýðræðið: Kosningakerfið - Persónukjör - Þjóðaratkvæðagreiðslur. Fundurinn verður haldinn miðvikudaginn 16. janúar kl. 12-14 í Hátíðasal Háskóla Íslands. Fjórði fundur í fundaröð Háskóla Íslands í samstarfi við HA, HR og Bifröst, þar sem fræðimenn á ýmsum sviðum fjalla um ferlið fram að þessu og einstaka þætti í tillögum stjórnlagaráðs. Framsögumenn eru: Gunnar Helgi KristinssonÓlafur Þ. HarðarsonJón ÓlafssonÁgúst Þór Árnason Fundarstjóri er:  Ragnhildur Helgadóttir Allir velkomnir
Lesa meira

Héraðsmiðlar gegna stóru hlutverki í dag

Hjá Víkurfréttum ehf. starfa í dag um tíu manns en fyrirtækið gefur út samnefnt vikulegt fréttablað á Suðurnesjum sem dreift er inn á öll heimili í fyrirtæki í nærri 9 þúsund eintökum. Blaðið fagnar 30 ára afmæli sínu um þessar mundir. Auk prentútgáfunnar eru starfræktir tveir vefir, fréttavefurinn vf.is sem stofnaður var 1995 og golfvefurinn kylfingur.is sem hóf göngu sína 2005. Starfsmenn Víkurfrétta hafa einnig séð um útgáfu tímaritsins Golfs á Íslandi fyrir Golfsamband Íslands í rúman áratug og Páll Ketilsson verið ritstjóri þess síðan 2003. Einnig hafa starfsmenn VF unnið ýmis önnur prentverk og komið að útgáfum að öðrum blöðum. Að sögn Páls hefur reksturinn gengið upp og ofan. „Hann var oft erfiður fyrstu árin en byrjaði að vænkast þegar tölvutæknin kom til sögunar. Það var gott fyrir útgefendur sem áttu ekki sína prentsmiðju. Tölvu- og tæknibylting í umbroti og ljósmyndaþættinum hefur gert starfið mun auðveldara svo ekki sé minnst á netvæðinguna. Rekstrargrundvöllur minni fjölmiðla hefur vænkast á þann hátt að starfsmenn geta gert meira en áður, sérhæfingin minni. Hraðinn er meiri, umbrot auðveldara og tekur minni tíma. Þannig hefur tekist að færa „deadline“ nær prentun sem var mikilvægt. Þannig er hægt að vera með opið lengur fyrir auglýsingamóttöku og það skiptir miklu máli því flestir útgefndur héraðsfréttablaða eru háðir auglýsingum og færri reiða sig á áskrift og lausasölu." Páll segir að með netinu hafi orðið byltingin í fréttamennsku. „Í dag rekum við á VF okkar „dagblað“ á netinu og leggjum mikla áherlsu á góða og öfluga fréttaþjónustu þar. Þróunin í vikublaði hefur orðið þannig að þar eru ekki lengur „nýjustu“ fréttir heldur meira mannlíf og viðtöl/greinar en nýjustu fréttirnar á vefnum. Fyrstu árin birtum við eingöngu efni úr blaðinu á vf.is en nokkrum árum síðar breyttum við því og fórum að leggja meiri áherslu á að nota vefinn sem alvöru fréttamiðil. Í dag er ekki hægt að nætursalta neinar fréttir. Samkeppnin er það hörð og með tilkomu samfélagsmiðla og snjallsíma hefur hún tekið á sig nýja mynd. Gott dæmi um það eru fréttir frá flugdólgi á til til New York nýlega. Þannig varð sá atburður að frétt þegar farþegar tóku myndir og deildu á samfélagsmiðla." Héraðsmiðlar gegna stóru hlutverki í dag, ekki síður en áður segir Páll. „Þrátt fyrir fjölda miðla á landinu þá eru héraðsmiðlarnir að sinna sínu svæði og birta efni sem stóru miðlarnir gera ekki. Við erum meira í nærsamfélaginu. Því er þessi héraðsfrétta fjölmiðlun mikilvæg fyrir landsbyggðina. Í dag er enn fjöldi héraðsfréttablaða og fréttavefja um allt land og sinnir fréttaþjónustu á sínu svæði. Ég tel að framtíð þeirra sé björt og muni aldrei detta út úr fjölmiðlaflórunni." Sigurður Már Jónsson
Lesa meira
Sverrir Þórðarson látinn

