Ég fagna því að Hæstiréttur standi með blaðamönnum í því að standa vörð um heimildarmenn sína. Það er lykilatriði fyrir starf blaðamanna að þeir haldi trúnað við heimildarmenn, sagði Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands í viðtali við Morgunblaðið í morgun. Formaður Blaðamannafélagsins telur það ánægjuefni að íslenskir dómstólar skilji mikilvægi þess að blaðamenn haldi trúnað við heimildamenn, enda hafi öll rök í málinu hnigið að þessari niðurstöðu. Hjálmar Jónsson undirstrikar þó að engin ástæða sé til að efast um að blaðamenn myndu hafa staðið vörð um heimildamenn sína, óháð því hver niðurstaða dómstóla hefði orðið. Tilefni þessara ummæla er niðurstaða Hæstaréttar í Lekamálinu svokallaða, en rétturinn staðfesti að blaðamönnum bæri ekki að gefa upp heimildamenn sína.
Blaðamannafélagið hafði áður ályktað um málið með mjög afgerandi hætti eins og sjá má hér.
Samantekt Hæstaréttar má sjá hér á eftir en dóminn í heild má lesa hér.
Í tengslum við rannsókn ætlaðra brota á þagnarskyldu samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 krafðist L þess að X, fréttastjóri vefmiðilsins mbl.is, skýrði frá því fyrir dómi hver hefði ritað frétt sem birtist á umræddum vefmiðli 20. nóvember 2014 og byggði á minnisblaði innanríkisráðuneytisins um málefni tiltekins hælisleitanda. Þess var og krafist að X greindi frá því með hvaða hætti vefmiðillinn hefði komist yfir minnisblaðið og frá hverjum það hefði borist. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 gæti dómari ákveðið að vitni svaraði spurningum um atriði, sem því væri ella óheimilt að svara samkvæmt a. til d. lið 2. mgr. 119. gr. laganna, ef vitnisburðurinn gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls og að ríkari hagsmunir væru af því að spurningunum yrði svarað en að trúnaður héldi. Fallast yrði á það með L að það gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamáls gegn viðkomandi starfsmanni eða starfsmönnum ráðuneytisins að varpa ljósi á með hvaða hætti og frá hverjum umrætt minnisblað hefði borist blaðamanni mbl.is. Á hinn bóginn yrði að telja að þótt mikilsverðir hagsmunir væru tengdir því að upplýsa ætluð brot væru sakargiftir í málinu ekki nógu alvarlegar til þess að X yrði gert að gefa upp heimildarmann mbl.is fyrir fréttaflutning fjölmiðilsins greint sinn. Væri því ekki fullnægt skilyrðum ákvæðisins til að víkja frá heimildarvernd a. liðar 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar, kom fram að frá meginreglunni um vernd heimildarmanna fjölmiðla yrði því aðeins vikið að í húfi væru mjög veigamiklir almannahagsmunir sem vægju augljóslega þyngra en hagsmunir fjölmiðla af því að halda trúnaði við heimildarmenn sína. Málefni þeirra sem leitað hefðu hælis hér á landi hefðu verið mikið rædd á opinberum vettvangi og því væri eðlilegt að um þau væri fjallað á opinberum vettvangi. Yrði að teknu tilliti til þess ekki talið að L hefði sýnt fram á að hagsmunir X af því að halda trúnað við höfund og heimildarmann fréttarinnar ættu að víkja fyrir þeim hagsmunum að henni skyldi gert skylt að svara spurningum L í því skyni að upplýsa málið.
19.06.2014
Lesa meira