- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Í tilefni af málþingi Blaðamannafélagsins um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem haldið verður annað kvöld kl 20 í Kornhlöðunni er hér birt grein sem Birgir Guðmundsson skrifaði í Blaðamanninn í desember 2013. Greinin er smantekt á stöðu þessara mála eins og þau stóðu þá og hvernig Blaðamannafélagið hefur brugðist við og er gagnlegur bakgrunnur fyrir umræðuna sem fram fer á málþinginu á morgun.
Um hlutverk Blaðamannafélagsins í reglusetningu og eftirliti með brotum á reglum
Talsverð umræða hefur spunnist um ritstjórnarlegt sjálfstæði í kjölfar greinaskrifa Magnúsar Halldórssonar á vísir.is og síðan mannabreytinga á ritstjórn Fréttablaðsins. Ljóst er að mál af því tagi sem þarna kom upp í rauninni algerlega óháð því hvort var um raunveruleg afskipti eigenda að ræða eða ekki eru til þess fallin að valda ákveðnum kælingaráhrifum hjá stéttinni allri, ekki bara Fréttablaðsfólki. Tillaga um sérstakt fagráð hjá Blaðamannafélaginu er áhugaverður farvegur fyrir mál af þessu tagi.
Umræðan um ritstjórnarlegt sjálfstæði og afskipti eigenda af ritstjórnarákvörðunum beinir sjónum blaðamanna að (veikri?) stöðu stéttarinnar og jafnvel í einhverjum tilfellum gæti hún hvatt til sjálfsritskoðunar. Því verður spurningin um ritstjórnarlegt sjálfstæði sérstaklega mikilvæg ekki síst þegar við bætist að í fjölmiðlalögum frá 2011 er sérstakt ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði og þetta ákvæði var raunar endurskoðað nokkuð við þinglokin í vor þegar samþykktar voru breytingar og viðauki við fjölmiðlalögin. Þar var þó fyrst og fremst um orðalagsbreytingarv að ræða. Ákvæðið um ritstjórnarlegt sjálfstæði var sett í lögin með stuðningi Blaðamannafélagsins þó félaginu hafi vissulega verið ljóst að útfærsla þess kynni að vera vandasöm og erfitt gæti reynst að fylgja eftir og tryggja að ekki verði farið í kringum þau ákvæði sem í reglunum eru sett. Það er einkum tvennt í þessum reglum sem skiptir máli út frá sjónarhóli Blaðamannafélagsins.
Í fyrsta lagi það sem segir í 1. málsgrein 24. greinar að reglurnar skuli mótaðar í samráði við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra eða samtök. Með þessu ákvæði er tryggt að Blaðamannafélagið á aðkomu að málinu og að starfsmenn á tilteknum ritstjórnum þurfa ekki að standa sjálfir frammi fyrir yfirmönnum sínum og eigendum við að sjóða slíkar reglur saman.
Hitt atriðið sem skiptir miklu máli út frá sjónarhóli Blaðamannafélagsins eru ákvæðin í annari málsgrein greinarinnar og þó sérstaklega það sem varðar skilyrði fyrir uppsögn. Í þessari málsgrein er fjallað um starfsskilyrði blaða- og fréttamanna við að framfylgja ritstjórnar- eða dagskrárstefnu viðkomandi fjölmiðils, þá starfshætti sem eiga að tryggja ritstjórnarlegt sjálfstæði gagnvart eigendum og síðast en ekki síst skilyrði áminningar og uppsagnar blaðamanna og yfirmanna á ritstjórnum.
Minni hætta á geðþótta
Spyrja má hvers vegna Blaðamannafélagið lagði áherslu á þessi atriði á sínum tíma þegar til dæmis fulltrúar félagsins voru kallaðir fyrir þingnefnd við afgreiðslu frumvarpsins á Alþingi á sínum tíma? Svarið er í raun einfalt. Í fyrsta lagi er auðveldara fyrir félagið sem slíkt að vera í forsvari við gerð þessara samninga en einstaka félagsmenn.