Sverrir Þórðarson látinn

Sverrir Þórðarson blaðamaður og handhafi blaðamannaskírteinis nr. 3, lést sl.mánudag, 7. janúar, níræður að aldri. Sverrir fæddist á Kleppi í Reykjavík 29. mars 1922. Foreldrar hans voru Ellen Johanne Sveinsson húsmóðir og Þórður Sveinsson, prófessor og yfirlæknir á Kleppi. Systkini Sverris voru Hörður, lögfræðingur og sparisjóðsstjóri SPRON; Úlfar, augnlæknir og borgarfulltrúi í Reykjavík; Sveinn, dr. rer.nat., skólameistari á Laugarvatni og síðar prófessor í Kanada; Nína, húsmóðir í Reykjavík; Agnar, rithöfundur og bókavörður, og Gunnlaugur, hæstaréttarlögmaður í Reykjavík. Sverrir nam rafvirkjun áður en hann gerðist blaðamaður á Morgunblaðinu haustið 1943. Þar vann hann til ársloka 1992 er hann lét af störfum sökum aldurs eftir tæplega 50 ára starf. Sverrir var jafnframt um langt skeið fréttaritari norrænna fjölmiðla hér á landi. Hann tók þátt í félagsstörfum hjá Blaðamannafélagi Íslands og sat um skeið í stjórn félagsins. Sverrir kvæntist árið 1946 Petru G. Ásgeirsdóttur. Þau eignuðust þrjú börn og lifa tveir synir þeirra, Þórður augnlæknir og Ásgeir blaðamaður. Dóttir þeirra, Ása Steinunn, lést árið 1984. Petra lést árið 1986. Útför Sverris Þórðarsonar verður gerð frá Dómkirkjunni í Reykjavík föstudaginn 11. janúar og hefst athöfnin klukkan 15. Árið 2007 kom út viðtalsbók í tilefni af afmæli BÍ þar sem meðal annars var rætt við Sverri. Sveinn Guðjónsson tók viðtalið í bókinni og spurði Sverri m.a. hvort hann hafi gert sér einhverjar sérstakar hugmyndir um blaðamannsstarfið þegar hann byrjaði á Morgunblaðinu og hér á eftir fer lítið brot úr bókinni: „Ekki aðrar en þær að vera vakandi fyrir smáu sem stóru í þjóðfélaginu og að fylgjast vel með atburðum líðandi stundar. Á þessum árum voru menn ekki með sérsvið í blaðamennskunni, heldur varð maður bara að fjalla um það sem að höndum bar frá degi til dags, skýra frá því sem var í „almennum“ fréttum. Þetta gat spannað heilmikið svið.“ - Það orðspor fer af þér að þú hafir haft afar næmt fréttanef og að það hafi verið þinn helsti styrkur í blaðamennskunni?    „Nú já? Eigum við ekki bara að orða það svo að „skúbb“ komu öðru hvoru í gegnum tíðina, og sum „skúbbin“ voru bara skratti góð. Þegar ég byrjaði var Morgunblaðið til húsa í Austurstræti, í gamla Ísafoldarhúsinu. Ritstjórnin var á efri hæðinni og það var þröngt um okkur. Þegar ég kom voru þar fyrir Þorbjörn Guðmundsson, sem hafði hafið störf nokkrum mánuðum á undan mér, Ívar Guðmundsson, fréttastjóri til marga ára, og Jens Benediktsson, sem var prestlærður maður, en hann var aðallega í erlendum fréttum. Ritstjórar voru Valtýr Stefánsson og Jón Kjartansson, sem seinna varð sýslumaður og alþingismaður. Sigurður Bjarnason frá Vigur var afleysingaritstjóri. Svo kom ljósmyndari inn, sem hét Friðrik Clausen, seinna kom sjálfur Ólafur K. Magnússon, sem var ljósmyndari blaðsins til margra ára.. Fréttamyndasafn Óla K. er varðveitt á Morgunblaðinu.