Aukið aðgengi félagsfólks af landsbyggðinni

Mynd af Austurland.is
Mynd af Austurland.is

Blaðamannafélag Íslands hefur undanfarið aukið faglegt starf t.a.m. með því að standa fyrir öflugri fræðslu og viðburðum um málefni stéttarinnar. Starf Blaðamannafélagsins, rétt eins og flestra annarra stéttar- og fagfélaga, hefur verið frekar höfuðborgarmiðað og þótt flesta þjónustu félagsins sé hægt að nýta rafrænt eða í gegnum síma getur reynst erfitt fyrir félagsmenn utan höfuðborgarsvæðisins að sækja viðburði eins og pressukvöld, námskeið og aðalfund svo eitthvað sé nefnt.

Aðalstjórn BÍ og stjórn Endurmenntunarsjóðs hafa því samþykkt tilraunaverkefni til tveggja ára sem ætlað er að auka aðgengi félagsfólks af landsbyggðinni að starfsemi félagsins með eftirfarandi hætti:

  1. Jöfnunarstyrkur: Félagsfólk utan höfuðborgarsvæðisins getur nú sótt um sérstakan jöfnunarstyrk til að sækja viðburð eða námskeið á vegum BÍ einu sinni á ári sem ætlað er að niðurgreiða ferða- og gistikostnað að ákveðnum skilyrðum uppfylltum.
  2. Rafrænar atkvæðagreiðslur: BÍ bjóði upp á rafrænar atkvæðagreiðslur á aðalfundum félagsins svo blaðamenn utan höfuðborgarsvæðisins geti nýtt félagsréttindi sín og markað stefnu félagsins eins og annað félagsfólk.
  3. Streymi frá viðburðum og námskeiðum: Fleiri viðburðum og námskeiðum verði streymt og boðið upp á sum námskeið alfarið rafrænt. Góðu streymi fylgir þó nokkur kostnaður og það hentar ekki öllum viðburðum að hafa streymi t.d. þegar þegar rætt er um viðkvæm málefni svo ekki verður unnt að streyma öllum viðburðum.