Meiðyrðalöggjöfin og tjáningarfrelsi fjölmiðla

Málþing  á vegum Orators , félags langanema við HÍ, verður haldið miðvikudaginn 8. október nk. klukkan 12:00 í sal 101 í Lögbergi. Yfirskrift málþingsins er: Meiðyrðalöggjöfin og tjáningarfrelsi fjölmiðla.

Meiðyrðamál hafa á undanförnum misserum hlotið mikla umfjöllun og hefur sú spurning vaknað hvort að tímabært sé að endurskoða þá löggjöf er snýr að slíkum málum. Refsirammi hegningarlaga er frá árinu 1940 og mörgum finnst sem breytt viðhorf til tjáningarfrelsis kalli á að refsiramminn verði færður til nútímahorfs.

Þá verða meiðyrðamál gegn fjölmiðlum sífellt algengari og álitaefni er hvort að sú þróun feli í sér aðför gegn tjáningarfrelsi þeirra. Starf fjölmiðla einkennist af miklum hraða auk þess sem mikill hluti samskipta manna fer fram í gegnum vefmiðla. Samspil alls þessa hefur vakið upp fjölmörg álitaefni um meiðyrðalöggjöfina og það tjáningarfrelsi sem varið er af stjórnarskránni.

Framsögumenn á málþinginu verða:

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hæstaréttarlögmaður og varaformaður fjölmiðlanefndar

Gunnar Ingi Jóhannsson hæstaréttarlögmaður hjá Lögmönnum Höfðabakka

Birgir Guðmundsson, dósent í fjölmiðlafræði við Háskólann á Akureyri og ritstjóri Blaðamannsins, fagrits Blaðamannafélags Íslands.

Fundarstjóri verður Linda Ramdani, funda- og menningarmálastjóri Orators.

 

Lex lögmannsstofa er aðalstyrktaraðili fræðastarfs Orators.

 

Málþingið er opið öllum. Vonandi sjá sem flestir sér fært að mæta á þennan áhugaverða viðburð.