“ „Á öllum árum mínum á Mogganum voru sjálfstæð vinnubrögð og efnistök í fréttum og þótt vinnudagurinn hafi yfirleitt byrjað með ritstjórnarfundi laust eftir hádegi,voru ritstjórarnir ekki alltaf afskiptasamir. Ég var í innlendum fréttum, til dæmis „bæjarfréttum“ og í gegnum blaðið kynntist ég mörgum góðum mönnum, og mörgum sem voru fréttamenn blaðsins úti um land, sem „tippuðu“ varðandi ýmis mál, sem gátu verið efniviður í góða frétt og þetta kom sér vel í starfinu. Stundum kom ég við í morgunkaffi á hjá valinkunnum mönnum í bænum áður en ég mætti til vinnu til að ræða um það sem efst var á baugi og forvitnast um stöðu mála. Ég átti þá heima í miðbænum, þar sem ég bý enn, og því hæg heimatökin því þessir aðilar voru flestir staðsettir hér í miðbænum. Ég kom til dæmis oft við í Lögreglustöðinni í Pósthússtræti og var í góðu sambandi við menn þar, við yfirmenn lögreglunnar sem og óbreyttar löggur. Ég var líka í góðu sambandi við þá aðila sem höfðu upplýsingar um aflabrögð og sjósókn, svo sem Arnór í Fiskifélaginu.“ - Rekur þig minni til að fólk úti í bæ hafi reynt að hafa áhrif á ritstjórnina, til dæmis stjórnmálamenn eða aðrir áhrifamenn í þjóðfélaginu?    „Ég varð aldrei var við það, enda kom ég ekki nálægt stjórnmálum eða pólitískum skrifum. Morgunblaðið var á þessum árum tengt Sjálfstæðisflokknum og dró ekki dul á það frekar en önnur flokkspólitísk blöð. En það fór ekkert fyrir brjóstið á mér. Ritstjórarnir sáu um landspólitíkina og bæjarstjórnarmálin. Mig minnir að Valtýr hafi aðallega haft málefni bæjarstjórnar á sinni könnu.. Hann fylgdist vel með í bæjarstjórnarmálunum og hafði áhuga á þeim málaflokki. Þá var alltaf talað um bæjarstjórn og bæjarstjórnarfundi. Svo vöknuðu menn upp við það einn góðan veðurdag að hér var komin borgarstjórn, enda ör þróun og mikil fólksfjölgun í Reykjavík á árunum eftir heimsstyrjöldina og sér ekki fyrir endann á því.“ Í lok viðtalsins kveðst Sverrir líta sáttur yfir farinn veg: „Ég sé ekki eftir að hafa valið mér blaðamennsku að lífsstarfi. Þetta er besti skóli sem hægt er að hugsa sér. Fyrir ungan mann, sem er að fara út í lífið, er ekki hægt að hugsa sér betri skóla en blaða- og fréttamennsku, jafnvel þótt menn hverfi svo síðar til annarra starfa. Blaðamennskan opnar margar dyr, gefur mönnum nýja sýn og vekur ný viðhorf til lífsins og tilverunnar. Ég var svo heppinn að vera á sama vinnustað allan minn starfsferil og á Morgunblaðinu eignaðist ég marga góða vini og reyndar á öðrum blöðum líka.”
Lesa meira

