- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Verðlaun & viðurkenningar
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Stjórn Blaðamannafélags Íslands samþykkti á fundi sínum í dag, 28. mars 2025, neðangreinda ályktun:
Dómur Hæstaréttar í Brúneggjamálinu svokallaða, sem féll þann 26. mars sl., er mikilvæg staðfesting á rétti blaðamanna til að taka við og miðla upplýsingum sem varða almenning og skyldu hins opinbera til að miðla upplýsingum og skýra þær. Dómurinn féll í máli sem tvö félög höfðuðu vegna fréttaflutnings RÚV um málefni eggjaframleiðandans Brúnegg. Fyrir lá að fréttaflutningur í málinu var m.a. byggður á gögnum sem fréttamenn RÚV höfðu aflað frá Matvælastofnun á grundvelli upplýsingalaga. Byggðu félögin m.a. á því í málinu að stofnuninni hefði verið óheimilt að afhenda umrædd gögn og að fréttaflutningur Ríkisútvarpsins af málinu hefði valdið framleiðandanum skaðabótaskyldu tjóni. Með dómi Hæstaréttar voru RÚV og Matvælastofnun sýknuð af öllum kröfum félaganna.
Í dómnum er þeirri meginreglu slegið fastri um afhendingu gagna á grundvelli upplýsingalaga að almenningur skuli eiga þess kost að að fylgjast með því sem stjórnvöld hafast að, ýmist beint eða fyrir atbeina fjölmiðla. Er tekið fram í dóminum að skýra verði allar undantekningar frá þeirri meginreglu þröngt.
Í dómnum er einnig fjallað almennt um hlutverk og skyldur fjölmiðla og því slegið föstu að fjölmiðlar þurfi að geta nálgast upplýsingar úr stjórnkerfinu til að geta gegnt skyldum sínum. Um þetta segir nánar í dómi Hæstaréttar:
„Almennt verður að ætla fjölmiðlum svigrúm til umfjöllunar um málefni sem eiga erindi til almennings og eru framlag til samfélagslegrar umræðu, [...]. Fjölmiðlar gegna mikilvægu hlutverki í lýðræðissamfélagi og eiga að veita aðhald með því að halda uppi sanngjarnri og faglegri umfjöllun og fréttaflutningi, vera sjálfstæðir í vinnubrögðum og nálgast viðfangsefni sín með hlutlægum hætti þar sem almannahagsmunir eru hafðir að leiðarljósi. Til þess að fjölmiðlar geti gegnt þessum skyldum sínum þurfa þeir að geta nálgast upplýsingar úr stjórnkerfinu. Á þessari forsendu hvíla meginmarkmið upplýsingalaga sem birtast í 1. gr. þeirra. Í þessu sambandi hefur í dómaframkvæmd Mannréttindadómstóls Evrópu verið litið svo á að réttur til að taka við og skila áfram upplýsingum samkvæmt 10. gr. sáttmálans sé mikilvægur þáttur í tjáningarfrelsi þegar um er að ræða heimildaöflun fjölmiðils í því skyni að undirbúa framlag til opinberrar umræðu um almannahagsmuni, sbr. til hliðsjónar dóm mannréttindadómstólsins 8. nóvember 2016 Magyar Helsinki Bizottság gegn Ungverjalandi nr. 18030/11.“
Í dómnum er ekki aðeins hnykkt á rétti almennings til upplýsinga heldur einnig áréttað að opinberum starfsmönnum beri ekki aðeins að afhenda fjölmiðlum gögn á grundvelli upplýsingalaga, heldur sé þeim það skylt enda sé markmið laganna að „styrkja upplýsingarétt og tjáningarfrelsi, möguleika almennings til þátttöku í lýðræðissamfélagi, aðhald fjölmiðla og almennings með opinberum aðilum, möguleika fjölmiðla til að miðla upplýsingum um opinber málefni [...]“. Þá segir einnig í dómnum að starfsmönnum MAST, sem málið var höfðað gegn, hafi ekki eingöngu verið heimilt að tjá sig um þau gögn sem blaðamenn voru með undir höndum heldur hafi starfsmönnum verið heimilt að tjá sig um þau til að skýra þau nánar. Segir um þetta í dómnum:
„Af þessu verður ályktað að þegar gögn hafa verið afhent á grundvelli upplýsingalaga hafi opinberir starfsmenn heimild til að tjá sig um efni þeirra og skýra það nánar eftir því sem tilefni er til. Það er ótvírætt fyrir hendi þegar bregðast þarf við gagnrýnum spurningum um fyrirkomulag eftirlitsstarfa opinberra stofnana sem bornar eru upp af fréttamönnum í þágu miðlunar efnis til almennings. Er þá haft í huga að réttur almennings til að fá gögn afhent yrði minna virði en ella ef opinberir starfsmenn hefðu ekki heimild til að tjá sig af því tilefni.“
Þá kemur einnig fram í dómnum réttur blaðamanna til að setja fram upplýsingar án þess að geta sýnt fram á fulla sönnun allra staðhæfinga. Þar segir að fréttamenn verði að vanda umfjöllun sína við úrvinnslu efnis og beri að halda í heiðri lýðræðislegar grundvallarreglur og standa vörð um tjáningarfrelsið. Vísað er í dóma mannréttindadómstólsins þar sem vinnubrögð blaðamanna eru metin út frá faglegum viðmiðum. Segir í dómi Hæstaréttar:
„Þar er litið til þess hvort veittar voru áreiðanlegar upplýsingar, unnið hafi verið í samræmi við faglega blaðamennsku og í góðri trú. Ekki er þó gerð sú krafa að fjölmiðlamenn geti sýnt fram á fulla sönnun allra staðhæfinga enda myndi slík regla skerða um of svigrúm fjölmiðla sem hafa sem fyrr segir sérstökum skyldum að gegna sem helsta upplýsingaveita almennings. Nægir því almennt að staðhæfing sé sett fram í góðri trú. Auk þess getur tilgangur með umfjöllun skipt máli því ef hann er að vekja máls á mikilvægu málefni eru fjölmiðlamenn líklegri til að teljast vera í góðri trú við framsetningu efnis.“
Blaðamannafélag Íslands fagnar niðurstöðu Hæstaréttar og telur að hún hafi víðtækt fordæmisgildi um rétt blaðamanna til að taka við og miðla upplýsingum úr opinberum gögnum. Með dómnum er því slegið föstu að þessi réttur er víðtækur og að túlka beri allar undantekningar frá honum þröngt. Félagið telur ekki síður mikilvægt að í dómnum er afdráttarlaust skorið úr um skyldu stjórnvalda til að afhenda gögn og heimild opinberra starfsmanna til að tjá sig um þau við fjölmiðla.