Málþing til heiðurs Margréti Indriðadóttur, fyrrverandi fréttastjóra Útvarps verður haldið í Útvarpshúsinu við Efstaleiti laugardaginn 15. nóvember klukkan 13-15. Yfirskrift þess er: Í fréttum er þetta helst
og þar fjalla nokkrir fyrirlesarar um fréttir og fjölmiðla fyrr og nú.
Margrét Indriðadóttir var brautryðjandi í fréttamennsku hér á landi og var fyrsta konan á Norðurlöndum til að gegna stöðu fréttastjóra ríkisútvarps. Hún hóf störf á Morgunblaðinu haustið 1943 að loknu stúdentsprófi frá MA. Stundaði nám í blaðmennsku við Háskólann í Minnesota í Bandaríkjunum og vann að því loknu um skeið á Morgunblaðinu. Margrét réðst til starfa á Fréttastofu Útvarps 1949 og starfaði þar til ársloka 1986, þar af síðustu 18 árin sem fréttastjóri Útvarps.
Hún hefur hlotið margskonar viðurkenningu fyrir störf sín og leitt fjölda frétta- og blaðamanna fyrstu skrefin í heimi fjölmiðlunar hér á landi.
Þeir sem standa að málþinginu eru Ríkisútvarpið, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna, en Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona hefur stjórnað undirbúningi þess. Hún mun setja málþingið en síðan tekur dr. Sigrún Stefánsdóttir við fundarstjórn. Margrét Indriðadóttir flytur stutt ávarp og farið verður yfir feril hennar í máli og myndum. Þá talar Stefán Jón Hafstein, fyrrverandi fréttamaður Útvarps, Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, Ragnar Karlsson, fjölmiðlafræðingur, Ingibjörg Þórðardóttir, ritstjóri hjá BBC og að lokum ávarpar Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri málþingið. Gestum verður síðan boðið í skoðunarferð um Útvarpshúsið undir leiðsögn Boga Ágústssonar.***
Margrét var eins og áður segir fyrsta konan á Norðurlöndum til að gegna starfi fréttastjóra ríkisútvarps. Margrét fæddist á Akureyri árið 1923, dóttir hjónanna Indriða Helgasonar og Laufeyjar Jóhannsdóttur. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1943 og hóf störf á Morgunblaðinu þá um haustið. Hún fékk fljótt áhuga á blaðamennsku og gerði sér ljóst að hún vildi afla sér menntunar á því sviði, en á þeim tíma þótti eðlilegt að konur sæju um kvennasíðuna í Morgunblaðinu og þýddu framhaldssöguna. Hún hélt því til náms í Blaðamannaskóla Háskólans í Minnesota árið 1946 og var meðal fyrstu Íslendinganna sem sóttu sér menntun í þeirri grein. Við heimkomuna hóf hún aftur störf á Morgunblaðinu, en réð sig til starfa á Fréttastofu Útvarps í árslok 1949. Það vakti athygli þegar hún var ráðin fréttastjóri á Fréttastofu Útvarpsins árið 1968, fyrst kvenna á Norðurlöndum til að gegna því starfi. Margrét starfaði á Fréttastofunni í 36 ár, 18 ár sem fréttamaður og 18 ár sem fréttastjóri. Hún hlaut viðurkenningu Nordfag árið 1991 fyrir störf sín í þágu almennings og sagði þá meðal annars.
Öll þau ár sem ég var fréttastjóri Útvarps leit ég svo á að ég væri í þjónustu almennings, hlustenda.
Og einnig sagði hún.
Það er mikill ábyrgðarhluti að segja fréttir og sú var tíðin að þeir sem fluttu ill tíðindi voru gerðir höfðinu styttri. Það má segja að ég hafi sloppið vel frá þessu háskalega lífsstarfi, raunar bráðvel þegar ég lít á þennan verðlaunagrip.
Margrét leiðbeindi fjölda fréttamanna á Fréttastofu Útvarps, en sumir stigu sín fyrstu skref í fréttamennskunni undir hennar leiðsögn. Einstök kunnátta hennar í íslensku máli var gott veganesti. Vinnufélagar Margrétar til margra ára, þau Árni Gunnarsson síðar alþingismaður og Margrét Jónsdóttir fyrrverandi fréttamaður lýstu því í blaðagrein hvernig stjórnandi Margrét var.
Hún stjórnaði án þess að nokkur tæki eftir því að hún var að stjórna. Hún sagði fólki til og leiðrétti vitleysur án þess að tala niður til nokkurs manns. Hún naut trausts, virðingar og væntumþykju undirmanna sinna hundrað prósent.
Dagskrá málþingsins:
Fundarstjóri: Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug-og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og fyrrum fréttamðaur
Setning málþingsins - Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona
Stutt ávarp - Margrét Indriðadóttir fyrrverandi fréttastjóri
Fréttamannsferill Margrétar myndband
Fréttastofa Útvarps þegar Stefán Jón hóf störf þar - Stefán Jón Hafstein fyrrverandi fréttamaður á FÚ
Fréttastofa RÚV þegar á reynir - Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri RÚV
Fjölmiðlar á einni mannsævi: Þróun fjölmiðla á Íslandi síðastliðin 90 ár - Ragnar Karlsson aðjúnkt í HÍ og sérfr. á Hagstofu Íslands
Fréttamennskan í dag og framtíðin -Ingibjörg Þórðardóttir ritstjóri hjá BBC
Stutt ávarp -Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri
Kaffiveitingar
Skoðunarferð um Útvarpshúsið með Boga Ágústssyni fréttamaður
13.11.2014
Lesa meira