Asbjørn With hlýtur Cavling-verðlaunin

Það var blaðamaðurinn Asbjørn With hjá Nordjyske Medier sem vann til dönsku Cavling-verðlaunanna þetta árið. Verðlaunin voru veitt nú í upphafi árs við hátíðlega athöfn í Bókasafnssalnum í Sívalíturninum í Kaupmannahöfn. Það var danski forsætisráðherrann Helle Thorning-Schmidt sem afhenti verðlaunin.Asbjørn With er heiðraður fyrir skrif sín um starfsemi Rebild sveitarfélagsins og hvernig því hafði mistekist að takast á við misnotkun barna, staðið fyrir þvingunarfangelsun og brugðist þegar kom að aðstoð við fatlaða. Það sem vekur athygli er að Asbjørn With starfar á héraðsfréttablaði en blaðamenn þaðan eru alla jafnan ekki að fá mikla athygli. Hann hóf skrifin um Rebild og ástandið þar fyrir nokkru síðan og hefur skrifað yfir 130 greinar um ástandið. Að lokum fékk það mikla athygli landsmálafjölmiðlanna og nokkrir starfsmenn sveitarfélagsins hafa orðið að segja af sér.Í ræðu sinni vék formaður dómnefndar Kurt Strand sérstaklega að því að Asbjørn With hefði orðið að skapa sjálfur þær aðstæður að hann gæti unnið fréttirnar og hefði verðlaunanefndin horft sérstaklega til þess.Cavling-verðlaunin eru veitt árlega til blaðamanns eða hóps blaðamanna sem taldir eru hafa staðið sig sérstaklega vel. Þau eru kennd við blaðamanninn Henrik Cavling (1858-1933) og voru veitt í fyrsta sinn 1944. Að þessu sinni voru átta blaðamenn tilnefndir; frá Zetland, TV 2, DR og Nordjyske Medier og Politiken.
Lesa meira
Hefðbundnir miðlar víða í góðum rekstri í BNA

Hefðbundnir miðlar víða í góðum rekstri í BNA

 Þrátt fyrir miklar hrakspár um rekstrarmöguleika fyrirtækja sem starfrækja hefðbundna fjölmiðla og yfirlýsingar um minnkandi blaðalestur og sjónvarpsáhorf samfara vaxandi gengi netsins og samfélagsmiðla virðist árið 2012 ekki hafa verið mjög slæmt fyrir hefðundinn fjölmiðlarekstur í BNA. Á síðasta ári hækkaði vísitala hlutabréfa hjá Standar & Poor um 13.4% sem þótti umtalsvert miðað við hvernig ástandið hefur verið. Hlutabréf í fjölmiðlarisum sem að stórum hluta byggja á hefðbundnum miðlum eins og Comcast, News Corporation og Time Warner hækkuðu þó talsvert umfram þetta. Meira að segja fyrir tæki eins og Viacom, sem át hefur í vandræðum með áhorf á MTV og svo Nickelodeom fóru fram úr þessari vísitöluhækkun en bréf þar hækkuðu um rúm 16%. Og systurfyrirtæki Viacom, CBS hækkaði um hvorki meira né minna en rúm 40%. Ýmsir greinendur telja að þennan reksrarárangur megi rekja til þess að lítið var um ævintýralegar (glæfralegar) fjárfestingar eða viðskiptafléttur í þessari grein á árinu, öfugt við það sem áður hefur þekkst. Það aftur hefur orðið til þess að rætt er um að tími "fjölmiðlabaróna" síðustu ára sé liðinn, en með því er átt við að fjölmiðlafyrirtæki muni ekki fara í áberandi og umtalaðar fjárfestingar og sameiningar eingöngu til að stækka eða auka umsvif, en þess í stað einbeita sér að grunnþáttum starfseminnar, sem sé að reka fjölmiðla. Sjá einnig hér
Lesa meira
Ritstjórnarefni kostað eingöngu af framlögum lesenda

Ritstjórnarefni kostað eingöngu af framlögum lesenda

Hinn þekkti bloggari, Andrew Sullivan, sem hefur ásamt nokkrum starfsmönnum sínum verið með hina geisivinsælu bloggsíðu “The Dish” og haldið henni úti í tengslum við vefsíðuna “The Daily Beast”, hyggst nú gera áhugaverða tilraun varðandi framleiðslu á ritstjórnarefni á vefnum. Hann og félagar hans hafa stofnað sérstakt fyrirtæki um bloggsíðuna, og “The Dish” verður frá og með febrúar sjálfstæður miðill án auglýsinga og án endurgjalds fyrir notendur en fjármagnaður alfarið með framlögum frá lesendum. Sullivan hefur sagt að hann þurfi um 900 þúsund dali til að fjármagna síðuna á ári, og á tveimur dögum var hann kominn með rúmlega helminginn af því í fyrirframframlög frá lesendum. Þessi tilraun er mikið rædd meðal fjölmiðlaáhugafólks, einkum vestan hafs, enda hafa margir velt fyrir sér hvernig hægt verði að halda úti sjálfstæðum og óháðum ritstjórnarskrifum í framtíðinni þegar tekjustofnar eru þverrandi fyrir slíka starfsemi. Andrew Sullivan er vissulega “stjörnubloggari” og höfðaði persónulega til lesenda um stuðning þannig að óvíst er hvort aðrir geti leikið þetta eftir. Sumir virðast telja að þetta sé upphafið að endalokum stórbloggara á meðan aðrir telja líkur á að þetta sé skref í átt til framtíðar þar sem hið einfalda samband milli lesanda og blaðamanns (bloggara) er endurvakið – þ.e. að menn borgi einfaldlega fyrir það sem skrifað er og það sem skrifað er sé skrifað með hagsmuni lesandans í huga. Andrew Sullivan segir sjálfur að þetta sé málið, miðillinn verði engum háður nema lesendum – ekki auglýsindum, eigendum eða örum. Hann rifjar upp spakmælið sem segir að ef þú sért ekki að borga fyrir vöruna sem verið er að selja, þá sértu í raun sjálf(ur) varan sem verið er að selja. Sjá umræðu um málið hér
Lesa meira

