Saga gullmerkis BÍ

Eftir Björn Vigni Sigurpálsson. Birt í Blaðamanninum í desember 2012

Heiðursmerki með sögu

Blaðamannafélag Íslands hefur um árabil veitt félögum sínum sem starfað hafa við blaðamennsku í fjóra áratugi eða lengur sérstakt heiðursmerki úr silfri. Merkið er nokkuð sérstakt en uppruni þess hefur þó löngum verið nokkuð á reiki. Heiðursmerki þetta er hannað af Leifi Kaldal, einum fremsta gullsmið landsins framan af síðustu öld. Þorbjörn Guðmundsson, fyrrverandi ritstjórnarfulltrúi á Morgunblaðinu og handhafi blaðamannaskírteinis nr. 1 um þessar
mundir, skrifaði Blaðamannafélaginu svohljóðandi bréf hinn 30. mars 1982:

„Svavar Hjaltested bað mig um að koma meðfylgjandi móti til Blaða manna félags Íslands, þar sem hann telur eðlilegast að það sé í vörslu félagsins. Svavari var kunnugt um tilveru þessa móts og gerði gangskör að því að hafa upp á því. Mótið er af barmmerki, sem gert var í tilefni af fyrsta norræna blaðamannamótinu, sem haldið var hér á landi (sumarið 1932 heldur Svavar).

Leifur Kaldal teiknaði merkið og gerði mótið, en merkið var síðan slegið í silfur. Allir, sem sóttu umrætt mót, fengu merkið, en síðan var hugmyndin að það yrði notað til að heiðra þá menn, sem félagið vildi sýna virðingarvott, og þá einnig útbúið gullmerki, ef ástæða þætti til. Aldrei varð þó úr að merkið þjónaði þeim tilgangi,” segir í bréfinu. Í minningarkveðju frá Blaðamannafélagi Íslands 23. maí 1996 um Þórarin Þórarinnsson, fyrrverandi ritstjóra Tímans, er vikið að þætti hans í endurreisn Blaða manna félagsins 1934 eftir að það hafði legið í dvala um nokkurt skeið.

Síðan segir: „Með honum í því að endurvekja félagið voru helstu blaðamenn landsins á þeim tíma, þeir Árni Óla, Jón Kjartansson og Þórunn Hafstein, öll á Morgunblaðinu, Svavar Hjaltested á Fálkanum, Axel Thorsteinsson á Vísi og Vilhjálmur S. Vilhjálmsson á Alþýðublaðinu.”
Það er hins vegar örugglega misminni hjá Svavari Hjaltested að hér hafi verið haldið norrænt blaðamannamót snemma á fjórða áratugnum og reyndar eru engar
heimildir um fund norrænu blaðamannafélaganna hér á landi fyrr en á sjötta áratugnum eða í júlí 1953. Hér hlýtur því að vera átt við heimsókn hóps danskra blaðamanna um miðjan ágúst 1939.

Svo virðist sem starfsemi Blaðamannafélags hafi sofnað á nýjan leik strax eftir haustið 1934 og í fundargerðabók félagsins er ekki á ný fært til bókar um líf í félaginu fyrr en í nóvember 1937. Þá hafði ári áður gengið í félagið Pétur Ólafsson, sonur Ólafs Björnssonar, annars stofnanda Morgunblaðsins, og samkvæmt fundargerð hefur hann haft frumkvæði að því að stofna eða endurreisa Blaðamannafélag Íslands. Kosin var nefnd til að semja lög félagsins og völd
ust þeir Pétur, Vilhjálmur S. Vilhjálmsson og Þórarinn Þórarinsson í hana. Seinna í þessum sama mánuði, nóvember 1937, er efnt til félagsfundar þar sem uppkast að nýjum lögum er lagt fram og ný stjórn kjörin, þar sem Pétur Ólafsson er kosinn formaður. Aðrir sem komu til þessa fundar voru Vilhjálmur S. Vilhjálmsson, Svavar Hjaltested, Valtýr Stefánsson, Jón Kjartansson, Páll Steingrímsson, Finnbogi Rútur Valdimarsson, Skúli Skúlason, Einar Olgeirsson, Haraldur Sigurðsson, Jón Helgason, Ívar Guðmundsson, Karl Ísfeld, Stef án Pétursson, Þórunn Hafstein, Axel Thorsteins son, Hersteinn Pálsson, Gísli Guð
munds son og Sigurður Guðmundsson.

Ekki virðist hafa verið mikið um formleg fundarhöld í félaginu í framhaldinu því að í fundargerðabókinni eru aðeins skráðir tveir fundir, í janúar og
mars 1938. Hins vegar er ljóst að helsta viðfangsefni félagsins á þessum tíma er forganga félagsins um að bjóða hingað til lands um tug danskra blaðamanna frá nokkrum helstu blöðum þar í landi á þessum tíma. Félagið hafði tryggt sér fjárframlög frá Alþingi, Reykjavíkurbæ og nokkrum helstu fyrirtækjum landsins og gat tekið á móti gestum sínum af miklum rausnarskap.

