- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Einn mikilvægasti þátturinn í starfsemi Blaðamannafélags Íslands er að semja um kaup og kjör fyrir félagsmenn sína. Aðalkjarasamningur BÍ er sá sem félagið gerir við Samtök atvinnulífisins og miðast sérsamningar við aðra miðla við hann þótt þeir víki frá honum í fáeinum atriðum. Hér að neðan er leitast við að skýra þau réttindi sem félagsmönnum eru tryggð með kjarasamningi.
---
Aksturskostnaður og dagpeningar
Í kjarasamningi BÍ segir að greiða skuli dagpeninga í samræmi við útreikninga Ferðakostnaðarnefndar ríkisins. Dagpeningar eiga að dekka gistingu og fæði á ferðalagi, auk alls annars ferðakostnaðar en kostnað við að komast á áfangastað (t.d. flugfargjald). Atvinnurekandi greiðir því flugfargjald en ekki kostnað við að komast til eða frá flugvelli (dagpeningar eiga að dekka þann kostnað), nema sérstakar aðstæður leyfi (t.a.m. mikill farangur vegna starfs).
Greiðsla dagpeninga fyrir hverja ferð ræðst af fjölda gistinátta (næturhluti) og ferðadaga (daghluti) Ferðadagur telst vera bæði brottfarardagur frá Íslandi og brottfarardagur frá dvalarlandi. Ekki eru greiddir dagpeningar vegna gistikostnaðar þegar um næturflug er að ræða.
Miðað skal við að dagpeningar greiðist út fyrir brottfarardag - því þeir eiga að dekka kostnað vegna ferðalags starfsmanns.
Reiknivél fyrir dagpeninga og aksturskostnað
Fargjöld:
Atvinnurekandi bókar ferð og leggur út fyrir fargjöldum. Ef starfsmaður greiðir fargjald skal hann fá það endurgreitt um leið og hann leggur fram kvittun.
Aksturskostnaður:
Noti starfsmaður eigin bifreið að ósk vinnuveitanda á hann rétt á greiðslu. Greiðslan miðast við ekna kílómetra og upphæð pr. km. skal vera sú sama og ákveðin er af Ferðakostnaðarnefnd ríkisins hverju sinni. Heimilt er að semja um fasta krónutölu pr. ferð eða pr. mánuð, er miðast við afmörkuð svæði og byggist á ofangreindu kílómetragjaldi. Ef vinnuveitandi óskar, er starfsmanni skylt að færa akstursbók, er tilgreini fjölda ferða og/eða ekna kílómetra til útreiknings gjaldinu.
Vaktaálag
Aðalkjarasamningur BÍ:
Vinni starfsmaður kvöld- og/eða næturvaktir skal hann fá afslátt af heildarvinnustundum sem hér segir:
Kvöldvaktir 7 klst (teljast sem 8 klst)
Næturvaktir 6 klst (teljast sem 8 klst)
Eftirfarandi álag greiðist ofan á laun ef unnin er vaktavinna:
15% álag er greitt á grunlaun ef ekki eru unnar helgarvaktir (sjá launatöflu)
21% álag ef unnar eru helgarvaktir (sjá launatöflu)
Sérsamningar (Heimildin, Fjölmiðlatorgið):
Sama gildir og um aðalkjarasamning nema vaktaálag er sem hér segir:
20% álag er greitt á grunlaun ef ekki eru unnar helgarvaktir (sjá launatöflu)
27% álag ef unnar eru helgarvaktir (sjá launatöflu)
Félag fréttamanna:
Vaktaálag reiknast af dagvinnukaupi sem hér segir:
33,33% kl. 17-24 mán-fim
55% kl. 17-24 fös
55% kl. 00-08 mán til fös
55% kl. 00-24 lau, sun, helgidaga
90% 00-24 stórhátíðardaga
Fréttamenn sem fá greitt skv kjarasamningi FF sem taka laun skv. kjarasamningstaxta og ganga vaktir skulu fá greiðslu að fjárhæð 1250 kr fyrir vaktir skv. vaktaplani sem standa lengur en til kl. 19 á virkum dögum og kr 3000 fytrir helgarvaktir á vaktaplani. Þó skal greiðslan ekki nema hærri upphæð en 20.000 kr á mánuði að jafnaði. Fyrir rauða daga greiðist þó álag 3000 kr á vakt óháð ofangreindu þaki á greiðslum. Greiðslan á ekki við um þá fréttamenn sem eru á fastlaunasamningum.
