Aftenposten málar sig út í horn, segir í fyrirsögn á umfjöllun á vefsíðu norska Blaðamannafélagsins. Tilefnið er umræða um tengsl auglýsinga og ritstjórnarefnis og hvað felist í raun og veru í hugmyndinni um sjálfstæði ritstjórna. Tilefnið er að í húsnæðisblaði eða kálfi Aftenposten fyrir nokkru er verið að fjalla um helstu strauma og stefnur varðandi sólpalla og þar er m.a. verið að fjalla um hvernig best sé að mála þá. Allar myndirnar sem notaðar eru eru fengnar frá málningarframleiðendunum Norsjöog Jotun. Hins vegar segir ekkert um slíkt í blaðinu.Á almannatengsladeildum þessara fyrirtækja fengust hins vegar þær upplýsingar að þar sé hægt að fá margar myndir, sem séu öllum frjálsar til afnota svo framarlega sem tekið sé fram hvaðan þær koma og nafnið og númerið á litunum sem eru á myndunum sé nefnt.
Í Aftenposten var stundum tekið fram nafnið á litunum en ekki númerið og ekki tekið fram að myndirnar væru frá viðkomandi fyrirtækjum þó vörumerkin væru tekin fram í texta. Fréttastjóri á Aftenposten, Ole Erik Almlid, segir að um þjónustugrein á forsendum ritstjórnarinnar sé að ræða og engin hagsmunatengsl séu við málningafyrirtækin.
Framkvæmdatstjóri norska Blaðamannafélagsins, Per Edgar Kokkvold segir að vissulega sé þetta ekki stórt mál og í raun ekkert því til fyrirstöðu að nota myndirnar frá málningafyrirtækjunum. Hins vegar horfi málið öðruvísi við þegar verið sé að nota myndirnar gegn ákveðnum skilyrðum, t.d. um að birta nöfn lita og númer og hver framleiðandinn sé. Kokkvold segist sjálfur hafa hafnað því að nota myndirnar gegn þessum skilyrðum ef hann hefði verið í stóli ritstjóra, en í grunninn snúsist þetta um sjálfstæði ritstjórna og tengslin við hagsmunaaðila. Vandinn sé að á tímumum niðurskurðar og sparnaðar séu menn e.t.v. tilbúnari en ella að feta slóðir sem þeir annars myndu ekki fara.
Þessi umræða í Noregi er áhugaverð í ljósi íslenskra aðstæðana, þar sem fjölmiðlar glíma líka við aðhald og sparnað en eru samhliða að skrifa neytendavænar þjónustufréttir. Mörkin eru ekki alltaf skýr og spyrja má hvort sambærilegt atvik og þetta í Noregi hefði vakið upp svipaða umræðu á Íslandi?
Sjá einnig hér
04.09.2012
Lesa meira