Fjörugar umræður spunnust á málþingi um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem Fjölmiðlanefnd og Blaðamannafélagið stóðu fyrir í gærkvöldi. Frummælendur voru þau Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, Þórður Snær Júlíusson, Sævar Freyr Þráinsson, Hallgrímur Thorsteinsson og Elfa Ýr Gylfadóttir, en fundarstjóri var Arna Schram.
Í framsögum reifuðu frummælendur hugmyndir sínar um ritstjórnarlegt sjálfstæði og voru menn almennt sammála um mikilvægi þess þótt snúið gæti reynst að skilgreina nákvæmlega hvað í því fælist og hvernig það yrði best tryggt. Press mun á næstunni reyna að birta þær framsögur sem voru byggðu á skrifuðum texta og reifa efni annarra. Hér á eftir verður riðið á vaðið með framsögu Þórðar Snæs. Almennt voru frummælendur sammála um að ýmsar hættur steðjuðu að ritstjórnarlegu sjálfstæði en talsverður samhljómur var með þeim í lokaorðum um að rekstrargrunnur og veikur efnahagur fjölmiðla ásamt erfiðum starfsskilyrðum blaðamanna væru sérstaklega varhugaverð hvað þetta varðar.
Fundurinn var vel sóttur og umræður fjörugar sem áður segir þannig að dagskráin teygðist nokkuð frá því sem áformað hafði verið.
Framsaga Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans:
Takk fyrir að leyfa mér taka þátt í þessari þörfu umræðu.
Fyrir mér felst sjálfstæði ritstjórna í því að aðrir hagsmunir en að upplýsa lesendur, áhorfendur eða áhlustendur eiga ekki að ráða för við vinnslu frétta. Trúnaður ritstjórna á að liggja við lesendur og enga aðra.
Hvernig eigi að tryggja að þetta sjálfstæði ritstjórna sé við lýði er hins vegar allt annað mál. Það hefur verið reynt með því að setja lög. Eigendur hafa einnig sett reglur sem hafa fengið allskonar mismunandi nöfn; siðareglur, ritstjórnarreglur, reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði osfr. Ekkert af þessu hefur virkað.
***
Ég er þeirrar skoðunar að ritstjórnarlegu sjálfstæði sé ekki hægt að koma á með orðum á blaði eða lögum sem fylgja ekki einu sinni heimildir til að sinna eftirliti með framfylgni ritstjórnarlegs sjálfstæðis. Það er ritstjórnin sjálf sem verður að móta þær reglur sem hún vinnur eftir sem tryggja það sjálfstæði. Þær geta til að mynda tekið mið af siðareglum stéttarfélags okkar, þótt þær reglur séu fjarri því fullkomnar.
Sú ritstjórn sem vinnur saman þarf að koma sér saman um hvernig hún ætlar að verja sjálfstæði sitt gagnvart eigendum,gagnvart stjórnmálamönnum, gagnvart áhrifaöflum í atvinnulífinu. Í raun gagnvart öllum þeim sem hafa áhuga á, hagsmuni eða vilja til að hafa áhrif á fréttaflutning. Slíkt getur byggt á formlegum reglum en líka á óformlegum skilningi og óformlegum vinnureglum sem stuðst er við við vinnslu frétta.
Til að slíkt vinnulag sé tækt þá þarf að ríkja traust á milli þeirra sem skipa ritstjórn hverju sinni. Ég held að ég sé ekki að opinbera neitt leyndarmál þegar ég segi að sú öra starfsmannavelta, það atvinnuóöryggi sem íslenskir blaðamenn búa við og sá stanslausi niðurskurður sem starfsemi fjölmiðla hefur orðið fyrir undanfarin misseri dragi úr líkum þess að slíkt traust og slíkt vinnulag verði að veruleika.
***
Ég hef unnið í um áratug í blaðamennsku á Íslandi. Ég tók það saman áðan að ég hafi unnið á sex mismunandi fjölmiðlum á þeim tíma, ef við teljum Blaðið og 24 stundir sem einn og ég sleppi því að tvítelja Fréttablaðið. Á þeim tíma hef ég unnið undir tíu mismunandi ritstjórum, ef ég sleppi því að telja Ólaf Stephensen þrisvar, en ég hef unnið undir honum á þremur mismunandi fjölmiðlum. Og ég er alls ekkert einsdæmi.
Það er því miður veruleiki mjög margra blaðamanna að skipta ört um starfsvettvang.
Það eru ýmiskonar ástæður fyrir þessu. Nánast árlegar hræringar á mörgum af stærstu fjölmiðlum landsins gera það að verkum að oft opnast tækifæri á að fara í störf sem eru meira spennandi eða borga betur. Líkt og í flestum geirum er það hvati að fara til fyrirtækis sem starfar á þínu sérsviði sem er með meiri útbreiðslu og vill borga þér betri laun. Metnaður til að hafa meiri áhrif fer þá saman við hagsmuni buddunar.