Vaktstjórnarálag
Starfi blaðamaður sem vaktstjóri skal taka tillit til þeirrar viðbótarvinnu og ábyrgðar sem í því felst við launaákvörðun, sem útfærð er hjá viðkomandi útgefanda (grein 1.10). Ekki er tilgreint í kjarasamningi hve háa upphæð skuli greiða fyrir vaktstjórn.
Yfirvinna
Kjarasamningur gerir ráð fyrir að yfirvinna sé greidd. Þó er leyfilegt að gera skriflegt samkomulag að yfirvinna sé greidd með frítöku. Það skal gert þannig að frítímar skulu vera jafn margir og unnir yfirvinnutímar en mismunur á launum í dagvinnu og yfirvinnu skal greiddur út með næsta launaseðli. Þá mætti einnig gera samkomulag um að yfirvinnutímar séu allir teknir út í fríi, en þá skal reikna hvern unnin yfirvinnutíma sem 1,8 tíma í dagvinnu.
Til þess að finna út muninn á tímakaupi dagvinnu og yfirvinnu skal taka heildarmánaðarlaun án vaktaálags og deila með 160. Þá fæst út tímakaup í dagvinnu. Tímakaup yfirvinnu er 1,0385% af samningsbundnum mánaðarlaunum. Framkvæmd útreikninga hefur verið sú að tímakaup yfirvinnu reiknast út frá heildarlaunum með vaktaálagi. Mánaðarlaun sem greidd eru samkvæmt launatöflu eru gefin upp í töflu með og án álags. Til að finna út mánaðarlaun dagvinnu hjá þeim sem ekki eru á taxtalaunum og vinna reglubundnar helgarvaktir skal taka heildarmánaðarlaun og deila með 1,21 (21% vaktaálag gildir þegar fólk vinnur einhverjar helgarvaktir).
Hér er dæmi:
Blaðamaður með kr. 753.010 í mánaðarlaun með vaktaálagi er með kr. 622.322 í grunnlaun skv. launatöflu. Tímakaup dagvinnu er því 622.322/160= 3.890 kr. Tímakaup yfirvinnu er 753.010x1,0385/100=7.820 kr. Mismunurinn á dagvinnu og yfirvinnu er því kr. 3.930. Fyrir hvern unninn yfirvinnutíma ætti því að greiða kr. 3.930 auk þess sem 1 klst reiknast í frítöku. Ef öll yfirvinna er tekin út í frí skal reikna 1,8 klukkustundir í frítöku fyrir hverja unna yfirvinnustund.
Endurgreiddur útlagður kostnaður (fjölmiðlapeningar)
Atvinnurekandi greiðir skv. kjarasamningi kr 29 þúsund mánaðarlega (7.3):
Net kr. 4.000
Símareikningur kr: 8.500
Áskriftir vegna fjölmiðla kr. 16.500
Orlofsuppbót
Greiða skal orlofslaun af yfirvinnu og vaktaálagi. Orlof á aukavinnu og vaktaálag skal reiknast 10,17% hjá þeim sem eiga 24 daga orlof og 11,59% hjá þeim sem eiga 27 daga orlofsrétt og 12,55% hjá þeim sem eiga 29 daga orlofsrétt.
Helgidagar og stórhátíðardagar
Almennir frí- og helgidagar eru: Skírdagur, annar í páskum, sumardagurinn fyrsti, 1. maí, uppstigningardagur, annar í hvítasunnu, frídagur verslunarmanna og annar í jólum.