Gestirnir komu til lands ins með Dronning Alexandrine frá Kaupmannahöfn 13. ágúst og var farið með þá víða um land – norður til Akureyrar, Siglufjarðar og allt til Mývatns en farið suður um Kaldadal, til Þingvalla og til Gullfoss og Geysis. Létu Danirnir svo vel af ferðinni að í þakkarræðu í
kvöldveislu í Þrastarlundi sagði einn þeirra að Íslendingar hefðu fram til þessa átt einn sendiherra í Kaupmannahöfn en ættu nú tíu, að því haft er eftir Pétri Ólafssyni, formanni félagsins í þessum tíma. Það fór þó öðruvísi en til stóð því að um það leyti sem gestirnir voru á heimleið með Lyru
skall á heimsstyrjöldin síðari og sambandið milli Íslands og Danmerkur rofnaði að mestu leyti í nokkur ár.

Í Blaðamanninum, félagstíðindum Blaðamannafélags Ísland, í nóvember 1987 á 90 ára afmæli félagsins segir í frásögn um heimsókn dönsku blaðamannanna: „Skipuð var sérstök móttökunefnd, teiknað merki í tilefni heimsóknarinnar, og prentuð dagskrá með silfurletri á forsíðu.“ Þarna er því væntanlega komið barmmerkið góða sem átti eftir að verða heiðursmerki Blaðamannafélags Íslands. Fram að því hafði félagið hins vegar gert fjóra félaga að
heiðursfélögum sínum, þá Árna Óla, Skúla Skúlason, Valtý Stefánsson og Axel Thorsteinsson.

Ekki fer miklum sögum af merkinu fyrr en fyrrnefnt mót kemur í leitirnar. Á stjórnarfundi 20. september 1982 er fært til bókar að samþykkt sé að efna til afmælisfagnaðar 6. nóvember 1982 og heiðurmerki skuli steypt og afhent Þórarni Þórarinssyni og Þorbirni Guðmundssyni í afmælishófinu. Þórarinn og Þorbjörn voru ekki aðeins handhafar blaðamannaskírteina nr. 1 og 2 á þessum tíma með langan starfsaldur að baki heldur hvor á sinn hátt tengdir barm
merkinu. Þórarinn var einn þeirra sem vakti Blaðamannafélagið til lífsins 1937 sem aftur stóð fyrir heimsókn dönsku blaðamannanna og varð til þess að merkið var teiknað og steypt. Þorbjörn hafði hins vegar milligöngu um að færa Blaðamannafélaginu mót merkisins frá Svavari Hjaltested sem aftur hefur verið notað til að slá merkin handa þeim Þórarni og Þorbirni. Þorbjörn minnist þess að hafa verið heiðraður en man óljósar eftir merkinu.

Mynd sem tekin var við afhendinguna sýnir hins vegar svo ekki verður um villst að merkið hefur verið fest í jakka hans. Fimm árum síðar eða á 90 ára afmæli Blaðamannafélagsins dregur enn til tíðinda. Þá var efnt til sögusýningar og í tengslum við hana kemur Árni Gunnarsson, fyrrverandi útvarpsfréttamaður, alþingismaður og formaður félagsins, á fund forráðamanna þess og afhenti félaginu allmörg heiðursmerki. Þessi merki segist Árni hafa fundið þegar hann var að fara í gegnum skáp á skrifstofu fyrrverandi fréttastjóra síns, Jóns Magnússonar. Ekki fylgir sögunni hvort það voru einhver þessara merkja sem voru notuð til að heiðra næstu félaga BÍ sem þau hlutu, en óneitanlega hefði farið vel á því vegna þess að annar þeirra var eftirmaður Jóns í fréttastjórastarfinu, Margrét Indriðadóttir. Hinn var Sverrir Þórðarson á Morgunblaðinu. Hallur Símonarson var sæmdur heiðursmerkinu 1991 eftir meira en 40 ára starf í blaðamennsku og á 95 ára afmæli félagsins hlutu merkið Matthías Johannessen og Elín Pálmadóttir, sömuleiðis fyrir meira en 40 ára samfleytt starf í faginu. Á 100 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands 1997 er komið að þeim Birni Jóhannssyni, Atla Steinarssyni og Gísla Sigurðssyni að hljóta merkið og við veitingu blaðamannaverðlauna Blaðamannafélags Íslands í fyrsta sinn árið 2004 hlutu heiðursmerkið þau Jónas Kristjánsson, Fríða Björnsdóttir, Kári Jónasson og Oddur Ólafsson.

Síðast var heiðursmerkið afhent á Pressuballi árið 2006 en þá hlutu það Björn Vignir Sigurpálsson, Magnús Finnsson og Steinar J. Lúðvíksson. Svo slysalega tókst til þegar merkið var síðast slegið að mótið brotnaði og hefur nú verið gerð gangskör að því nýtt mót verði smíðað.