Tilnefningar dómnefndar

 

Dómnefnd Blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands hefur skilað af sér tilnefningum fyrir árið 2013. Dómnefndin gerir þrjár tilnefningar í hverjum flokki verðlaunanna, sem eru fjórir: Viðtal ársins 2013; Rannsóknarblaðamennska ársins 2013; Umfjöllun ársins 2013; og Blaðamannaverðlaun ársins 2013.  Flokkarnir eru allir jafngildir.

Tilnefningar dómnefndar eru eftirfarandi:

 

Viðtal ársins 2013

Kristjana Guðbrandsdóttir, DV
Fyrir upplýsandi og vel skrifað viðtal við Gunnar Smára Egilsson þar sem hann gefur afar fróðlega innsýn inn í heim fjölmiðla og ákvarðanir sem þar eru teknar auk þess að kryfja sjálfan sig og reynslu sína til mergjar.

Orri Páll Ormarsson, Morgunblaðinu
Fyrir einstakt viðtal við Eyþór Eyjólfsson um ólíka stöðu samkynhneigðra milli heimshluta, þróun tíðarandans og hjartaáfallið sem hann fékk þegar hann sá maka sinn, Junya Nakano, látinn.

Stígur Helgason, Fréttablaðinu
Fyrir áhrifaríkt viðtal við Maríu Rut Kristinsdóttur sem upplifði kynferðisofbeldi sem hún tókst á við með aðstoð menntamálaráðherra. Nú formaður Stúdentaráðs berst hún við ráðherrann á opinberum vígstöðvum.

Rannsóknarblaðamennska ársins 2013

Eva Bjarnadóttir, Fréttablaðið
Fyrir greinargóða og yfirgripsmikla umfjöllun um viðkvæm málefni sem sjaldan er fjallað um, sjálfræðissviptingu og nauðungarvistun geðsjúkra.

Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson, DV  
Fyrir upplýsandi og athyglisverða umfjöllun um hælisleitendur og fyrir að fylgja því m.a. vel eftir hvort mögulega hafi verið brotið á réttindum einstaklinga í hópi þeirra.

Ægir Þór Eysteinsson, Kjarninn
Fyrir markverða samantekt á rekstri, starfsháttum og lánveitingum Sparisjóðs Keflavíkur og sér í lagi fyrir úttekt á því hvernig stofnfjárbréf sjóðsins gengu kaupum og sölum árin fyrir fall hans.

 

Umfjöllun ársins 2013

Fréttastofa 365
Fyrir heildstæðan og ítarlegan fréttaflutning af skotárás í Hraunbæ þar sem stuðst var við fjölbreytt form fjölmiðla til að koma öllum hliðum sögunnar til skila.

Ritstjórn Kastljóss
Fyrir áhrifamikla umfjöllun um kynferðisbrot og afleiðingar þeirra með afhjúpun á brotum manns til áratuga. Í kjölfarið kom viðtal við tvo menn sem kærðu kynferðisbrot árið 2005 og ítarleg umfjöllun um útskúfun ungrar konu frá litlu samfélagi eftir að hún kærði mann fyrir nauðgun.

Ritstjórn RÚV
Fyrir umfangsmikla umfjöllun fyrir Alþingiskosningarnar 2013 þar sem tókst að koma sjónarmiðum allra 15 framboða á framfæri og gera baráttumál þeirra aðgengileg almenningi á þann hátt sem mikilvægt er í lýðræðisríki.

Blaðamannaverðlaun ársins vegna 2013

Bergljót Baldursdóttir Fréttastofu Ríkisútvarpsins
Fyrir víðtæka umfjöllun um ýmis vísindi og rannsóknir, ekki síst heilbrigðismál. Með sérhæfingu tekst henni að sýna erfiða stöðu í heilbrigðiskerfi landsmanna í fjárveitingum, húsnæði, tækjabúnaði, starfsmannamálum og vanda sjúklinga. Jafnframt hefur hún sýnt fram á góðan árangur heilbrigðisstarfsmanna við erfiðar aðstæður.

Helgi Seljan Kastljósi Ríkisútvarpsins
Fyrir margháttaða og ítarlega umfjöllun um fjármál, heilbrigðismál og lögreglu- og fangelsismál. Helgi hefur með víðfeðmri gagnaöflun beint kastljósinu að skattamálum stóriðjufyrirtækja, málefnum geðsjúkra, meðal annars fanga, og að kynferðisofbeldi.

Svavar Hávarðsson Fréttablaðinu
Fyrir yfirgripsmikil og vönduð skrif um ólík efni. Má þar nefna umfjöllun um vandamál tengd virkjun háhitasvæða sem fram hafa komið í Hellisheiðarvirkjun og rekstri hennar, síldardauða í Kolgrafafirði þar sem skoðaðar voru ýmsar hliðar á samspili manna og náttúru og um raforkusölu Íslands til Evrópulanda um sæstreng.

 

Tilkynnt verður um hver hreppir verðlaunin í hverjum flokki við athöfn í Gerðarsafni á laugardag eftir viku.