Í öðru lagi er það lykilatriði að hafa uppsagnar- og áminningarferli í opnum og fastmótuðum farvegi þannig að geðþótti eða sérhagsmunir geti síður ráðið ferðinni í slíkum málum. Sjónarmiðið var að gera eigendum og stjórnendum erfiðara fyrir um að reka fólk án málefnalegra skýringa og þannig koma í veg fyrir refsiaðgerðir ef blaðamaður fylgdi frekar eigin sannfæringu um sannleikann, en því sem hentaði hagsmunum útgefenda hverju sinni. Vissulega gerðu menn sér grein fyrir að aldrei yrði að fullu tryggt ritstjórnarlegt frelsi einstakra blaðamanna enda var það raunar ekki endilega markmiðið, heldur voru settar ákveðnar girðingar og það gert erfiðara að áminna eða segja upp starfsfólki og tryggt að ef til slíkra úrræða er gripið liggi fyrir skýringar sem hægt sé að opinbera
Reglur fyrir fréttamiðla
Fjölmiðlanefnd hefur á sinni könnu að framfylgja fjölmiðlalögunum og í lögum er kveðið á um að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði skuli birtar á vef Fjölmiðlanefndar og á heimasíðum viðkomandi miðils. Hins vegar er litla leiðsögn að finna í lögunum um hvernig beri að útfæra framkvæmdina eða eftirlitið með því að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði séu uppfylltar. Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, segir að ekki þurfi allir fjölmiðlar að setja sér reglur af þessu tagi. Samkvæmt 24. gr. laga um fjölmiðla skal fjölmiðlaveita setja sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra starfsmanna sem sinna fréttum og f réttatengdu efni. Ákvæðið á því einungis við um þær fjölmiðlaveitur sem hafa starfsmenn sem sinna fréttum og fréttatengdu efni. Sumar fjölmiðlaveitur sem hafa leyfi eða eru skráðar hjá fjölmiðlanefnd falla ekki undir ákvæðið. Þær reglur sem staðfestar hafa verið af Fjölmiðlanefnd eru birtar á heimasíðu nefndarinnar. Í þeim tilvikum sem fallist hefur verið á að 24. gr. eigi ekki við um starfsemi fjölmiðlaveitunnar hefur niðurstaða nefndarinnar þess efnis verið birt á heimasíðu fjölmiðlanefndar, segir Elfa Ýr. Varðandi þá spurningu hvort erfitt hafi verið að fá miðlana sem eiga að skila slíkum reglum til að skila þeim segir Elfa að með bréfum sem send voru til fjölmiðla, í lok september 2012, hafi þess verið óskað að slíkar reglur ærust nefndinni eigi síðar en 3. desember 2012. Nefndin sendi síðan ítrekun til þeirra fjölmiðlaveitna sem ekki skiluðu reglum innan þess frests og hafa nú allar fjölmiðlaveitur sem fengu sent bréf þar um sent fjölmiðlanefnd reglur til staðfestingar eða erindi vegna þeirra. Hún segir nefndina þó ekki búna að afgreiða alveg öll erindi eða reglur sem borist hafa (í lok mars).