Upplýsinga aflað í Brussel

Það er sérkennilegt að sjá allt það pappírsflóð sem flæðir um ganga stjórnsýslubygginga Evrópusambandsins í Brussel. Svo virðist sem hver einasta tilkynning sé prentuð út og fjölmiðlaúrklippur liggja í haugum að morgni dags um alla ganga. Hvort þetta bætir upplýsingastreymið skal ósagt látið en svo virðist sem engu sé til sparað. Hægt er að nálgast aðgengi að fréttaherbergi ESB í gegnum slóðina:http://europa.eu/newsroom/press-contacts/index_en.htmEvrópusambandið leggur sig fram við að auðvelda blaðamönnum störf sín. Í nýlegri blaðamannaferð til Brussel heimsóttu blaðamenn þjónustumiðstöð framkvæmdastjórnarinnar (Audiovisual Services of the European Commission). Þar var kynnt hvaða þjónusta stendur til boða en óhætt er að segja að hún sé nokkuð víðtæk. Fréttamenn geta þannig unnið nokkuð ítarleg fréttainnslög í fullkomnum tækniverum og það án þess að þurfa að greiða fyrir það. Miðað er þó við og áskilið að fréttirnar tengist Evrópusambandinu og málefnum þess.Sem dæmi um þjónustu má nefna: - EBS (Europe by Satellite) býður upp á myndefni frá öllum helstu viðburðum ESB, hægt er að nálgast þær beint en einnig eru upptökur tiltækar. Upptökurnar standa til boða á allt að 23 tungumálum á tveimur útsendingarásum, annars vegar í gegnum gervihnött og hins vegar í gegnum netið. Sjá nánar:http://ec.europa.eu/avservices/ebs/schedule.cfm - Myndefni er tengist öllum helstu fréttum og viðburðum ESB er tiltækt. Einnig er hægt að nálgast margskonar myndefni, hvort sem menn vilji nota það við fréttir eða tilfallandi greinarskrif. Hægt er þannig að hlaða niður myndefni í ítrustu gæðum ef eftirfarandi vefsíðu:http://ec.europa.eu/avservices/photo/index.cfm - Ítarlegt safn af myndböndum, ljósmyndum og hljóðskrán um allt er varðar sögu og þróun ESB. Safnið er allt frá 1945 til dagsins í dag. Sjá nánar á:http://ec.europa.eu/avservices/index.cfm - Aðgangur að bestu fáanlegum upptökutækjum til sjónvarps- og hljóðvinnslu. Hægt er meira að segja að senda inn spurningalista, bóka viðkomandi viðmælanda í upptökuver og þá er boðið uppá uppstilltu viðtali. Upptökuverið er staðsett í Berlaymont byggingunni (byggingu framkvæmdastjórnarinnar) í Brussel og er tiltækt til upptöku eða lifandi útsendinga. Vilji menn skrá sig geta þeir farið inn á:http://ec.europa.eu/avservices/2010/myav/index.cfm Fyrir þá sem vilja skrá sig til að geta fylgst með nýjustu viðburðum þá er slóðin hér: http://ec.europa.eu/avservices/login/createAccount_en.cfm Sigurður Már Jónsson
Lesa meira