Fréttir

Fréttabréf EFJ

Fréttabréf EFJ

Fréttabréf Evrópusambands blaðamanna er komið út á rafrænu formi á ensku (auk fleiri tungumála). Í fréttabréfinu er fjallað um stöðu og horfur blaðamennskunnar víða um álfuna og sérstaklega er því fagnað í leiðara hve margir af nýkjörnum þingmönnum á Evrópuþinginu hafa lýst yfir stuðningi við átak sambandsins um að taka upp málefni fjölmiðla á kjörtímabilinu, einkum atriðum sem varða fjölbreytni fjölmiðla. Sjá fréttabréfið hér
Lesa meira
Fagnar niðurstöðu Hæstaréttar

Fagnar niðurstöðu Hæstaréttar

„Ég fagna því að Hæstiréttur standi með blaðamönnum í því að standa vörð um heimildarmenn sína. Það er lykilatriði fyrir starf blaðamanna að þeir haldi trúnað við heimildarmenn,“ sagði Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands í viðtali við Morgunblaðið í morgun.  Formaður Blaðamannafélagsins telur það ánægjuefni að íslenskir dómstólar skilji mikilvægi þess að blaðamenn haldi trúnað við heimildamenn, enda hafi öll rök í málinu hnigið að þessari niðurstöðu.  Hjálmar Jónsson undirstrikar þó að engin ástæða sé til að efast um að blaðamenn myndu hafa staðið  vörð um heimildamenn sína, óháð því hver niðurstaða dómstóla hefði orðið. Tilefni þessara ummæla er niðurstaða Hæstaréttar í „Lekamálinu“ svokallaða, en rétturinn staðfesti að blaðamönnum bæri ekki að gefa upp heimildamenn sína.  Blaðamannafélagið hafði áður ályktað um málið með mjög afgerandi hætti eins og sjá má hér.  Samantekt Hæstaréttar má sjá hér á eftir en dóminn í heild má lesa hér.  Í tengslum við rannsókn ætlaðra brota á þagnarskyldu samkvæmt 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 krafðist L þess að X, fréttastjóri vefmiðilsins mbl.is, skýrði frá því fyrir dómi hver hefði ritað frétt sem birtist á umræddum vefmiðli 20. nóvember 2014 og byggði á minnisblaði innanríkisráðuneytisins um málefni tiltekins hælisleitanda. Þess var og krafist að X greindi frá því með hvaða hætti vefmiðillinn hefði komist yfir minnisblaðið og frá hverjum það hefði borist. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að samkvæmt 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 gæti dómari ákveðið að vitni svaraði spurningum um atriði, sem því væri ella óheimilt að svara samkvæmt a. til d. lið 2. mgr. 119. gr. laganna, ef vitnisburðurinn gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu máls og að ríkari hagsmunir væru af því að spurningunum yrði svarað en að trúnaður héldi. Fallast yrði á það með L að það gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu sakamáls gegn viðkomandi starfsmanni eða starfsmönnum ráðuneytisins að varpa ljósi á með hvaða hætti og frá hverjum umrætt minnisblað hefði borist blaðamanni mbl.is. Á hinn bóginn yrði að telja að þótt mikilsverðir hagsmunir væru tengdir því að upplýsa ætluð brot væru sakargiftir í málinu ekki nógu alvarlegar til þess að X yrði gert að gefa upp heimildarmann mbl.is fyrir fréttaflutning fjölmiðilsins greint sinn. Væri því ekki fullnægt skilyrðum ákvæðisins til að víkja frá heimildarvernd a. liðar 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Í dómi Hæstaréttar, sem staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar, kom fram að frá meginreglunni um vernd heimildarmanna fjölmiðla yrði því aðeins vikið að í húfi væru mjög veigamiklir almannahagsmunir sem vægju augljóslega þyngra en hagsmunir fjölmiðla af því að halda trúnaði við heimildarmenn sína. Málefni þeirra sem leitað hefðu hælis hér á landi hefðu verið mikið rædd á opinberum vettvangi og því væri eðlilegt að um þau væri fjallað á opinberum vettvangi. Yrði að teknu tilliti til þess ekki talið að L hefði sýnt fram á að hagsmunir X af því að halda trúnað við höfund og heimildarmann fréttarinnar ættu að víkja fyrir þeim hagsmunum að henni skyldi gert skylt að svara spurningum L í því skyni að upplýsa málið.  
Lesa meira
Héraðsfréttamenn líta á sig sem samfélagssmiði

