Blaðamannaverðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Gerðarsafni nú síðdegis samhliða afhendingu verðlauna fyrir bestu myndir og myndskeið við opnun sýningarinnar Myndir ársins 2013. Verðlaunahafar Blaðamannaverðlauna voru valdir úr hópi þriggja tilnefninga dómnefndar í hverjum flokki, en flokkarnir eru fjórir. Verðlaunahafarnir voru þessir:
Stígur Helgason á Fréttablaðinu fékk verðlaun fyrir Viðtal ársins 2013; Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson blaðamenn á DV fengu verðlaun fyrir Rannsóknarblaðamennsku ársins 2013; Ritstjórn Kastljóss fékk verðlaun fyrir Umfjöllun ársins 2013; og Bergljót Baldursdóttir á RÚV fékk Blaðamannaverðlaun ársins 2013. Þá átti Páll Stefánsson Mynd ársins 2013.
Tilnefningarnar má sjá hér, en rökstuðningur dómnefndar fyrir vali sínu í hinum fjórum flokkum blaðamannaverðlaunanna var eftirfarandi:
Viðtal ársinsViðtal Stígs Helgasonar sem birtist í Fréttablaðinu er áhrifaríkt og segir margbrotna sögu Maríu á sterkan og beinskeyttan hátt, þar sem hugarfari, togstreitu og tilfinningum Maríu er listilega lýst.
Stígur varpar ljósi á flókið tilfinningasamband fórnarlambs kynferðisofbeldis til gerandans og lýsir vangaveltum hennar um áhrif fortíðarinnar á lífsleið hennar vel Eins og hvernig ofbeldið leiddi til þess að hún missti áhugann á lögfræði, sem hún vildi læra, þar sem trúin á réttarkerfið hvarf við sýknudóm fósturföðurins. Einnig heilabrota um hvort vantraust hennar á karlmönnum hafi verið ástæða þess að hún kaus að búa með konu.
Stígur sýndi viðmælanda sínum verðskuldaða virðingu án þess að draga neitt undan. Viðtalið er hnitmiðað, áhrifaríkt og varpaði ljósi á óvenjulegar aðstæður í baráttu stúdenta við yfirvöld. En fyrst og fremst vekur viðtalið von um að hægt sé að styrkjast við raunir lífisins.
Rannsóknarblaðamennska ársinsÍ umfjöllun sinni um hælisleitendur á Íslandi varpa blaðamennirnir, Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson, ljósi á aðstæður fólks hér á landi sem fæstir láta sig varða.
Þeir leiða lesendur sína inn í skúmaskotin, gefa röddum hælisleitenda vægi, benda á neikvæð og niðurlægjandi viðhorf, sýna fram á brotalamir í kerfinu og síðast en ekki síst fylgja mörgum þráðum vel eftir.
Með umfjölluninni í heild er vakin verðskulduð athygli á aðbúnaði og aðstæðum hælisleitenda á Íslandi og þá um leið á málaflokki sem hefur vaxið að umfangi í íslensku samfélagi síðustu misserin.
Umfjöllun ársinsVerðlaun fyrir umfjöllun ársins fær ritstjórn Kastljóss fyrir áhrifamikla umfjöllun um kynferðisbrot og afleiðingar þeirra. Kastljós afhjúpaði ítarleg kynferðisbrot Karl Vignis Þorsteinssonar með játningum hans og afhjúpaði um leið vanmátt samfélagsins til að takast á við brot hans. Umfjöllun Kastljóss um vanmátt samfélagsins gagnvart kynferðisbrotum hélt áfram með áhrifamiklum viðtölum við Hilmar Þorbjörnsson og Eirík Guðmundsson um kærur þeirra fyrir kynferðisbrot á hendur kennara á Ísafirði. Einnig fjallaði Kastljós um mál Guðnýjar Jónu Kristjánsdóttur sem fluttist frá heimabæ sínum eftir að hluti bæjarbúa studdi dæmdan nauðgara hennar opinberlega. Vönduð umfjöllun Kastljóss sýndi berlega hve erfitt það getur verið að leggja fram kæru vegna kynferðisbrots og standa í kjölfarið keikur gagnvart gagnrýni nærsamfélagsins en áhrifamáttur umfjöllunarinnar sást líka greinilega í verulegri fjölgun kæra í kjölfar hennar.
