Konur síður með fyrstu fréttir

Í rann­sókn­ sem Arnhildur Hálfdánardóttir, fréttamaður gerði sem lokaverkefni í meistaranámi í blaða-og fréttamennsku við HÍ á niðurröðun frétta í fréttatímum Stöðvar 2 og RÚV kom fram nokkur munur á milli stöðva hvað varðar hlut kvenna í fyrstu fréttum. Kon­ur á Stöð 2 fluttu 18 sinnum fyrstu frétt­ir í des­em­ber og fe­brú­ar, eða 30% þeirra, og karl­ar 70%. Á RÚV var minni mun­ur­inn, þar sem kon­ur fluttu 43% fyrstu frétta en karl­menn 57%. Um þetta er fjallað á frétt á mbl.is sem má  nálgast hér.

 

 Úrdráttur Arnhildar úr ritgerðinni hljóðar svo:

Fræðimenn hafa haldið því fram að fjölmiðlaumhverfið sé karllægt. Þá hefur því verið haldið fram að konur hafi ekki aðgengi að öllum efnisflokkum til jafns á við karla og að efni eftir þær sé minna metið. Þessi rannsókn snýr að efnistökum og röðun efnis eftir karlkyns og kvenkyns fréttamenn á tveimur ljósvakamiðlum, RÚV og Stöð 2. Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á hvort munur væri á efnistökum karla og kvenna og hvort framlag þeirra væri jafnmikils metið. Þá var kannað hvort fréttamenn teldu áhuga, aðgengi eða aðra þætti ráða því hvaða málaflokka fréttamenn fjölluðu um og hversu framarlega fréttir þeirra röðuðust. Loks voru viðhorf fréttamanna til fréttamats, jafnréttismála og stöðu kynjanna á vinnustað könnuð.

Rannsóknin samanstendur af innihaldsgreiningu, vettvangsathugun og djúpviðtölum. Innihaldsgreiningin fólst í greiningu fyrstu frétta kvöldfréttatímans á báðum stöðvum í tvo mánuði og allra frétta fréttatímans í einn mánuð. Fréttirnar voru greindar eftir kyni fréttamanns, röðun og efnisflokkum. Tekin voru tíu djúpviðtöl við fréttamenn og stjórnendur á miðlunum. Niðurstöður vettvangsathugunar voru ásamt niðurstöðum innihaldsgreiningar-innar notaðar sem samræðugrundvöllur í þeim.

Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að það er munur á efnistökum karla og kvenna. Þá röðuðust fréttir karla frekar framarlega í fréttatímann en fréttir kvenna. Munur á efnistökum karla og kvenna var mun meiri á Stöð 2 en á RÚV. Fréttamenn töldu efnistök frekar ráðast af áhuga heldur en aðgengi. Aðgengi kann þó að vera skert á sumum sviðum vegna þess að hefð er komin á að karlar sinni þeim. Konur á Stöð 2 upplifðu að fréttir þeirra væru ekki jafn mikils metnar og fréttir karla en konur á RÚV upplifðu það síður. Þá lýstu konur því frekar yfir að þær vildu breyta fréttamatinu á miðlinum svo málaflokkar sem konur fjölluðu mikið um fengju meira vægi.

Sjá ritgerðina í heild hér