Héraðsfréttamenn líta á sig sem samfélagssmiði

 Ritstjórar á héraðsfréttablöðum beita sjálfsritskoðun samkvæmt eigindlegri viðtalsrannsókn Björns Þorlákssonar í lokaritgerð hans í MA námi blaða- og fréttamennsku við  HÍ.  Niðurstaða Björns er að nálægðarvandi og erfið rekstrarskilyrði verði til þess að blaðamenn í dreifbyli kjósi frekar að leggja áherslu á hlutverk „samfélagssmiðsins“ en  aðalhaldshlutverk sitt eða það sem iðulega er kallað varðhundshlutverk. Úrdráttur úr ritgerð Björns er svohljóðandi:  Eitt meginhlutverk fjölmiðla er að veita valdi aðhald og spyrja gagnrýninna spurninga. Oft er þetta aðhaldshlutverk kallað varðhundshlutverkið. Fjölmiðlar þykja mikilvægur öryggisventill í lýðræðissamfélögum og hefur verið vísað til fjölmiðla sem fjórða valdsins. Aukin krafa um sjálfstæði og aðhald fjölmiðla kom fram á Íslandi í Rannsóknarskýrslu Alþingis á sama tíma og ytri skilyrði til fjölmiðlarekstrar versnuðu eftir efnahagskreppuna árið 2008. Fækkað hefur í stétt blaðamanna og ekki síst í dreifðari byggðum. Tekjuöflun fréttamiðla veltur að mestu á auglýsingum. Áskrifendum hefðbundinna fjölmiðla fækkar, blaðamennska færist í ríkari mæli yfir í netheima þar sem áhersla á að fréttir selji vel hefur farið vaxandi. Í þessari ritgerð verður spurt hvernig héraðsfréttablöð á Íslandi hafi brugðist við opinberu ákalli um mikilvægi sjálfstæðrar og gagnrýninnar fréttamennsku. Niðurstaðan styður við fyrri rannsóknir, að vegna nálægðarvanda og efnahagsskilyrða kjósi blaðamenn í dreifðri byggð enn að leggja mesta áherslu á að binda eigið nærsamfélag saman, það sem kallað er samfélagssmiðshlutverk í ritgerðinni. Lítil áhersla sé á aðhald gegn valdhöfum. Ritstjórar héraðsfréttablaða beiti sjálfsritskoðun. Rof hafi orðið á eldveggjum milli ritstjórna og auglýsingadeilda. Lögð sé áhersla á milda fréttastefnu, sem forvirka aðgerð gegn aðkasti sem vekur spurningu um burði héraðsfjölmiðla til að sinna lýðræðislegum skyldum.“ Sjá ritgerðina í heild hér    
Lesa meira
Hvetja til alþjóðlegrar samstöðu um að taka á ofbeldi gegn blaðamönnum

Hvetja til alþjóðlegrar samstöðu um að taka á ofbeldi gegn blaðamönnum

 Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) lagði til á sérstökum umræðufundi Manréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf í vikunni að farið yrði í samrædar aðgerðir til efla öryggi blaðamanna vítt um heim.  Umræðuefni fundarins var einmitt  um öryggismál í fjölmiðlum.  Það var Erenst Sagaga formaður mannréttindamála hjá IFJ sem talaði fyrir hönd sambandsins á fundinum og hvatti aðildarríki Sþ til að standa sameiginlega að baki átaki þar sem  stjórnvöld víða um lönd væru fengin til að taka með afgerandi hætti á ofbeldi og árásum gegn blaðamönnum í stað þess að  láta ofbeldið viðgangast óátalið.   Sjá nánar hér  
Lesa meira
Konur síður með fyrstu fréttir