Eingöngu lögmætiseftirlit
Aðspurð um hvort lagt sé efnislegt mat á reglur sem skilað er inn áður en Fjölmiðlanefnd samþykkir þær og birtir þær á heimasíðu sinni segir Elfa Ýr það aðeins gert að takmörkuðu leyti. Samkvæmt 3. mgr. 24. gr. kemur fram að reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði skuli sendar Fjölmiðlanefnd til staðfestingar. Í slíkri staðfestingu felst einvörðungu lögmætiseftirlit samkvæmt meginreglum stjórnsýsluréttar líkt og segir í greinargerð með frumvarpi til laga um fjölmiðla. Fjölmiðlanefnd kemur því eingöngu með athugasemdir við slíkar reglur telji hún ákvæði þeirra fara í bága við lög, segir Elfa Ýr. Samkvæmt þessu skoðar Fjölmiðlanefnd aðeins hvort í reglunum eru ákvæði í samræmi við grein 24, en skiptir sér hins vegar ekkert af því hvernig þessi ákvæði eru. Efla Ýr orðar þetta þannig að Fjölmiðlanefnd hafi þar af leiðandi einungis óskað eftir breytingum í þeim tilvikum þegar ekki hefur verið með fullnægjandi hætti að mati nefndarinnar verið fjallað um þau atriði sem kveðið er á um í a, b eða c lið 24. gr. laga um fjölmiðla. Þannig að ef í reglunum einhvers tiltekins fjölmiðils er að finna ákvæði um starfsskilyrði við að framfylgja ritstjórnarstefnu, starfshætti varðandi ritstjórnarlegt sjálfstæði og skilyrði áminningar og uppsagnar, þá eru reglurnar gjaldgengar frá sjónarhóli Fjölmiðlanefndar.
Fjölmiðlanefnd tekur hins vegar ekki að sér að fylgjast með hvernig þessar reglur hafa orðið til, þ.e. hvort þær hafi verið unnar í samráði við starfsmenn og fagfélög þeirra (Blaðamannafélagið og Félag fréttamanna) og virðist því litið svo á að það sé á ábyrgð starfsmanna sjálfra og þá Blaðamannafélagsins að fylgjast með því að reglurnar séu unnar í samræmi við fyrirmæli laganna.
Fjölmiðlanefnd óheimilt að hafa afskipti
Raunar er það mat Elfu Ýrar að fjölmiðlanefnd hafi ekki heimild til að skipta sér af þessari samningsgerð. Samkvæmt lögum er það fjölmiðlaveitan sem setur sér reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði en slíkar reglur skulu þó mótaðar í samráði við viðkomandi starfsmenn og fagfélög þeirra. Fjölmiðlanefnd upplýsti Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna á RÚV um það í bréfi í haust að verið væri að óska eftir reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði. Samkvæmt lögum hefur fjölmiðlanefnd engar heimildir til að hlutast til um það með hvaða hætti slíkar reglur eru ákvarðaðar. Þess vegna var ákveðið að upplýsa fagfélög blaðamanna um að óskað væri eftir slíkum reglum frá fjölmiðlaveitum þannig að bæði fagfélögin gætu haft aðkomu að setningu slíkra reglna sem og félagsmenn þeirra, segir Elfa.
Eftirlit og þátttaka í setningu reglna um ritstjórnarlegt sjálfstæði á hinumýmsu fjölmiðlum er því sameiginlegt verkefni starfsmanna og Blaðamannafélagsins og þó svo að frumskyldan hljóti að liggja hjá starfsmönnum tiltekins fjölmiðils að fylgjast með þessum málum þá má segja að félagið hlýtur að hafa þarna hönd í bagga og þar með bætist við þann verkefnalista sem forysta og starfsmenn þess þurfa að huga að með reglulegum hætti.
Lögin gera ráð fyrir að reglurnar séu endurskoðaðar árlega og spurning hvort Blaðamannafélagið þarf ekki að formfesta eftirfylgnina með þessum málum á einhvern hátt. Það er því til marks um árvekni stjórnar BÍ að á nýafstöðnum aðalfundi bar hún fram tillögu um sérstakt fagráð undir stjórn varaformanns félagsins, sem m.a. myndi taka að sér verkefni sem þetta. Að fagráðinu verður vikið betur síðar.
