Fréttir

Anthony Lloyd var illa farinn eftir meðferðina hjá uppreisnarmönnunum.

Mótmæla hrottalegri meðferð breskra blaðamanna í Sýrlandi

Bæði IFJ, Alþjóðasamband blaðamanna og EFJ Evrópusamband blaðamanna hafa fordæmt  sérstaklega hrottalega meðferð á tveimur breskum blaðamönnum og aðstoðarmanni þeirra sem rænt var af uppreisnarmönnum í Sýrlandi í síðustu viku. „Þetta var gjörsamlega yfirgengilegt og hlýtur að hafa verið mikil þolraun fyrir blaðamennina sem í þessu lentu og það var mikill léttir að frétt að þeir hefðu sloppið úr prísundinni,“ segir Jim Boumelha, forseti IFJ. Blaðamennirnir Anthony Lloyd  hjá Times og ljósmyndarinn Jack Hill  höfðu verið nokkra daga í fréttaferð í  borginni Aleppo og voru á bakaleið til tyrknesku landamæranna þegar uppreisnarmenn stöðvuðu bíl þeirra og Lloynd var bundinn fastur við aftursæti bifreiðarinnar en Hill og aðstoðarmanni þeirra var þröngvað ofan í farangursgeymsluna. Þeir voru síðan fluttir í vöruskemu í bænum Tall Rifat þar sem þeir vor barðir.  Hill og aðstoðarmaðurinn reyndu að flýja en það mistókst og var Hill þá barinn til óbóta en Lloyd skotinn í fæturna til að koma í veg fyrir að hann reyndi að flýja líka.   Á endanum var þeim þó sleppt og þeim komust til Tyrklands eftir að hafa fengið aðhlynningu á sjúkrahúsi. Sjá einnig hér  
Lesa meira
Blaðamannaminni á press.is

Blaðamannaminni á press.is

Hér á vef  Blaðamannafélags Íslands, press.is, má nú finna Blaðamannaminni, yfirlit yfir íslenska blaðamenn allt frá upphafi blaðaútgáfu á Íslandi 1773 fram til ársins 1960. Yfirlit þetta telur alls tæpa 200 blaðamenn og eru þar sögð helstu deili á þeim ásamt tenglum á ýmis konar ítarefni um þá  er finna má á vefnum. Tilefni þess að ráðist var í þessa samantekt er að í skjölum Blaðamannafélagsins hjá Landsbókasafni frá því um miðbik síðustu aldar er að finna drög að blaðamannatali, sem unnið var að á árunum milli 1950 og 1960 en varð þó aldrei lokið. Fram kom í fundargerðum að það var jafnframt draumur þeirra sem að þessu verki stóðu að hægt yrði þar að bæta við blaðamönnum frá fyrri tíma en úr því varð ekki. Með Blaðamannaminnum er reynt að bæta úr þessu en ofmælt er að nefna það blaðamannatal í eiginlegri merkingu vegna þess að það lýtur á að mjög takmörkuðu leyti kröfum um staðlaðar upplýsingar slíkra stéttartala. Ekki er heldur nógsamlega tryggt að yfirlitið geti talist fyllilega tæmandi m.a.  vegna þess  verulegar eyður eru í sögu og fundargerðum félagsins fyrir miðja síðustu öld. Þó hefur verið reynt að að grafast fyrir um sem flesta þá sem komu í einhverjum mæli að blaðamennsku á nefndu tímabili frá 1773 fram á árið 1960. Engu að síður á skilgreiningin yfirlit hér betur við heldur en blaðamannatal vegna þeirra annmarka sem eru á samantektinni. Þess er þó vænst að sækja megi nokkurn fróðleik í þetta yfirlit, jafnframt því sem ábendingar og athugasemdir með viðbótum og lagfæringum eru vel þegnar. Ekki er heldur búið að komast fyrir óverulega tæknilega hnökra í stöku tenglum en það stendur vonandi allt til bóta.  Björn Vignir Sigurpálsson gerði nánari  grein fyrir tilurð og aðferðarfræði þessarar samantektar í félagsriti BÍ,  Blaðamanninum í desember 2013 á bls. 20.      
Lesa meira
Mikið tap hjá Amedia í Noregi

Mikið tap hjá Amedia í Noregi

Amedia fjölmiðlasamsteypan í Noregi sem gefur úr um 70 dagblöð á héraðsvísu og staðbundið og rekur fjölda netmiðla og nær til um 2,5 milljóna Norðmanna á dag, hefur birt afar svartar afkomutölur fyrir fyrsta ársfjórðung þessa árs. Tapið er mest í dagblaðarekstri og nemur tekjusamdrátturinn um 50 milljónum norskra króna. Þessi  staða hefur valdið talsverðum umræðum og óttast ýmsir að til viðbótar niðurskurðar frá því sem verið hefur á undanförnum mánuðum og misserum á ritstjórnum verði gripið. Amedia varð til sem fjölmiðlasamsteypa árið 2012 þegar A-pressen keypti Edda Media af breska fjölmiðlafyrirtækinu Mecom.  Sjá meira hér  
Lesa meira
BÍ fordæmir aðför að trúnaðarsambandi við heimildarmenn

