Skrif og námskeið Jónasar Kristjánssonar til varðveislu hjá BÍ

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, og Pálmi Jónasson, sonur Jónasar
Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður BÍ, og Pálmi Jónasson, sonur Jónasar

Blaðamannafélag Íslands hefur á 85 ára fæðingarafmæli Jónasar Kristjánssonar ritstjóra tekið við safni efnis tengdu blaðamennsku sem hann vann á vef sinn jonas.is. Afkomendur Jónasar afhentu forsvarsmönnum BÍ umsjón með vefnum og efni hans í dag og tekur BÍ þar með vefinn til varðveislu í minningu Jónasar sem lést árið 2018.

Á vef Jónasar er að finna ógrynni efnis um blaðamennsku og fjölmiðla, þar á meðal um 350 fyrirlestra um blaðamennsku, sem flestir, ef ekki allir, eiga fullt erindi til blaðamanna sem eru að stíga sín fyrstu skref í faginu í dag, sem og til reyndari blaðamanna sem vilja rifja upp grundvallaratriði blaðamennsku. Þar er einnig að finna alla leiðara Jónasar frá upphafi starfsferils hans, daglegar bloggfærslur og ítarlega starfssögu sem er um leið saga blaðamennsku og fjölmiðla frá árinu 1961 og fram á þessa öld.

Jónas var einn áhrifamesti blaðamaður sem Íslendingar hafa átt. Hann hafði gríðarleg áhrif á margar kynslóðir íslenskra blaðamanna og á íslenska blaðamennsku almennt. Jónas hóf störf við blaðamennsku á Tímanum árið 1961 og var frumkvöðull í blaðaútgáfu og ritstjóri fjölmargra blaða, svo sem Vísis, Dagblaðsins, DV og Fréttablaðsins. Jónas var formaður Blaðamannafélags Íslands og Íslandsnefndar International Press Institute. Hann kenndi blaðamennsku við Norræna blaðamannaháskólann í Árósum og Háskólann í Reykjavík en námskeið hans við HR sem haldin voru á vegum endurmenntunar HR, voru kostuð af 365 með styrk frá Blaðamannafélaginu. Námskeiðin er öll að finna á vef Jónasar, sem BÍ hefur nú fengið til umráða. Þau fjalla um rannsóknarblaðamennsku, almenna blaðamennsku, fréttaöflun, textastíl, starf ritstjóra, nýmiðlun, framtíð blaðamennsku og sögu hennar. 

Sjálfur segir Jónas á vef sínum um námskeið sín og fyrirlestra:

„Almenn kennsla í grundvallaratriðum blaðamennsku reyndist vera nauðsynleg, einnig kennsla í hreinni fréttamennsku. Kennsla í rannsóknarblaðamennsku var líka vinsæl. Kennsla í ritstjórn höfðaði mest til ritstjóra tímarita. Lítill áhugi var á textastíl, alvarlegasta vandamáli íslenzkrar blaðamennsku, líklega af því að blaðamenn fatta ekki stíl. Kennsla í fjölmiðlasögu, framtíðarspám og nýmiðlun naut vinsælda í meðallagi.“

Forsvarsmenn Blaðamannafélagsins, munu á næstunni fara yfir efni vefsíðunnar í samráði við afkomendur Jónasar - með það fyrir augum að gera efni hennar sem aðgengilegast fyrir blaðamenn samtímans. Við þökkum þessa rausnarlegu gjöf sem við vonumst til að verði nýrri kynslóð blaðamanna faglegur leiðarvísir í störfum sínum.