Viðmiðunarreglur BÍ
Stjórn Blaðamannafélagsins brást raunar strax síðstliðið haust við upplýsingum um að Fjölmiðlanefnd væri að ganga eftir þessum reglum frá fjölmiðlum, og setti saman viðmið um slíkar reglur og hvað félagið legði áherslu á að væri í slíkum reglum. Þetta var síðan birt á heimasíðu félagsins þannig að bæði stjórnendur fjölmiðla og félagsmenn í félaginu sem unnu á fjölmiðlum þar sem slíkar reglur voru í smíðum, höfðu upplýsingar og leiðarvísi um hvernig þessar reglur gætu litið út. Í ljós hefur komið að fjölmörg fjölmiðlafyrirtæki, einkum þau minni hafa tekið þessi viðmið og gert að sínum og þar með uppfyllt þá lagaskyldu að þetta sé gert í samráði við fagfélög starfsmanna. Þrátt fyrir að ekki hafi verið gerð kerfisbundin úttekt á því hvort þær reglur sem fjölmiðlar almennt hafa sett sér eru í raun í samræmi við þessi viðmið BÍ eða ekki, virðist það þó í fljótu bragði vera.
Óvíst er hins vegar um stór fyrirtæki eins og 365 miðla, en þar hafa reglur enn ekki verið birtar. Reglur annarra fyrirtækja s.s. DV og Árvakurs hafa hins vegar komið fram en eru ekki að öllu leyti það sem lagt er til í tillögum BÍ. Spurning er hvort og þá hvenær félagið eigi að gera athugasemdir við slíkt og hvort það eigi til dæmis að vera í formföstum farvegi. Nokkuð ljóst er að þetta yrði meðal annars hlutverk hins nýja fagráðs.
Almenningsálitið sterkasta vopnið
Ekki er þó björninn unninn þótt reglur hafi verið settar með ásættanlegum hætti. Þeim þarf að fylgja eftir og grípa inn í ef þær eru brotnar. Hvað þetta varðar er ljóst að Fjölmiðlanefnd lítur ekki á það sem hlutverk sitt að fylgjast með að þessar reglur séu ekki brotnar. Um það er Elfa Ýr mjög skýr þegar hún segir að Fjölmiðlanefnd hafi engar heimildir samkvæmt lögum til að hafa eftirlit með því hvort reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði sé framfylgt. Í greinargerð með frumvarpinu segir að þess sé vænst að það aðhald sem viðkomandi starfsmenn, eftir atvikum stéttarfélög þeirra, veita en síðast en ekki síst almenningur verði öllum viðurlögum yfirsterkara.
Þessi orð Eflu Ýrar ríma við þá staðreynd að refsiákvæði í fjölmiðlalögunum ná ekki til 24. gr. Hér er því greinilegt að Blaðamannafélaginu eru fengnar í hendur ákveðin vopn til að standa vörð um ritstjórnarlegt sjálfstæði félaga sinna, en um leið er lögð á félagið og félagsmenn sú kvöð að hafa eftirlit með þessum nýju réttindum sjálfir. Það kemur því í hlut blaðamanna og Blaðamannafélagsins að benda á og taka við ábendingum um brot á reglum um ritstjórnarlegt sjálfstæði og leita eftir leiðréttingu og/eða gera málið opinbert.
Fomlegur farvegur hjá BÍ
Með því að aðfundur hefur falið stjórn, að tillögu stjórnarinnar að stofna sérstakt fagráð, er kominn fram vettvangur innan félagsins sem getur tekið við slíkum ábendingum eða umkvörtunum, aðili sem getur þá fjallað um bæði endurskoðun og setningu reglna og svo um hugsanleg brot á þessum sömu reglum. Samkvæmt tillögu stjórnarinnar sem aðalfundurinn samþykkti á tilgangur fagráðsins að vera að að taka á móti nýjum faglegum verkefnum sem félaginu ber að taka að sér, m.a. í tengslum við breytt lagaumhverfi og nýja stöðu fjölmiðla og blaðamanna í landinu. Stjórn félagsins hefur nokkuð frjálsar hendur um hvernig starf fagráðsins mótast, en hitt er nokkuð ljóst að fagráðið er hin formlega umgjörð sem reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði fær á vettvangi Blaðamannafélagsins.
-BG