BÍ fordæmir aðför að trúnaðarsambandi við heimildarmenn

 Blaðamannafélag Íslands fordæmir aðför lögregluyfirvalda að trúnaðarsambandi blaðamanna og heimildarmanna þeirra og lýsir furðu sinni á að slíkar aðgerðir skuli teljast gjaldgengar  í upphafi 21. aldarinnar þrátt fyrir skýr ákvæði laga um vernd heimildarmanna og ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi.  Tilraunir lögregluyfirvalda til þess að draga blaðamenn fyrir dómara lýsa mikilli vanþekkingu á trúnaðarsambandi blaðamanna og heimildarmanna þeirra.  Það trúnaðarsamband er einn af hornsteinum tjáningarfrelsisins og forsenda þess að fjölmiðlar geti sinnt aðhaldshlutverki sínu í lýðræðissamfélagi nútímans, enda augljóst að geti heimildarmaður ekki treyst fortakslausri þagmælsku blaðamanns um heimildir sínar yrðu það endalok nafnlausra heimilda og þess aðhalds sem slíkar upplýsingar veita, meðal annars stjórnvöldum á hverjum tíma.  Blaðamannafélag Íslands treystir á að íslenskir dómstólar standi vörð um rétt blaðamanna til að halda heimildarmönnum sínum leyndum.  Geri þeir það ekki er það eftir sem áður skylda blaðamanna að virða trúnað við heimildarmenn.  
Lesa meira
Siðferðileg og lagaleg álitamál frétta af lekamáli

Siðferðileg og lagaleg álitamál frétta af lekamáli

Guðmundur Heiðar Frímannsson, prófessor í heimspeki við Háskólann á Akureyri var í viðtali í Sjónmáli á Rás 1 RÚV í gær. Þar ræddi hann ýmis siðferðileg og lagaleg atriði varðandi blaðamennskuna í tengslum við hið svokallaða "Lekamál" í innanríkisráðuneytinu.  Guðmundur kom m.a. inn á ójafnvægið í sambandi ríkisvaldsins og hælisleitenda, skyldur blaðamanna til að segja frá málum er varða almenning, hvernig fjölmiðlar beri ábyrgð á því efni sem þeir kjósa að segja frá og mikilvægi trúnaðar við heimildamenn. Hann dró líka athygli manna að því hvernig sumir þessara þátta birtast í dómi bæði undirréttar og Hæstaréttar. Sjá viðtal við Guðmund hérSjá dóm Héraðsdóms og Hæstaréttar hér
Lesa meira
Kristin Solberg og Anders Sømme Hammer

Erlendir fréttamenn verðlaunaðir

Norsku blaðamannaverðlaunin,  voru í ár veitt blaðamönnum sem skrifa erlendar fréttir. Þetta eru lausablaðamennirnir (free lance) Kristin Solberg og Anders Sømme Hammer. Bæði hafa þau sagt fjölda frétta og verið með mikilvægar fréttaskýringar af átækasvæðum m.a. í Afganistan og Pakistan. Formaður dómnefndar Annette Groth sagði að mikilvægt væri að hafa fólk sem segði erlendar fréttir af staðnum enda hafi erlendum fréttariturum hefur fækkað mikið í norskum fjölmiðlum.  Sjá meira hér  
Lesa meira
Jóhann Hlíðar Harðarson

"Lítill fundur í litlu félagi"

