- Félagið & fagið
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Blaðamannafélag Íslands fordæmir aðför lögregluyfirvalda að trúnaðarsambandi blaðamanna og heimildarmanna þeirra og lýsir furðu sinni á að slíkar aðgerðir skuli teljast gjaldgengar í upphafi 21. aldarinnar þrátt fyrir skýr ákvæði laga um vernd heimildarmanna og ákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu um tjáningarfrelsi. Tilraunir lögregluyfirvalda til þess að draga blaðamenn fyrir dómara lýsa mikilli vanþekkingu á trúnaðarsambandi blaðamanna og heimildarmanna þeirra. Það trúnaðarsamband er einn af hornsteinum tjáningarfrelsisins og forsenda þess að fjölmiðlar geti sinnt aðhaldshlutverki sínu í lýðræðissamfélagi nútímans, enda augljóst að geti heimildarmaður ekki treyst fortakslausri þagmælsku blaðamanns um heimildir sínar yrðu það endalok nafnlausra heimilda og þess aðhalds sem slíkar upplýsingar veita, meðal annars stjórnvöldum á hverjum tíma. Blaðamannafélag Íslands treystir á að íslenskir dómstólar standi vörð um rétt blaðamanna til að halda heimildarmönnum sínum leyndum. Geri þeir það ekki er það eftir sem áður skylda blaðamanna að virða trúnað við heimildarmenn.