Konur síður með fyrstu fréttir

Í rann­sókn­ sem Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamaður gerði sem lokaverkefni í meistaranámi í blaða-og fréttamennsku við HÍ á niðurröðun frétta í fréttatímum Stöðvar 2 og RÚV kom fram nokkur munur á milli stöðva hvað varðar hlut kvenna í fyrstu fréttum. Kon­ur á Stöð 2 fluttu 18 sinnum fyrstu frétt­ir í des­em­ber og fe­brú­ar, eða 30% þeirra, og karl­ar 70%. Á RÚV var minni mun­ur­inn, þar sem kon­ur fluttu 43% fyrstu frétta en karl­menn 57%. Um þetta er fjallað á frétt á mbl.is sem má  nálgast hér.    Úrdráttur Arnhildar úr ritgerðinni hljóðar svo: Fræðimenn hafa haldið því fram að fjölmiðlaumhverfið sé karllægt. Þá hefur því verið haldið fram að konur hafi ekki aðgengi að öllum efnisflokkum til jafns á við karla og að efni eftir þær sé minna metið. Þessi rannsókn snýr að efnistökum og röðun efnis eftir karlkyns og kvenkyns fréttamenn á tveimur ljósvakamiðlum, RÚV og Stöð 2. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort munur væri á efnistökum karla og kvenna og hvort framlag þeirra væri jafnmikils metið. Þá var kannað hvort fréttamenn teldu áhuga, aðgengi eða aðra þætti ráða því hvaða málaflokka fréttamenn fjölluðu um og hversu framarlega fréttir þeirra röðuðust. Loks voru viðhorf fréttamanna til fréttamats, jafnréttismála og stöðu kynjanna á vinnustað könnuð. Rannsóknin samanstendur af innihaldsgreiningu, vettvangsathugun og djúpviðtölum. Innihaldsgreiningin fólst í greiningu fyrstu frétta kvöldfréttatímans á báðum stöðvum í tvo mánuði og allra frétta fréttatímans í einn mánuð. Fréttirnar voru greindar eftir kyni fréttamanns, röðun og efnisflokkum. Tekin voru tíu djúpviðtöl við fréttamenn og stjórnendur á miðlunum. Niðurstöður vettvangsathugunar voru ásamt niðurstöðum innihaldsgreiningar-innar notaðar sem samræðugrundvöllur í þeim. Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að það er munur á efnistökum karla og kvenna. Þá röðuðust fréttir karla frekar framarlega í fréttatímann en fréttir kvenna. Munur á efnistökum karla og kvenna var mun meiri á Stöð 2 en á RÚV. Fréttamenn töldu efnistök frekar ráðast af áhuga heldur en aðgengi. Aðgengi kann þó að vera skert á sumum sviðum vegna þess að hefð er komin á að karlar sinni þeim. Konur á Stöð 2 upplifðu að fréttir þeirra væru ekki jafn mikils metnar og fréttir karla en konur á RÚV upplifðu það síður. Þá lýstu konur því frekar yfir að þær vildu breyta fréttamatinu á miðlinum svo málaflokkar sem konur fjölluðu mikið um fengju meira vægi. Sjá ritgerðina í heild hér
Lesa meira
Mannréttindadómstóll Evrópu í Strassborg

Áfangasigur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu

 Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) og Evrópusamband blaðamanna (EFJ) hafa fagnað niðurstöðu  Mannréttindadómstóls Evrópu að taka til efnismeðferðar fyrir aðaldómstólnum mál finnska ljósmyndarans Markusar Pentikäinen. Markus Pentikäinen var dæmdur af finnskum dómstólum fyrir að hunsa tilmæli lögreglu þegar verið var að rýma svæði vegn mótmæla vegna Asíska-evrópska fundarinw (Asem) sem haldinn var árið 2006, en þá var hann að ljósmynda mótmælin. Það er   Blaðamannafélagið í Finnlandi sem stendur í málarekstrinum fyrir hönd Markusar Pentikäinen gegn finnska ríkinu. Þessi niðurstaða er talinn áfangasigur fyrir málstað blaðamanna í málinu. Sjá hér  
Lesa meira
Breytingar víða hjá blaðamönnum í Noregi

