Fréttir

Traust á fjölmiðlum minnkar

Traust á fjölmiðlum minnkar

MMR kannaði á dögunum traust almennings til helstu sjónvarps-, prent- og netfréttamiðla. Traust til meirihluta þeirra fjölmiðla sem mældir voru hefur dregist saman frá því í nóvember 2013. Af þeim fréttamiðlum sem kannaðir voru báru svarendur mest traust til fréttamiðla RÚV. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 70,6% bera mikið traust til Fréttastofu RÚV (76,5% í nóvember 2013) og 64,5% sögðust bera mikið traust til ruv.is (71,1% í nóvember 2013).Í flokki netfréttamiðla naut mbl.is næst mest trausts meðal almennings (á eftir ruv.is). Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 46,7% bera mikið traust til mbl.is. Traust til mbl.is hefur dregist nokkuð saman frá því í desember 2008 þegar 64,0% aðspurðra sögðust bera mikið traust til mbl.is. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 33,9% bera mikið traust til Visir.is og 27,0% sögðust bera mikið traust til Kjarninn.is. Þeir prentmiðlar sem nutu mest trausts meðal almennings voru Morgunblaðið og Fréttablaðið. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 40,6% bera mikið traust til Morgunblaðsins nú, borið saman við 46,4% í nóvember 2013 og 34,9% sögðust bera mikið traust til Fréttablaðsins nú, borið saman við 39,2% í fyrra. Hlutfallslega fleiri sögðust bera lítið traust til Morgunblaðsins en til Fréttablaðsins. Af þeim sem tóku afstöðu sögðust 30,2% bera lítið traust til Morgunblaðsins en 22,9% sögðust bera lítið traust til Fréttablaðsins. Traust til fréttamiðla DV hefur aukist frá því í nóvember 2013. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 14,5% bera mikið traust til DV, borið saman við 10,0% í fyrra. Þá sögðust og 13,2% bera mikið traust til dv.is nú, borið saman við 9,1% í nóvember 2013.
Lesa meira
Upphæð desemberuppbóar

Upphæð desemberuppbóar

Félögum í Blaðamennafélaginu er bent á að samkvæmt viðbót við kjarasamninga frá því í febrúar 2014  sem undirrituð var  í apríl 2014, þá er desemberuppbót miðað við fullt starf 73.600 kr. Þessi upphæð skerðist síðan í samræmi við hlutfall starfs sé um minna en fullt starf að ræða.
Lesa meira
Áfram stutt við norska fjölmiðla

Áfram stutt við norska fjölmiðla

Norsk stjórnvöld hafa hætt við stórfelldan niðurskurð á blaðastyrkjum þar í landi, en fjölmiðlar fá styrki frá hinu opinbera  samkvæmt almennum reglum til að tryggja fjölbreytni og fjölræði í fjölmiðlum.  Áform eru upp i um að blaðastyrkir muni í heildina nema um 50 milljónum norskra króna eða um  900 milljónum íslenskra króna.  Thomas Spence, formaður Blaðamannafélags Noregs, fagnar þessum viðsnúningi sem hann rekur fyrst og fremst til miðflokkanna.  Sérstakri ánægju lýstir hann með að áform eru uppi um að reyna að hafa engan virðistaukaskatt af ritstjórnarefni (blaðamennsku) og er farið með slíkt erindi til ESA, Eftirlitsstofnunar EFTA, en til vara að slíkt efni mni bera 8% skatt.  Sjá einnig hér
Lesa meira

"Fréttamenn án landamæra" telja upplýsingafrelsi hafa minnkað

Samtökin Fréttamenn án landamæra sendu í dag frá sér frétt þar sem upplýsingafrelsi á Íslandi er sagt hafa hnignað verulega frá því í hruninu. Er í því sambandi nefnt að aðstoðarmaður innanríkisráðherra hafi farið í meiðyrðamál gegn tveimur blaðamönnum DV og krafist fangelsisrefsingar yfir þeim, mikill niðurskurður hafi orðið á RÚV,  samdráttur hjá 365 og yfirmenn þar reknir en í staðinn ráðinn talsmaður eigenda, og að stjórnmálamenn sem styðji stjórnina hafi gagnrýnt blaðamenn og dregið og jafnvel tengt saman fréttaflutning RÚV og hugsanleg fjárframlög. Einnig er bent á að Mannréttindadómstóll Evrópu hafi tvívegis  dæmt gegn stjórnvöldum í málum blaðamanna.  Sjá frétt samtakanna hér  
Lesa meira
Ingibjörg Þórðardóttir fréttamaður hjá BBC. (Mynd: RÚV)

