- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Kolbrún Bergþórsdóttir og Eggert Skúlason hafa verið ráðin ritstjórar DV. Hörður Ægisson hefur verið ráðinn viðskiptaritstjóri blaðsins. Verða þau Kolbrún, Eggert og Hörður jafnframt ritstjórar dv.is. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórn DV, en tilkynningin er eftirfarandi:.
Hallgrímur Thorsteinsson, sem verið hefur ritstjóri DV undanfarna mánuði, mun að eigin ósk leiða stefnumótun á sviði talsmálsútvarps á vegum Pressunnar og hefur þegar tekið til starfa.
Kolbrún er ein reyndasta fjölmiðlakona landsins, hefur unnið sem blaðamaður og yfirmaður menningarmála á Fréttablaðinu, Blaðinu og nú síðast Morgunblaðinu. Þá er hún einn þekktasti bókmenntagagnrýnandi landsins.
Eggert er margreyndur fjölmiðlamaður, var um árabil fréttastjóri á Tímanum, ritstjóri Veiðimannsins og svo fréttamaður á Stöð 2 um árabil. Hann hefur síðari ár rekið eigið fyrirtæki á sviði almannatengsla.
Hörður hefur vakið mikla athygli á undanförnum árum fyrir viðskiptafréttir sínar fyrir Morgunblaðið.
Til þess að ná fram skipulagsbreytingum og hagræða í rekstri var nokkrum starfsmönnum DV sagt upp í dag. Verða ennfremur gerðar breytingar á aðkeyptu efni í hagræðingarskyni. Er það í samræmi við markmið nýrrar stjórnar DV að félagið verði rekið með hagnaði árið 2015.
Næsti útgáfudagur DV er föstudagurinn 9. janúar næstkomandi. Fréttavefurinn dv.is verður þó áfram rekinn allan sólarhringinn eins og verið hefur.
Í byrjun nýs árs verða kynntar margvíslegar breytingar á DV sem ætlað er að fjölga áskrifendum og auka lausasölu blaðsins. Jafnframt verður ráðist í ýmsar markaðsaðgerðir til að styrkja stöðu blaðsins, en það var stofnað sem dagblaðið Vísir árið 1910.
Útgefandi DV er Björn Ingi Hrafnsson og Steinn Kári Ragnarsson er framkvæmdastjóri.