Stórhátíðardagar eru: Nýársdagur, föstudagurinn langi, páskadagur, hvítasunnudagur, 17. júní, aðfangadagur jóla (ATH allur dagurinn), jóladagur og gamlársdagur (ATH allur dagurinn).
Ef vaktavinnumaður á vaktafrí á helgidegi eða stórhátíðardegi (nema hann lendi á laugardegi eða sunnudegi) fær hann frídag á móti. Falli vinnudagur vaktavinnumanns á helgidag fær hann frídag á móti en falli hann á stórhátíðardag fær hann yfirvinnukaup auk frídags á móti.
Blaðamenn sem ekki vinna vaktavinnu fá greitt tvöfalt yfirvinnukaup fyrir vinnu á stórhátíðardögum en yfirvinnukaup fyrir vinnu á helgidögum.
Breyting á vöktum
Ekki er ákvæði um uppbót vegna breytinga á vöktum með skömmum fyrirvara í kjarasamningi BÍ.
Kjarasamningur FF: Ef vaktskrá er breytt með skemmri fyrirvara en 24 klst skal viðkomandi starfsmanni greitt aukalega 3 klst í yfirvinnu. Sé fyrirvarinn 24-168 klst (ein vika) skal greiða 2 klst í yfirvinnu.
Útkall
Fyrir útkall utan venjulegs dagvinnutíma (eða á vaktafrídegi) skal greiða blaðamanni laun sem svarar minnst 4 klst. í yfirvinnu. Ef venjulegur vinnutími hefst innan þessa tíma skal greiða blaðamanni kaup frá því að útkall hófst þar til hann átti að hefja störf að óbreyttu, þó aldrei færri en 2 klst.
Kjarasamningur FF: 3 klst yfirvinnukaup greiðist fyrir útkall nema hefðb vinnutimi hefjist innan 3 klst frá útkalli, þá greiðist bara yfirvinna.
Vinnutími
Dagvinnutími er kl 7-19.
Kjarasamningur FF: kl 8-17.
Vinnutími blaðamanna skal vera 40 klst. á viku (effektívar vinnustundir 37 klst. og 5 mín., en það eru 2 klst. og 55 mín. á viku í kaffitíma og skal tilhögun þess vinnutíma vera samkomulagsatriði á hverjum vinnustað). Deilitala tímakaups í mánaðarlaun er 160.
Vinni starfsmaður kvöld- og/eða næturvaktir skal hann fá afslátt af heildarvinnustundum sem hér segir:
Kvöldvaktir 7 klst (teljast sem 8 klst)
Næturvaktir 6 klst (teljast sem 8 klst)
Heildarvinnustundir blaðamanns sem vinnur vaktavinnu eru því færri en hjá þeim sem vinna dagvinnu.
Dæmi: Blaðamaður sem vinnur 8 kvöldvaktir í mánuði á ekki að vinna fleiri en 152 vinnustundir í mánuði án þess að fá sérstaklega greitt fyrir.
Bakvaktir
Ekkert ákvæði er um bakvaktir í kjarasamningi BÍ
Kjarasamningur FF:
Greiðsla fyrir bakvaktir skal reiknast af dagvinnukaupi sbr. gr. 1.2. með eftirfarandi hætti:
33,33% kl. 08:00 - 24:00 mánudaga - fimmtudaga
45,00% kl. 17:00 - 24:00 föstudaga
45,00% kl. 00:00 - 08:00 mánudaga
33,33% kl. 00:00 - 08:00 þriðjudaga - föstudaga
45,00% kl. 00:00 - 24:00 laugard., sunnud. og sérstaka frídaga
90,00% kl. 00:00 - 24:00 stórhátíðardaga sbr. gr. 2.1.4.3.
Brot úr klst. greiðist hlutfallslega. Heimilt er að semja um að starfsmaður taki frí í stað greiðslu álags fyrir bakvakt.