Hlutverk blaðamennsku að breytast

Blaðamenn og fjölmiðlar almennt þurf að endurhugsa hlutverk sitt í náinni framtíð að mati Ingibjargar Þórardóttur fréttamanns hjá BBC sem hafði framsögu á málþingi til heiðurs Margréti Indriðadóttur í Útvarpshúsinu á laugardag.  Tilkoma samskiptamiðla og gríðarlegs magns upplýsinga sem sett er inn á slíka miðla á hverjum tíma gerir það að verkum að fréttamenn munu síður vera í því hlutverki að vera "fyrstir með fréttina", heldur frekar að staðfesta eða koma ritstýrðri útgáfu til skila til almennings, útgáfu sem hefur farið í gegnum skoðun og mat fagfólks og hefur þannig aðra stöðu en óstaðfestar fréttir samfélagsmiðlanna. Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali RÚV við Ingibjörgu sem leggur áherslu á að fjölmiðlar þurfi að leggja meiri áherslu á að útskýra heiminn fyrir fókli. Sjá frétt RÚV hér    
Lesa meira
Refsidómar sjaldgæfir í meiðyrðamálum

Refsidómar sjaldgæfir í meiðyrðamálum

„Tveir einstaklingar hafa hlotið refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum í Hæstarétti í meiðyrðamálum síðustu tvo áratugina. Báðir sættu ákæru saksóknara. Engu einkamáli vegna meiðyrða lauk með fangelsisdómi eða sektargreiðslu. 20 slíkum málum lauk með sýknu, ómerkingu ummæla eða bótagreiðslum.“ Þetta kemur fram í áhugaverðri samantekt sem Brynjólfur Þór  Guðmundsson fréttamaður á RÚV hefur tekið saman fyrir fréttastofuna og birt er á síðu RÚV. Refsiákvæði fyrir meiðyrð  hafa verið í umræðunni upp á síðkastið í ljósi þess að í  aðstoðarkona innanríkisráðherra fór fram á refsingu yfir blaðamönnum DV fyrir meiðyrði í hennar garð á dögunum.  Þegar talað er um „refsingu“ í þessu samhengi er verið vísa til fangelsis eða sektargreiðslna, en ekki miskabóta eða málskostnaðar sem einnig hefur verið talsvert í umræðunni á undanförnum misserum.  Samantekt Brynjólfs má í heild lesa hér.  
Lesa meira
Á fréttastofu Útvarps þegar hún var á Klappastíg. F.v. Emil Björnsson, Jón Múli Árnason, Stefán Jóns…

