Blaðamannaverðlaunin voru afhent í Perlunni nú síðdegis ásamt verðlaunum Blaðaljósmyndarafélags Íslands fyrir Mynd ársins. Blaðamannaverðlaun eru veitt í fjórum flokkum og fengur verðlaunin að þessu sinni þau Sunna Ósk Logadóttir á Morgunblaðinu, Snærós Sindradóttir á Fréttablaðinu, Magnús Halldórsson á Kjarnanum og þeir Gísli Einarsson, Ingólfur Bjarni Sigfússon, Karl Sigtryggsson og Ragnar Santos á RÚV. Verðlaunin og rök dómnefndar eru sem hér segir:
Viðtal ársins 2015
Verðlaunin hlaut Snærós Sindradóttir, blaðamaður á Fréttablaðinu, fyrir áhrifaríkt viðtal við Einar Zeppelin Hildarson. Í viðtalinu segir Einar í fyrsta skipti opinberlega frá örlagadegi í lífi fjölskyldunnar, þegar móðir hans svipti litlu systur hans lífi og gerði atlögu að lífi hans. Einar var aðeins fjórtán ára.
Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Snærós dregur fram átakanlegar lýsingar á aðdraganda og eftirköstum voðaverksins en eins og Einar segir í viðtalinu; þá getur ekkert búið mann undir atburð sem þennan.
Þá gerir Snærós baráttunni við kerfið afar góð skil, bæði hvernig ættingjar Einars höfðu, fyrir voðaverkið, reynt að fá Barnaverndarnefnd til að grípa inn í og veita börnunum aðstoð, og síðar hvernig Einari tókst með tímanum að fyrirgefa móður sinni og verða bandamaður hennar í baráttu við geðheilbrigðiskerfið. Þrautseigja Einars og væntumþykja hans í garð móður sinnar er fallegt leiðarstef í eftirminnilegu viðtali.
Umfjöllun ársins 2015
Verðlaun fyrir umfjöllun ársins hlutu Gísli Einarsson, Ingólfur Bjarni Sigfússon, Karl Sigtryggsson og Ragnar Santos, fréttastofu RÚV.
Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Sögur af bjargarlausu fólki á flótta náðu athygli landsmanna þegar innlendu fréttamennirnir sögðu þær milliliðalaust af vettvangi. Fréttirnar af flóttamannavandanum voru sagðar af áhuga og innsæi. Þær sýndu mikilvægi þess að festast ekki innan veggja fréttastofa og bíða fregna erlendra miðla. Þeir Ingólfur, Ragnar, Gísli og Karl nýttu tækifærið ytra til fullnustu.
Fréttamennirnir Ingólfur og Ragnar fönguðu persónulegar raunasögur flóttamanna á vergangi í Evrópu og í flóttamannabúðum í Líbanon. Þeir lýstu blendnum tilfinningum þeirra sem og þeirra 55 flóttamannanna sem voru á leið til Íslands. Fréttirnar kveiktu samkennd þeirra sem sáu.
Gísli og Karl náðu einstökum myndum og sögu um borð í Tý þegar áhöfnin hífði á fjórða hundrað flóttamenn um borð úti frá Líbýu. Aldrei áður hafði svo mörgum verið bjargað um borð í íslenskt varðskip og ómetanlegt að hafa íslenska fréttamenn á staðnum.
Niðurstaðan varð ítarleg umfjöllun sögð annars vegar frá sjónarhorni fólksins sem barðist fyrir betri tilveru og hins vegar íslenskrar áhafnar í fádæma aðstæðum.
Blaðamannaverðlaun ársins 2015
Blaðamannaverðlaun ársins 2015 hlaut Sunna Ósk Logadóttir, Morgunblaðinu fyrir framúrskarandi umfjöllun um heimsókn sína í flóttamannabúðir í Líbanon, þar sem hún ræddi við sýrlenska flóttamenn og starfsmenn flóttamannabúða.
Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Með umfjöllun sinni, bæði í texta, myndum og myndböndum, kemur Sunna til skila skýrri mynd af hlutskipti þeirra sem tekist hefur að flýja stríðsátökin í Sýrlandi og komast yfir landamærin.
Sérstaklega dregur Sunna upp skýra mynd af aðbúnaði og framtíðarhorfum barna á svæðinu sem eiga erfitt með að skilja af hverju yfirgefa þurfti daglega lífið, vinina og heimilið. Þess í stað lifa þau við örbirgð í flóttamannabúðum þar sem börn eru tekin úr skólum til að vinna og ungar stúlkur eru seldar í hjónaband í mikilli örvæntingu foreldranna þar sem þau reyna að framfleyta fjölskyldunni.
Vönduð umfjöllun Sunnu sýndi skýrt úr hvaða umhverfi og aðstæðum Sýrlenskir flóttamenn á Íslandi koma sem er mikilvæg þekking við móttöku flóttamanna.
Rannsóknarblaðamennska ársins 2015
Verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku ársins 2015 hlaut Magnús Halldórsson, Kjarnanum, fyrir ítarlega umfjöllun um sölu á hlutum Landsbankans í Borgun, máli sem enn sér ekki fyrir endann á. Í fjölmiðlaumfjöllun um Borgunarmálið hefur Magnús verið leiðandi, hann hefur fylgt því vel og skipulega eftir og dregið fram ýmsar hliðar þess.
Í rökstuðningi dómnefndar segir:
Umfjöllun Magnúsar vegna arðgreiðslna eigenda Borgunar og um sölu Landsbankans á hlut Sparisjóðs Vestmannaeyja leiddi í ljós sterkar vísbendingar um að hagsmunum almennings hefði ekki verið gætt við söluna á Borgun.
Magnús á drjúgan þátt í því með þolinmæði og þrautseigju að koma málinu á þá hillu sem það er nú og undirstrikar með því skýrt aðhaldshlutverk fjölmiðla í málum sem þessum.
Verðlaun Blaðaljósmyndararfélagsins fyrir Mynd ársins fékk Eyþór Árnason.
05.03.2016
Lesa meira