- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Formenn níu stjórnmálaflokka sem bjóða fram til Alþingis á morgun, 30. nóvember eru sammála um lykilhlutverk blaðamennsku í lýðræðissamfélögum. Telja þeir að án faglegrar blaðamennsku og öflugra fjölmiðla yrði samfélagið fátæklegra, valdhöfum og fyrirtækjum sýnt minna aðhald og lýðræði og lífsgæði skert. Standa verði vörð um tjáningarfrelsið og tryggja að fjölmiðlar hafi nægt bolmagn til að geta fjallað með óháðum hætti um mikilvæg málefni eftir sínu blaðamannanefi.
Þótt formennirnir séu sammála um mikilvægi blaðamennsku leggja þeir áherslu á mismunandi aðgerðir til að efla faglega blaðamennsku og styrkja frjálsa fjölmiðla á Íslandi.
Þetta er afstaða formannanna í einstaka málefnum fjölmiðla:
Rekstrarumhverfi fjölmiðla:
Flestir flokkar eru sammála um að ráðast þurfi í aðgerðir til að bæta rekstrarumhverfi fjölmiðla. Sósíalistaflokkurinn vill byggja upp starfslaunakerfi fyrir blaðamenn á borð við það sem þekkist í listageiranum. Samfylkingin, Miðflokkur og Sjálfstæðisflokkur villja bætra samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla gagnvart erlendum með því að leiðrétta það skattamisvægi sem er milli íslenskra miðla og erlendra tæknirisa á borð við Facebook og Google. Píratar vilja skattahvata fyrir sjálfstæða fjölmiðla og Viðreisn og Píratar leggja jafnframt áherslu á að efla styrki til rannsóknarblaðamennsku og nýsköpunar í fjölmiðlum.
Styrkir til einkarekinna miðla:
Stuðningur við einkarekna miðla er mikilvægur þáttur í stefnumótun flestra flokka, en nálgun þeirra er ólík. Flokkar sem styðja styrk eru Sósíalistaflokkurinn, Samfylkingin, Vinstri-græn, Viðreisn, Framsókn og Píratar. Þessir flokkar vilja viðhalda eða auka styrki til einkarekinna miðla. Helstu áherslur eru á fjármögnun rannsóknarblaðamennsku og jöfnun samkeppnisstöðu einkarekinna miðla gagnvart RÚV og tæknirisum.
Flokkar sem eru gagnrýnir á styrki til einkarekinna miðla eru Sjálfstæðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Lýðræðisflokkurinn. Þessir flokkar vilja draga úr beinum ríkisstyrkjum og leggja áherslu á markaðslausnir, t.d. með lækkun skatta á fjölmiðlafyrirtæki eða að skattgreiðendur ráði sjálfir hvaða miðla það styrkir í gegn um lögbundið útvarpsgjald.
Ríkisútvarpið:
Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn, Framsókn, Miðflokkurinn og Lýðræðisflokkurinn vilja minnka umsvif RÚV á auglýsingamarkaði til að skapa meira rými fyrir einkarekna miðla. Viðreisn leggur þó áherslu á að það verið einungis gert á þeim forsendum að það veiki ekki RÚV. Vinstri-græn og Píratar leggja áherslu á mikilvægi RÚV sem fjölmiðils í almannaþágu og eru andsnúin tillögum sem veikt geti stöðu Ríkisútvarpsins.
Önnur áherslumál:
Formennirnir nefndu fleiri atriði sem mikilvæg til eflingar fjölmiðlum og blaðamennsku. Píratar og Vinstri-græn vilja aðgerðir til verndar blaðamönnum gegn lögsóknum og árásum. Sósíalistaflokkurinn lagði fram hugmynd um að almenningur geti styrkt tilteknar ritstjórnir svipað og gert er með sóknargjöld. Þá vill Samfylkingin að hið opinbera líti í auknum mæli til innlendra miðla þegar kemur að áskriftum og kaupum á auglýsingum.
Athugið að einungis var spurt um áherslumál flokkanna í málaflokki fjölmiðla en stefna flokkanna getur innihaldið fleiri atriði en tiltekin voru í viðtölunum.
Samsetning næstu ríkisstjórnar gæti þannig haft töluverð áhrif á stöðu blaðamanna og rekstrarumhverfi fjölmiðla næstu árin. Blaðamannafélag Íslands mun í aðdraganda stjórnarmyndunnar þrýsta á að sem flestar tillögur stjórnar til eflingar blaðamennsku rati í málefnasamning næstu ríkisstjórnar. Þá mun félagið áfram leitast við að hafa áhrif á opinbera stefnu og samfélagslega umræðu um blaðamennsku, fjölmiðlun og tjáningarfrelsi.
Formaður og framkvæmdastjóri Blaðamannafélags Íslands afhentu formönnunum áskorun stjórnar BÍ fyrir Alþingiskosningarnar 2024. Í áskoruninni má finna 10 tillögur um hvernig megi efla blaðamennsku og frjálsa fjölmiðlun á Íslandi:
Öll viðtöl við formenn má finna á Facebook síðu BÍ
Áskorun stjórnar BÍ fyrir Alþingiskosningar 2024 má finna hér.
Freyja Steingrímsdóttir, framkvæmdastjóri BÍ, og Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður, með áskorun við Alþingi