Málþing til heiðurs Margréti Indriðadóttur

 Málþing til heiðurs Margréti Indriðadóttur, fyrrverandi fréttastjóra Útvarps verður haldið í Útvarpshúsinu við Efstaleiti laugardaginn 15. nóvember klukkan 13-15. Yfirskrift þess er: „Í fréttum er þetta helst…“ og þar fjalla nokkrir fyrirlesarar um fréttir og fjölmiðla fyrr og nú.  Margrét Indriðadóttir var brautryðjandi í fréttamennsku hér á landi og var fyrsta konan á Norðurlöndum til að gegna stöðu fréttastjóra ríkisútvarps. Hún hóf störf á Morgunblaðinu haustið 1943 að loknu stúdentsprófi frá MA. Stundaði nám í blaðmennsku við Háskólann í Minnesota í Bandaríkjunum og vann að því loknu um skeið á Morgunblaðinu. Margrét réðst til starfa á Fréttastofu Útvarps 1949 og starfaði þar til ársloka 1986, þar af síðustu 18 árin sem fréttastjóri Útvarps.  Hún hefur hlotið margskonar viðurkenningu fyrir störf sín og leitt fjölda frétta- og blaðamanna fyrstu skrefin í heimi fjölmiðlunar hér á landi.  Þeir sem standa að málþinginu eru Ríkisútvarpið, Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands, Blaðamannafélag Íslands og Félag fréttamanna, en Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona hefur stjórnað undirbúningi þess. Hún mun setja málþingið en síðan tekur dr. Sigrún Stefánsdóttir við fundarstjórn. Margrét Indriðadóttir flytur stutt ávarp og farið verður yfir feril hennar í máli og myndum. Þá talar Stefán Jón Hafstein, fyrrverandi fréttamaður Útvarps, Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, Ragnar Karlsson, fjölmiðlafræðingur, Ingibjörg Þórðardóttir, ritstjóri hjá BBC og að lokum ávarpar Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri málþingið. Gestum verður síðan boðið í skoðunarferð um Útvarpshúsið undir leiðsögn Boga Ágústssonar.***  Margrét var eins og áður segir fyrsta konan á Norðurlöndum  til að gegna starfi fréttastjóra ríkisútvarps.  Margrét fæddist á Akureyri árið 1923, dóttir hjónanna Indriða Helgasonar og Laufeyjar Jóhannsdóttur. Hún varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1943 og hóf störf á Morgunblaðinu þá um haustið.  Hún fékk fljótt áhuga á blaðamennsku og gerði sér ljóst að hún vildi afla sér menntunar á því sviði, en á þeim tíma þótti eðlilegt að konur sæju um kvennasíðuna í Morgunblaðinu og þýddu framhaldssöguna.  Hún hélt því til náms í Blaðamannaskóla Háskólans í Minnesota árið 1946 og var meðal fyrstu Íslendinganna sem sóttu sér menntun í þeirri grein.  Við heimkomuna hóf hún aftur störf á Morgunblaðinu, en réð sig til starfa á Fréttastofu Útvarps í árslok 1949.  Það vakti athygli þegar hún var ráðin fréttastjóri á Fréttastofu Útvarpsins árið 1968, fyrst kvenna á Norðurlöndum til að gegna því starfi.  Margrét starfaði á Fréttastofunni í 36 ár, 18 ár sem fréttamaður og 18 ár sem fréttastjóri.  Hún hlaut viðurkenningu Nordfag árið 1991 fyrir störf sín í þágu almennings og sagði þá meðal annars.  „Öll þau ár sem ég var fréttastjóri Útvarps leit ég svo á að ég væri í þjónustu almennings, hlustenda“. Og einnig sagði hún. „Það er mikill ábyrgðarhluti að segja fréttir og sú var tíðin að þeir sem fluttu ill tíðindi voru gerðir höfðinu styttri.  Það má segja að ég hafi sloppið vel frá þessu háskalega lífsstarfi, raunar bráðvel þegar ég lít á þennan verðlaunagrip“. Margrét leiðbeindi fjölda fréttamanna á Fréttastofu Útvarps, en sumir stigu sín fyrstu skref í fréttamennskunni undir hennar leiðsögn.  Einstök kunnátta hennar í íslensku máli var gott veganesti. Vinnufélagar Margrétar til margra ára, þau Árni Gunnarsson síðar alþingismaður og Margrét Jónsdóttir fyrrverandi fréttamaður lýstu því í blaðagrein hvernig stjórnandi Margrét var.  „Hún stjórnaði án þess að nokkur tæki eftir því að hún var að stjórna. Hún sagði fólki til og leiðrétti vitleysur án þess að tala niður til nokkurs manns. Hún naut trausts, virðingar og væntumþykju undirmanna sinna – hundrað prósent“.    Dagskrá málþingsins: Fundarstjóri:  Sigrún Stefánsdóttir, forseti hug-og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri og fyrrum fréttamðaur Setning málþingsins - Erna Indriðadóttir fjölmiðlakona Stutt ávarp - Margrét Indriðadóttir fyrrverandi fréttastjóri Fréttamannsferill Margrétar – myndband Fréttastofa Útvarps þegar Stefán Jón hóf störf þar - Stefán Jón Hafstein fyrrverandi fréttamaður á FÚ Fréttastofa RÚV – þegar á reynir - Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri RÚV Fjölmiðlar á einni mannsævi: Þróun fjölmiðla á Íslandi síðastliðin 90 ár - Ragnar Karlsson aðjúnkt í HÍ og sérfr. á Hagstofu  Íslands Fréttamennskan í dag og framtíðin -Ingibjörg Þórðardóttir ritstjóri hjá BBC Stutt ávarp -Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri Kaffiveitingar Skoðunarferð um Útvarpshúsið með Boga Ágústssyni fréttamaður      
Lesa meira
Frá mótmælunum í Brussel þann 6. nóvember