Það hefur hins vegar líka komið fyrir að ég hef hætt störfum á fjölmiðlum vegna þess að mér fannst afskipti eigenda af lögmætum og réttum fréttaflutningi verulega óeðlileg. Í þeim tilfellum hafa eigendur, eða fulltúar eigenda, meðal annars farið fram á það við yfirmenn mína að ég yrði rekinn vegna skrifa sem tengdust þeim.
Við slíkar aðstæður hefur mér þótt eðlilegt að segja einfaldlega upp, þar sem mínar hugmyndir um ritstjórnarlegt sjálfstæði og varðveiðslu trúverðugleika fjölmiðla fóru augljóslega ekki saman við hugmyndir eigendanna. Sem launamaður er fráleitt að gera kröfu til fyrirtækis sem maður starfar hjá að það breytist á þann hátt sem maður kýs. Ef maður er ósáttur, eða veit að eigendur fyrirtækisins eru ósáttir við sig, þá hefur maður einungis eitt að gera: að segja upp og vinna annarsstaðar.
***
Kjarninn, miðillinn sem ég á hlut í og ritstýri í dag, varð eiginlega til vegna vilja okkar sem að honum standa til að koma á algjöru ritstjórnarlegu sjálfstæði. Í samfélagi eins og því íslenska, þar sem nándin er mikil, vilji hagsmunaaðila til að eiga og hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun er skýr, og allir þekkja annað hvort einhvern eða þekkja einhvern sem þekkir hann, þá blasti það við okkur að eina leiðin til þessa væri sú að ritstjórnin og samstarfsmenn hennar ættu einfaldlega alltaf meirihluta í fjölmiðlafyrirtækinu. Með þeim hætti verjum við okkar ristjórnarlega sjálfstæði frá skipunum eða afskiptum að ofan án þess að það hafi áhrif á atvinnuöryggi okkar.
Annað sem við gerðum er að stofna ekki til skulda. Og það er algilt. Við skuldum engum og gerum upp við alla. Þannig verjum við sjálfstæði okkar enn frekar.
Það er líka mjög áhugavert að vera ritstjóri á fjölmiðli þar sem aðrir meðlimir ritstjórnar geta trompað ritstjórnarvaldið með eigendavaldi sínu.
Hlutverk mitt sem ritstjóra er því fjarri því að deila og drottna. Það get ég ekki. Skoðun og sýn allra á ritstjórn er jafn rétthá og vægi allra atkvæða er jafn mikið. Mitt hlutverk sem ritstjóra felst því í utanumhaldi og skipulagningu, auk fréttaskrifa til jafns við aðra og að koma fram fyrir hönd miðilsins út á við. Þá er ég líka ábyrgðarmaður útgáfunnar. Inn á við er vald mitt ekkert meira en hinna eigendanna.
***
Það er mín skoðun, eftir að hafa harkað í þessari tilraun til sjálfstæðrar og gagnrýnar blaðamennsku sem Kjarninn er í næstum 16 mánuði, að þetta vinnulag er bæði mun heilbrigðara en þau vinnuumhverfi sem ég hef starfað í áður og að það skili mun vandaðri vinnu. Við erum mjög óhrædd við að gagnrýna fréttir hvors annars og veita hvoru öðru aðhald. Þegar við gerum mistök gerum við þau saman. En við stöndum líka fast saman þegar á móti blæs og þungi hagsmunaaðila leggst á okkur. Það gerist mun oftar en flestir átta sig á, sérstaklega á svona umbrotartímum eins og eru núna í íslensku samfélagi.
Sá trúverðugleiki sem við höfum byggt upp á þeim tíma sem við höfum starfað sannar fyrir mér að þetta sé að minnsta kosti ein leið til að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði. Það vantraust sem ríkir gagnvart nánast öllum öðrum einkafjölmiðlum, sem reknir eru með öðrum hætti, staðfestir það líka.
Þetta vinnulag gæti auðvitað breyst ef við vöxum og ráðum inn fleira starfsfólk, sem hlýtur alltaf að vera stefna lítils fjölmiðlafyrirtækis. Þá þurfum við að endurskoða það vinnulag og ákveða hvernig sjálfstæði stærri ritstjórnar verði háttað.
Ég get ekki svarað því nú hvernig við munum leysa það mál, en ég er þess fullviss að sú reynsla sem við höfum af störfum á öðrum fjölmiðlum muni hjálpa okkur við að sniðganga það sem við eigum ekki að gera, og sú reynsla sem við höfum safnað í bankann undanfarið tæpt eitt og hálft ár mun nýtast við að finna nýjan farsælan farveg. Það er verkefni sem ég hræðist nákvæmlega ekkert.
19.09.2014
Lesa meira