Breytingar víða hjá blaðamönnum í Noregi

Nokkur urgur er í starfsfólki Aftenposten í Noregi vegna áforma stjórnenda um breytt vinnubrögð á ritstjórninni og breytinga í vinnuskipulagi og þar með launamálum.  Tilkynnt hefur verið að starfsmenn verði boðaðir í viðtöl og farið yfir  fyrirhugaðar breytingar og kallað eftir því hvort áhugi sé fyrir áframhaldandi starfi á nýum forsendum eða hvort fólk vilji ræða möguleikann á einhvers konar starfslokasamningum. Víða á fjölmiðlum í Noregi eru menn nú að ræða um atvinnuöryggi og launamál en rekstur margra fjölmiðla  hefur verið erfiður. Sjá meira hér  
Lesa meira
Nordicom auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Nordicom auglýsir eftir framkvæmdastjóra

Nordicom hefur auglýst eftir framkvæmdastjóra/forstöðumanni í 100% starf. Nordicom er  félagsskapur á  vegum Norrænu ráðherranefndarinnar um fræðilegar rannsóknir á sviði fjölmiðla og boðmiðlunar sem starfar í tengslum við Gautaborgarháskóla. Nordicom safnar saman upplýsingum um rannsóknir í fjölmiðlun á Norðulöndum og Evrópu og birtir fræðigreinar í samnefndu tímariti sínu, Nordicom Review.   Nánari upplýsingar um stöðuna og starfsskilyrði er að finna hér   
Lesa meira
Gagnrýna harðlega viðmiðunarreglur ESB um tjáningarfrelsi

Gagnrýna harðlega viðmiðunarreglur ESB um tjáningarfrelsi

Evrópusambandið samþykkti fyrr í mánuðinum viðmiðunarreglur um tjáningarfrelsi - bæði almennt og og á netinu - en bæði Evrópusamband blaðamanna (EFJ), Alþjóðasamband blaðamanna (IFJ) og ýmis mannréttindasamtök sem láta sig tjáningarfresli varða höfðu eingdregið hvatt til þess að þessar viðmiðunarreglur yrðu skoðaðar betur áður en þær tækju gildi.  Ástæðan er sú að þessi samtök telja viðmiðunarreglurnar ekki tryggja  rétt almennings og blaðamanna að upplýsingum sem skipta máli. „Það er hneykslanlegt að Evrópusambandið skuli taka upp og samþykkja viðmiðunarreglur um tjáningarfrelsi sem standast ekki alþjóðlega viðurkennda staðla,“ segir Jim Boumelha, forseti IFJ.  „Að í þessum relgum skuli menn láta undir höfuð leggjast að tryggja rétt til upplýsinga og ekki heldur fjalla um hlutverk blaðamanna og samtaka þeirra í að tryggja fagleg skilyrði blaðamennsku hlýtur að teljast grundvallarveikleiki sem sem dregur úr ávinningi þeirrar þróunar sem orðið hefur á undanförnum árum varðandi rétt almennings og blaðamanna til upplýsinga,“ segi Boumelha ennfremur.  Sjá nánar hér  
Lesa meira
Stuttmynd frá vinnustofu um öryggi blaðamanna

Stuttmynd frá vinnustofu um öryggi blaðamanna

 Alþjóða blaðamannasambandið hefur gert stuttmyn um vinnustofu um öryggi blaðamanna en vinnustofan var haldin á ráðstenfu UNESCO  í París í tilefni af alþjóðlegum degi fjölmiðlafrelsins þann 6 maí síðast liðinn. Alþjóðasambandið notað þessa ráðstefnu til þess að hvetja ýmsar alþjóðastofnanir til að aðstoða við að gæta réttinda og öryggis blaðamanna og starfsmanna fjölmiðla og koma í veg fyrir að stjórnvöld víða um heim láti vera að refsa fyrir ofbeldisverk gegn fjölmiðlafólki. Sjá myndina hér  
Lesa meira