 Jóhann Hlíðar Harðarson, fréttamaður hefur sent Press.is grein til birtingar þar sem hann fjallar um síðasta aðalfund Blaðamannafélagsins og framboð sitt þar til stjórnar. Grein Jóhanns Hlíðars er svohljóðandi:     Lítill fundur í litlu félagi-Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands   Ég fór á aðalfund Blaðamannafélags Íslands sem haldinn var þ. 10 apríl sl. Ég sat í stjórn þessa ágæta félags um 5 ára skeið í upphafi aldarinnar og gegndi m.a. embætti varaformanns um 2ja ára skeið.  Ég sneri aftur í fréttamennsku fyrir tveimur árum og hóf störf á fréttastofu RÚV. Þá rifjaðist upp fyrir mér þessi vitleysa (að mínu viti), að hér væru starfrækt tvö félög fyrir blaða- og fréttamenn, annað fyrir RÚVara og hitt fyrir alla hina. Sömuleiðis rifjaðist upp fyrir mér að þreifingar höfðu verið í gangi á milli félaganna, í kringum aldamótin, að reyna að nálgast hvort annað. Þær runnu út í sandinn.  Við erum æ fleiri innan raða Ríkisútvarpsins sem kjósum að vera í BÍ. Bæði fréttamenn og ekki síður kvikmyndatökumenn.  Af þeim sökum og eins vegna þess að mér hefur fundist starfsemi Blaðamannafélagsins hafa verið hálfdoðakennd síðustu misserin, ákvað ég að fara á síðasta aðalfund og bjóða fram krafta mína í stjórn félagsins. Ekki það að ég (ef mig skyldi kalla) væri einhver allsherjarlausn á tilvistarvanda félagsins, alls ekki, heldur hitt að ég hef áhuga á faginu, faglegu innihaldi þess, réttindum okkar og hverju því sem að okkur snýr.  Sem sé, ég fór á aðalfundinn og það sem ég upplifði á þessum fundi var fyrst og fremst sorglegt, í besta falli tragíkómískt.  Félagið okkar er þokkalega stórt. Í því eru um 600 félagsmenn. Á aðalfund þessa útvarðar tjáningarfrelsis og lýðræðis mættu 18 manns með atkvæðisrétt. Það eru um 3% félagsmanna. Ég var 50 ára gamall þegar fundurinn fór fram (ég hef elst síðan). Ég tilheyrði yngri helmingi félagsmanna!  Þegar kom að kosningu í stjórn, tilkynnti formaður kjörstjórnar að í ár skyldi kjósa þrjá menn í stjórn. Tveir þeirra sem ganga ættu úr stjórn gæfu áfram kost á sér og einn varamaður gæfi kost á sér sem þriðji maður.  “Getum við þá ekki litið á þau þrjú sem sjálfkjörin?”, spurði formaður kjörstjórnar. Ekki orð frá honum eða fundarstjóra um að það væri opið fyrir framboð. Ég rétti þá upp hönd og spurði hvort ekki væri hægt að bjóða sig fram. Þeir litu hvor á annan og sögðu svo að jú, víst væri það hægt.  “Ég býð mig þá fram”.  “Æi, þurfum við þá að fara að kjósa,” gall þá við í einum og einn frambjóðendanna sagði að hann gæti eins dregið sig tilbaka svo við slyppum við kosningu. Ég gat ekki annað en hlegið og spurði hvort kosning á milli manna hefði einhvern tíma drepið einhvern (kannski óvarlega orðað, en þið skiljið…). Þá spurði fundarstjóri hvort við tveir vildum fara afsíðis og afgreiða þetta. Kyndugt, en aftur ítrekaði ég spurningu mína og skoðun um að kosningar væru nú bara meinhollar fyrir lýðræðiselskandi skepnur. Nú jæja þá, kjósa skyldum við. Ég man þá tíð þegar menn gáfu kost á sér til stjórnarsetu í BÍ (og miklu víðar raunar) að þá hefur frambjóðendum verið gefinn kostur á því að kynna sig og segja í stuttu máli frá því sem rekur þá í framboð og hverju þeir vilji beita sér fyrir, nái þeir kjöri. Ekkert slíkt var í boði þarna, heldur var atkvæðaseðlum dreift á meðal okkar 18 og svo skyldi kosið. Gall enda við í einum fundarmanna: “Fyrirgefið, en hvað heitir þessi sem var að bjóða sig fram?” Það þarf ekki að orðlengja það að hinir þrír “opinberu” frambjóðendur stjórnar voru kjörnir til stjórnarsetu, sjálfur fékk ég 11 atkvæði. Einn þeirra sem kjörinn var hafði ekki einu sinni tíma til að sitja þennan aðalfund, en var kjörinn í stjórn að sér fjarverandi. Mér fannst öll þessi framkvæmd líkjast atriði í einhverju fáránleikaleikhúsi og vil endilega biðja stjórn og fundarstjóra komandi aðalfunda um að halda einhverri reisn yfir framkvæmd kjörs í stjórn félagsins. Svona fór nú þetta. Ég hef ekki misst svefn yfir úrslitunum. Ég reyni bara aftur að ári. Ég hef hins vegar verið nokkuð hugsi yfir hvernig komið er fyrir þessu blessaða félagi okkar. Fyrir u.þ.b. áratug mættu tugir manna á aðalfund og fylltu jafnvel hundraðið. Þegar 18 manns mæta á aðalfund og fimmtugur kall er í hópi yngri fundargesta, þá er eitthvað að. Finnst ykkur það ekki? Stjórn félagsins (og aðrir) getur leikandi afgreitt þetta greinarkorn sem væl í tapsárum félagsmanni. Þá hefur hún einfaldlega misst af punktinum. Hún getur líka tekið þetta upp til umræðu, litið í eigin barm og spurt sig hvort eitthvað sé að og hvort ástæða sé til að ráða á því bót. Hennar er völin og kvölin. Félagsmenn geta líka lagt sitt af mörkum til að vekja starfsemi til lífs finnist þeim ástæða til. Svo getur bara líka vel verið að mér skjátlist hrapallega, Altúnga hafi rétt fyrir sér og að allt sé bara í allra besta lagi.  -Jóhann Hlíðar Harðarson  
Lesa meira
Fresli fjölmiðla í heiminum það minnsta í áratug