Belgía: Mótmæla ofbeldi lögreglu

Evrópusamband blaðamanna (EFJ) og Blaðamannasambandið í Belgíu (AJP) hafa sameiginlega fordæmt aðgerðir lögreglu í almennum mótmælum sem fram fóru í Brusel þann 6. nóvember síðastliðinn, þar sem lögreglan lét hendur skipta gagnvart ljósmyndurum á vettvangi. Ljósmyndararnir voru að störfum á svæðinu og mjög greinilega merktir sem blaðaljósmyndarar en engu að síður beitt lögrelgumenn þá óásætttanlegu ofbeldi og lömdu m.a. ljósmyndara  Sudpresse  illa á sama tíma og hann var að taka mynd af lögreglumanni sem hafði meiðst. Það þurfti atbeina tveggja annarra blaðamanna til að  aðlda aftur af lögreglu í því tilfelli samkvæmt upplýsingum frá AJP. Fleiri dæmi voru um  óásættanlega framkomu lögreglu og  hafa fbæði AJP og Evrópusambandið  lýst því yfir að þau muni aðstoða  félaga sína í að leita réttar síns í dómskerfinu.  Sjá einnig hér
Lesa meira
Sigurvegarar á fjölmiðlamótinu 2014

Skjárinn vann fjölmiðlamótið

Sjónvarpsstöðin Skjárinn er fjölmiðlameistari ársins 2014.  Skjárinn vann lið Pressunar/Eyjunar í úrslitaleik 2-1 og fór taplaus í gegnum allt mótið.  Skjárinn gerði einungis jafntefli við lið fotbolta.net sem lenti í þriðja sæti eftir sigur á liði Stövar 2 í leik um þriðja sætið.  Fotbolti.net var jafnframt meistari síðustu tveggja ára og var í dauðafæri til að vinna farandbikar sem keppt hefur verið um frá upphafi, en vinna þarf mótið þrjú ár í röð til þess að vinna hann til eignar.  Morgunblaðið lenti svo í fimmta sæti eftir sigur á liði K100.  Tíu lið tóku þátt í keppninni að þessu sinni.      
Lesa meira
Torben Schou

Að segja sögu í sjónvarpi

Að segja sögu í sjónvarpi  er heiti námskeiðs með Torben Schou,sem haldið verður  í Útvarpshúsinu í Efstaleiti, helgina 21.-23. nóvember. Námskeiðið fer fram á ensku.  Námskeiðið er ætlað sjónvarpsfréttamönnum, vef-fréttamönnum, klippurum, tökumönnum, upplýsingafulltrúum og ritstjórum.  Hvernig fær myndmálið að njóta sín, og hvernig á að byggja upp sjónræna frétt eða þátt?  Torben mun leggja áherslu á það hvað virkar í sjónvarpi og hvað ekki.  Hvernig skipuleggur maður sjónvarpsefnið og vinnsluna og hvernig myndir virka og hvernig vinnur maður með hljóð?  Torben Schou er einn af þekktustu sjónvarpsmönnum Danmerkur og býr yfir meira en 20 ára reynslu í fréttavinnslu, íþróttafréttamennsku, þáttagerð og vinnslu skemmtiefnis.  Námskeiðið verður: Föstudaginn, 21. nóv: kl. 17.00-21.00 Laugardaginn,  22. nóv:  kl. 09.00-18.00Sunnudaginn,  23. nóv: kl. 09.00-12.00  Þeir sem hafa áhuga á að skrá sig geta haft samband við Sigrúnu Stefánsdóttur:  sigruns@unak.is  
Lesa meira