Kjarninn birti í gærkvöldi grein þar sem veist var með óvenjulegum hætti að Blaðamannafélagi Íslands fyrir hafa ekki blandað sér í átök um eignarhald á fjölmiðlum á síðustu vikum og mánuðum. Pistillinn er er birtur í dáki vefsíðunnar "Úr bakherberginu", sem er nafnlaus dálkur sem birtir upplýsingar og frásagnir með óhefðbundnum hætti og ekki eins formlegum og tíðkast í fréttum. Forsvarsmenn Kjarnans halda því þó fram að þessi pistill og dálkurinn í heild sé málefnalegur og upplýsingar þar séu réttar! Í þessum tiltekna pistli virðist þó hafa orðið einhver misbrestur á því þar sem upplýsingarnar eru fjarri því að vera sannleikanum samkvæmar og hefur Hjálmar Jónsson formaður BÍ sent Kjarnanum línu þar sem hann gerir athugasemd við framsetningu og efni pistilsins. Bréf Hjálmars er eftirfarandi:
Nafnleysingja svarað undir nafni
Ég gerði mér hærri hugmyndir um Kjarnann en að hann teldi sér akk í því að birta nafnlausa pistla um mikilsverð málefni, eins og þann sem birtist í gærkveldi í dálknum Úr bakherberginu. Raunar hélt ég að fjölmiðlar sem vilja láta taka sig alvarlega gerðu sér far um að birta skoðanir undir nafni, þó ekki væri nema vegna gagnsæis og samhengis hlutanna. Launvíg hafa ekki þótt eftirbreytniverð til þessa og ég hlýt að líta svo á að um dómgreindarbrest sé að ræða.
Í skoðanapistlinunum er vikið með niðrandi hætti að starfsemi Blaðamannafélags Íslands. Það þykir mér mjög miður. Þar að auki eru þar borin á borð ósannindi fyrir lesendur Kjarnans. Það þykir mér öllu verra.
Höfundi skoðanapistilsins þykir það afar ómerkilegt að félagið skuli eiga og leigja sumarbústaði til félagsmanna sinna, eins og nánast öll önnur stéttarfélög í landinu. Mér þykir það ekki ómerkilegt hlutskipti að eiga hlut að því að blaðamenn geti átt kost á sumarhúsadvöl eins og aðrar starfsstéttir í landinu. Það er eðlilegur þáttur í starfsemi stéttarfélags, eins og það að reka styrktarsjóð og endurmenntunarsjóð, semja um kaup og kjör og reyna að tryggja að starfskjör félagsmanna séu virt, að ekki sé talað um alla þá faglegu starfsemi sem Blaðamannafélagið stendur fyrir með útgáfumálum, verðlaunaveitingum, rekstri siðanefndar og fundarhöldum ýmis konar. Mér er raunar til efs að nokkuð annað stéttarfélag eða fagfélag í landinu sé jafn öflugt á því sviði.
Í skoðanapistlinum er því haldið fram að Blaðamannafélagið hafi í engu látið sig varða þær sviftingar sem hafa átt sér stað á fjölmiðlamarkaði að undanförnu. Það er rangt. Í samvinnu við Fjölmiðlanefnd stóð félagið fyrir málþingi um sjálfstæði ritstjórna á haustdögum, þar sem raunar ritstjóri Kjarnans var einn frummælanda, ef minnið svíkur ekki. Þá hefur stjórn Blaðamannafélags Íslands marg sinnis ályktað í þessa veru á undanförnum misserum, auk þess sem stjórn félagsins beitti sér fyrir mótun viðmiðunarreglna um sjálfstæði ritstjórna. Þá hefur stjórn félagsins einnig ítrekað komið þeim sjónarmiðum á framfæri við löggjafarvaldið að nauðsynlegt væri að setja lagramma um sjálfstæði ritstjórna, en ekki haft erindi sem erfiði í þeim efnum, því miður.
Nafnlaus höfundur skoðanapistilsins sýnist mér vera mótaður af þeirri umræðuhefð sem þróast hefur hér á landi með hörmulegum afleiðingum og miðar að því að ræða helst aldrei efni máls og ef það er gert að gera það þá með útúrsnúningum og stundum rætni. Ég ætla ekki að taka þátt í þeim leik. Ég fagna hins vegar málefnalegri gagnrýni. Hún er þroskamerki og með þannig umræðu miðar okkur fram á við.
Hjálmar Jónsson, formaður BÍ
Pistill Kjarnans er hér
Annað forvitnilegt og tengt efni:
Ályktun Stjórnar BÍ vegna DV og 365 Umfjöllun um Pressukvöld um ritstjórnarlegt sjálfstæði (og framsaga ritstjóra Kjarnans)Grein úr Blaðamanni í fyrra og af press.is um stöðu ritstjórnarlegs sjálfstæðisSjá einnig síðasta Blaðamann (des 2014), grein um BÍ og ritstjórnarlegt sjálfstæðiSjá einnig viðvarandi tilmæli og leiðbeiningar BÍ um samninga um ritstjórnarlegt sjálfstæði hér neðar á síðunni
06.01.2015
Lesa meira