Fresli fjölmiðla í heiminum það minnsta í áratug

 Frelsi fjölmiðla hefur ekki verið lakara en í fyrra á heimsvísu í meira en áratug samkvæmt nýrri skýrslu Freedom House. Hnignunina má fyrst og fremst rekja til  ástandisins í Tryklandi og Úkraínu og svo nokkrum ríkjum í Mið-Austurlöndum, einkum Egyptalandi, Líbíu og Jórdaníu. Einnig hefur ástandið versnað nokkuð í Bandaríkjunum.  Fjölmiðlafreslsi mælist mest í Svíþjóð, Noregi og Hollandi sem deila með sér efstu þremur sætunum.  Í 4.-6. sæti  eru svo Finnland og Belgía og í 6.-10. sæti eru svo Sviss, Ísland, Luxemborg, og Danmörk.  Sjá meira hér
Lesa meira
Alþjóðasamband Blaðamanna gegn hatursáróðri í fjölmiðlum

Alþjóðasamband Blaðamanna gegn hatursáróðri í fjölmiðlum

Á ráðstefnu um „Vopnuð átök, fjölmiðla og hatursáróður“   sem Alþjóðasamband blaðamanna stóð fyrir í Brussel nú fyrir helgina var samþykkt áskorun eða yfirlýsing til blaðamanna og blaðamannafélaga vítt um heim um átak gegn hatursáróðri.  Í yfirlýsingunni er sérstaklega talað um 7 atriði eða áherslupunkta en þeir eru þessir: 1. Að standa alltaf vörð um og tala fyrir siðfræði ábyrgrar blaðamennsku2. Að skuldbinda sig til að gera að grundvallarreglu að berjast gegn hvers konar hvatningu í fjölmiðlum til haturs eða ofbeldis  þegar slíkt kemur upp. Jafnframt að samstarfsmenn og félagsmenn blaðamannafélaga séu meðvitaðir um þær siðareglur sem í gildi eru og hvernig hægt sé að beita þeim þegar leysa úr siðferðilegum álitamálum.3. Að hvetja til aukinna gæðakrafna í blaðamennsku með menntun og þjálfun og draga fram mikilvægi og mátt orðsins.4. Vinna enn frekar að því að skapa blaðamönnum vinnuskilyrði sem tryggja sjálfstæði þeirra og gera þeim kleift að sinna fagi sínu.5. Hvetja fjölmiðla til að vera á varðbergi gegn áróðursöflun sem hverja til eða réttlæta kynþáttafordóma og jafnvel stríð.6. Stuðla að og hvetja til fjölbreytni í fjölmiðlum og samstöðu meðal blaðamanna og samtaka þeirra um að standa gegn því að fjölmiðlar séu notaðir til að æsa til haturs eða ofbeldis.7. Vinna að því að netmiðlar séu ekki misnotaðir í þágu hatursáróðurs eða ofbeldis.  Sjá einnig hér  
Lesa meira
Thomas Spence, formaður Blaðamannafélags Noregs

Hafna tillögu um þak á blaðastyrki til einstakra útgáfufyrirtækja

"Við búum því miður við ríkisstjórn sem vinnur gegn frjálsum fjölmiðlum en ekki með okkur. Nú þegar við stöndum frammi fyrir grimmilegum samdráttaraðgerum á ritstjórnum landsins telur menningarmálaráðherra því miður ástæðu til að bæta enn á vonleysi og svartsýni í greininni,“ segir formaður norska Blaðamannafélagsins Thomas Spence. Tilefnið er að Torhild Widvei, menningarmálaráðherra, hefur lagt fram tillögu á Stórþinginu um að setja þak á þá blaðastyrki sem hvert fjölmiðlafyrirtæki getur fengið. Þetta þak hefur verið sett við 40 milljónir norskra króna á ári (um 800 milljónir ísl.kr) og mun þetta að öllum líkindum hafa mjög afdrifaríkar afleiðngar fyrir útgáfu blaðanna Vårt land og Dagsavisen. Thomas Spence segir ríkisstjórn Noregs hafa sýnt fjandsamlega afstöðu til frjálsrar fjölmiðlunar og það sjónarmið ekki njóta skilnings að blaðamennska væri lýðræðismál en ekki endilega eingöngnu spurning um rekstur. Sjá nánar hér  
Lesa meira