Aðalfundur 8. apríl - lagabreytingatillögur og rafrænar atkvæðagreiðslur

Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands árið 2025 verður haldinn þriðjudaginn 8. apríl n.k. að Síðumúla 23, 3. hæð, 108 Reykjavík og rafrænt. Fundurinn hefst stundvíslega kl. 20:00.

Rafrænar atkvæðagreiðslur

Atkvæðagreiðslur verða rafrænar á aðalfundi að þessu sinni og félagsfólk af landsbyggð eða á fréttavakt fær því tækifæri til að fylgjast með fundinum í beinu streymi og greiða atkvæði um stefnu félagsins. Þetta er liður í áætlun stjórnar um að auka aðgengi félagsfólks af landsbyggðinni að starfsemi félagsins. Tölvupóstur verður sendur á félagsfólk með frekari upplýsingum í aðdraganda fundarins.

Lagabreytingatillögur stjórnar

Stjórn BÍ mun leggja fram tillögur að lagabreytingum sem nálgast má á mínum síðum undir hnappnum tilkynningar. Í þeim eru þær breytingar helstar lagðar til á lögum félagsins að skýrari greinarmunur verði gerður á því hvers konar aðild að félaginu hægt er að velja, sérstaklega hvað varðar sjálfstætt starfandi blaðamenn. Einnig verði nemum í blaðamennsku á háskólastigi nú veitt heimild til nemaaðildar.

Lagt er til að félagsmenn geti því valið um fulla aðild (og greiði þá iðgjöld í alla sjóði og njóti réttinda til styrkja úr þeim), fagaðild (greiði þá eingöngu félagsgjald og hafi ekki rétt til styrkja úr sjóðum), lífeyrisaðild (greiði ekki félagsgjöld en njóti félagsréttinda að undanskildum kosningarétti um kjaratengd málefni og hafi ekki rétt til styrkja úr sjóðum) og loks nemaaðild (veiti sömu réttindi og lífeyrisaðild og einnig undanþegin félagsgjöldum).

Í tillögunum er hlutverk endurmenntunarsjóðs skýrt til samræmis við ákvæði kjarasamnings auk þess sem lagt er til að varamönum í stjórn menningar-, endurmenntunar- og orlofshúsasjóðs verði fjölgað um tvo líkt og gert hefur verið í stjórn styrktarsjóðs. Þá er einnig lagt til að stjórnarmenn í sjóðum verði kosnir til tveggja ára líkt og í aðalstjórn og helmingur stjórnarmanna verði kosinn í senn.

Þá er endurflutt tillaga sem felld var á framhaldsaðalfundi í september sl. - um að fella skuli úr lögum félagsins ákvæði um að birta skuli lista yfir félagsmenn enda samræmist það ekki landslögum. 

Enn er hægt að gefa kost á sér til setu í eftirfarandi stjórnum og nefndum:

  • Aðalstjórn BÍ (aðal- og varamenn til eins eða tveggja ára)*
  • Stjórn Menningarsjóðs BÍ, Orlofsheimilasjóðs og Endurmenntunarsjóðs (aðal- og varamenn til eins árs)
  • Stjórn Styrktarsjóðs BÍ (aðal- og varamenn til eins árs)
  • Siðanefnd BÍ (aðal- og varamenn til eins árs)
  • Dómnefnd Blaðamannaverðlaunanna (aðal- og varamenn til eins árs)
  • Kjörnefnd (aðal- og varamenn til eins árs)
  • Samningaráð (aðal- og varamenn til eins árs)
  • Skoðunarmenn reikninga (aðal- og varamenn til eins árs)

Áhugasamir sendi póst á press@press.is.

Dagskrá aðalfundar:

  • Venjuleg aðalfundarstörf
  • Skýrslur frá starfsnefndum
  • Kosningar*
  • Lagabreytingar
  • Önnur mál

BÍ-félagar eru hvattir til að mæta en fundurinn er öllum opinn.

*Formaður BÍ var endurkjörinn á aðalfundi félagsins 2024 til tveggja ára