Blaðamannaverðlaun ársinsBergljót Baldursdóttir hefur um árabil fjallað um margháttuð vísindastörf og rannsóknir. Hefur hún farið inná ólík fræðasvið, ekki síst heilbrigðismál og þannig með tíma og fyrirhöfn aflað sér víðtækrar þekkingar. Með því hefur henni tekist að gefa innsýn í flóknar sérgreinar. Á það bæði við um innlendar sem erlendar rannsóknir.
Bergljót hefur undanfarið leitt heilbrigðismálateymi fréttastofu Ríkisútvarpsins. Ásamt henni skipa það fréttamennirnir Sunna Valgerðardóttir og Valgeir Örn Ragnarsson. Teymið hefur fjallað um heilbrigðismál á landsvísu og dregið fram margháttaðan vanda sem oftar en ekki á rót sína að rekja til sílækkandi fjárframlaga og aðhalds í rekstri. Umfjöllun Fréttastofu Ríkisútvarpsins sem Bergljót leiddi reis hæst í október þegar hún ræddi við starfsfólk og sjúklinga á þremur lyflækningadeildum Landspítalans. Þessar fréttir drógu í senn fram með skýrum hætti að ekki yrði gengið lengra í aðhaldi og sparnaði.
Ljósmyndaverðlaun
Í dag voru einnig afhent verðlaun fyrir bestu myndir og myndskeið eins og áður segir. Baldur Hrafnkell Jónsson fékk verðlaun fyrir besta myndskeið fréttatökumanns á ljósvakamiðlulum en eins og áður segir tók Páll Stefánsson Mynd ársins. Sú mynd er af Maylis Lasserre, franskri stúlku sem var týnd á Vestfjörðum í tvo daga. Myndin var einnig valin portrett mynd ársins. Umsögn dómnefndar: Tilfinningaþrungið portrait sem fangar athygli áhorfanda samstundis, vekur upp óræðnar tilfinningar og lætur áhorfandann vilja vita meira um viðfangsefnið, hver er hún, hvað kom fyrir
Myndröð ársins tók Kjartan Þorbjörnsson af Guðmundi Felix Grétarssyni, en Guðmundur missti báða handleggina í vinnuslysi árið 1998. Umsögn dómnefndar: Frábær og vel unnin myndröð sem lýsir vel þeim erfiðleikum sem Guðmundur Felix Grétarsson þarf að mæta daglega. Hér er á ferðinni myndröð með mörgum góðum og sterkum myndum.
Fréttamynd ársins tók Sigtryggur Ari Jóhannsson af Karli Vigni Þorsteinssyni er hann var færður fyrir héraðsdómara. Umsögn dómnefndar: Þetta er ákaflega einföld og vel uppbyggð fréttamynd. Styrkur hennar felst í samspili magnþrunginnar birtu og einfaldleikanum sem kalla fram sterk hughrif. Hún markar endalokin á langri og sorglegri sögu afbrotamanns sem öll þjóðin var meðvituð um.
Íþróttamynd ársins tók Árni Torfason af Anítu Hinriksdóttur. Umsögn dómnefndar: Hin rísandi unga stjarna Aníta Hinriksdóttir er í brennipunkti þessarar listfengnu myndar sem kemur til skila bæði hraða og hreyfingu.
Umhverfismynd ársins tók Vilhelm Gunnarsson í Kolgrafafirði. Umsögn dómnefndar: Áhrifarík mynd sem dregur skýrt fram hversu stór í sniðum síldardauðinn í Kolgrafarfirði var. Val ljósmyndara á sjónarhorni gerir það að verkum að landið virðist teppalagt af síld. Útkoman er á vissan hátt yfirþyrmandi en jafnframt súrrealísk.
Tímaritamynd ársins tók Kristinn Magnússon fyrir mynd sína af Ásgeiri Trausta. Umsögn dómnefndar: Skemmtilega unnin mynd af tónlistarmanninum Ásgeiri Trausta. Myndvinnsla í takt við hans tónlistarstefnu. Dæmi um einfalda hugmynd, sem virkar.
"Daglegt líf-mynd ársins tók Kjartan Þorbjörnsson af uppvakningum á Hverfisgötu. Umsögn dómnefndar: Snjöll innrömmun hjá ljósmyndaranum, að ná að fanga augnarráði pinup stúlkunnar í glugganum, sem gjóir augunum að unga fólkinu í uppvakningagerfinu. Tvinnar saman þeirra ólíku (þó ekki) menningarheima.
15.02.2014
Lesa meira