Orlofsréttur
Samkvæmt kjarasamningi BÍ hefur blaðamaður, sem starfað hefur í fjögur ár, rétt á að nýta allt að fimm daga af sumarleyfi að vetri til og telst hver sumarleyfisdagur til tveggja vetrarleyfisdaga (5 sumarleyfisdagar verða 10 vetrarleyfisdagar). Atvinnurekandi hefur ekki rétt á að neita starfsmanni um þennan rétt.
Fjöldi orlofsdaga fer eftir starfsreynslu (ekki eftir því hve starfsmaður hefur unnið lengi á viðkomandi vinnustað) og er sem hér segir:
0-4 ár: 24 dagar Eftir 4 ára starf má nýta allt að 5 sumarleyfisdaga í vetrarleyfi og skal þá hver sumarleyfisdagur nýtast sem tveir vetrarleyfisdagar
4-10 ár: 27/32 - 27 í sumarleyfi EÐA 22 í sumarleyfi og 10 í vetrarleyfi
10-18 ár: 29/34 - 29 í sumarleyfi EÐA 24 í sumarleyfi og 10 í vetrarleyfi
18+ ár: 30/35 - 30 í sumarleyfi EÐA 25 í sumarleyfi og 10 í vetrarleyfi
Kjarasamningur FF:
0-5 ár: 24 dagar
5 ár í sömu starfsgrein: 25 dagar
5-10 ár hjá RÚV: 27 dagar
+10 ár hjá RÚV: 30 dagar
Starfsmaður sem hefur áunnið sér 29 eða 30 daga orlofsrétt hjá fyrri atvinnurekanda fær hann að nýju eftir þrjú ár hjá RUV ohf., enda hafi rétturinn verið staðreyndur.
Þriggja mánaða leyfi
Blaðamenn, sem unnið hafa óslitið 5 ár eða lengur hjá sama blaði, skulu að loknu 5 ára starfi fá þriggja mánaða frí á fullum launum, og skal þá innifalið sumar- og vetrarleyfi ársins. Blaðamenn fái þetta frí aftur eftir 10 ára starf, síðan hverju sinni eftir 4 ár.
Ráði útgefandi til starfa blaðamann frá öðru blaði, sem þar hefur starfað í samfellt a.m.k. fimm ár, skal hann þó halda áunnum rétti sínum til þriggja mánaða frís og hljóta það hjá hinum nýja útgefanda, eins og hann hefði starfað samfellt hjá honum.
Kjarasamningur FF gerir ráð fyrir tveggja mánaða leyfi auk orlofs á fimm ára fresti, aftur eftir tíu ár og svo á fjögurra ára fresti.
Veikindaréttur
Fastráðnir blaðamenn eiga rétt á fullum launum í veikindum í tiltekinn tíma en veikindaréttur eykst með auknum starfstíma sem hér segir:
0-4 mánaða starfsreynsla: 1 vika fyrir hvern unninn mánuð
4mán-5 ára starfsreynsla: 3 mán á 100% launum + 3 mán á 50% launum
5-10 ára starfsreynsla: 4 mán á 100% launum +4 mán á 50% launum
+10 ára starfsreynsla: 6 mán 100% launum +6 mán á 50% launum
Fastráðning
Fyrstu 4 mánuðir í starfi teljast reynslutími. Eftir 4 mánaða samfellt starf er blaðamaður fastráðinn.
Uppsagnarfrestur
Gagnkvæmur uppsagnarfrestur milli fastráðins starfsmanns og atvinnurekanda er sem hér segir:
Uppsagnarfrestur á reynslutíma er ein vika en 3 mánuðir eftir fastráðningu.
Eftir 12 ára samfellt starf skal uppsagnarfrestur atvinnurekanda vera 4 mánuðir. Sé starfsmanni sagt upp eftir a.m.k. 10 ára samfellt starf hjá sama fyrirtæki, er uppsagnarfrestur 4 mánuðir ef starfsmaður er orðinn 55 ára, 5 mánuðir ef hann er orðinn 60 ára og 6 mánuðir þegar hann er orðinn 63 ára. Starfsmaður getur hins vegar sagt upp starfi sínu með 3 mánaða fyrirvara.