Ályktanir aðalfundar BÍ: Blaðamenn fordæma aðför að fjölmiðlafrelsi

Á aðalfundi Blaðamannafélags Íslands sem fór fram í gærkvöldi, þriðjudaginn 8. Apríl, voru samþykktar tvær ályktanir, um heiftúðlega orðræðu í garð blaðamanna á Íslandi og kerfisbundna aðför að blaðamönnum á Gaza.

Fyrri ályktunin fjallar um þá kröfu blaðamanna að brugðist verði við óvægnu aðkasti í opinberri umræðu og frá valdhöfum í íslensku samfélagi og varað við þróun þar sem smám saman er grafið undan fjölmiðlafrelsi. Þótt sé eðlilegt og nauðsynlegt að fjölmiðlar sæti gagnrýni og sé sýnt aðhald verði gagnrýni að byggjast á málefnalegri umræðu og virðingu fyrir hlutverki fjölmiðla í lýðræðissamfélagi. Þá segir í ályktuninni að þegar valdhafar leyfi sér að tala niður til fjölmiðla, draga í efa heilindi blaðamanna eða beita hótunum – beint eða óbeint – sé hætt við að slíkt leiði til þess að mikilvægar raddir þagni og aðgengi almennings að upplýsingum skerðist. Fái slíkt ástand að festast í sessi skapast hætta á að blaðamenn beiti sjálfsritskoðun, forðist erfið viðfangsefni eða þegi þar sem þörf er á opinskáum og gagnrýnum spurningum.

Seinni ályktunin, felur í sér fordæmingu fundarins á kerfisbundinni aðför að blaðamönnum á Gaza. Í ályktuninni kemur fram að fleiri blaðamenn hafi nú verið drepnir í Palestínu en í báðum heimstyrjöldunum og vísbendingar séu uppi um að blaðamenn séu sérstaklega leitaðir uppi og vísvitandi gerðir að skotmörkum. Brýn þörf sé á því að alþjóðlegir blaðamenn fái að fara inn á svæðið og skoðað á stjórnvöld að kalla eftir vernd blaðamanna á Gaza og því að alþjóðlegir blaðamenn fái að fara þangað og upplýsa almenning um söguna.

Ályktanirnar í heild sinni

Stöndum með fjölmiðlafrelsi
Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands varar við þróun þar sem smám saman er grafið undan fjölmiðlafrelsi – á Íslandi sem og annars staðar. Þótt Ísland komi vel út á flestum mælikvörðum lýðræðisríkja hefur staða fjölmiðla veikst hratt á síðustu árum með þeim afleiðingum að við færumst sífellt fjær öðrum Norðurlandaþjóðunum þegar kemur að fjölmiðlafrelsi. Sú staðreynd að Ísland sé nú í 18. sæti yfir þau ríki þar sem tjáningarfrelsi blaðamanna er best tryggt er óboðleg. Til samanburðar skipa aðrar Norðurlandaþjóðir ásamt Hollandi 1-.5. sæti listans. Blaðamenn sæta sífellt óvægnara aðkasti – bæði í opinberri umræðu og frá valdhöfum. Orðræðan einkennist í auknum mæli af tortryggni, niðurrifi og fjandsamlegum viðhorfum gagnvart blaðamönnum að störfum. Þessi þróun er hluti af mynstri sem sést víða um heim.

Það er eðlilegt og nauðsynlegt að fjölmiðlar sæti gagnrýni og sé sýnt aðhald. En gagnrýni verður að byggjast á málefnalegri umræðu og virðingu fyrir hlutverki fjölmiðla í lýðræðissamfélagi. Þegar valdhafar leyfa sér að tala niður til fjölmiðla, draga í efa heilindi blaðamanna eða beita hótunum – beint eða óbeint – er hætt við að slíkt leiði til þess að mikilvægar raddir þagni og aðgengi almennings að upplýsingum skerðist. Slík framkoma smitast auðveldlega út í almenna umræðu og dregur úr trausti, bæði til fjölmiðla og til þeirra lýðræðisstofnana sem þeir hafa það hlutverk að veita aðhald. Ef slíkt ástand fær að festast í sessi skapast hætta á að blaðamenn beiti sjálfsritskoðun, forðist erfið viðfangsefni eða þegi þar sem þörf er á opinskáum og gagnrýnum spurningum. Skautunin í samfélaginu er orðin slík að blaðamenn eiga daglega á hættu svívirðingar og kröfur um brottrekstur ef þeir fjalla um umdeild mál á hátt sem fellur ekki nákvæmlega að hugmyndum tiltekinna hópa um „rétta“ umfjöllun. Það er ástand sem getur ekki annað en stuðlað að brottfalli úr stéttinni og verður að linna.

Fjölbreytt, frjálst og öflugt fjölmiðlaumhverfi er grundvöllur lýðræðislegrar umræðu og samfélags. Aukin skautun í opinberri umræðu og upplýsingaóreiða gerir það að verkum að aldrei hefur verið meiri þörf fyrir vandaða blaðamennsku. Á tímum sem algóritmar samfélagsmiðla sýna kannski bara eina hlið raunveruleikans, gervigreind rýfur mörkin milli þess raunverulega og óraunverulega, utanaðkomandi öfl reyna að hafa áhrif á lýðræðislegar kosningar víða um heim og grafa undan samfélagslega mikilvægum stofnunum, hafa hefðbundnir fjölmiðlar verið að veikjast. Traustir fréttamiðlar sem ástunda fagleg vinnubrögð eru mikilvægasta vörnin gegn þessum hættum.

Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands hvetur stjórnvöld, áhrifafólk og allan almenning til að standa með blaðamönnum og fjölmiðlum í því krefjandi ástandi sem nú ríkir. Fjölmiðlafrelsi er ekki einungis faglegt hagsmunamál blaðamanna – það er grundvallaratriði í heilbrigðu lýðræði. Það snýst um rétt almennings til aðgangs að upplýsingum, og um skyldu valdhafa til að sæta gagnsæi og ábyrgð.

Ísland býr að því að eiga öfluga blaðamenn og fjölmiðla sem standa vörð um lýðræðislegt hlutverk sitt. En staðan er alvarleg og kallar á breiðari þátttöku og aðgerðir. Það er ekki aðeins á ábyrgð fjölmiðlanna sjálfra, eða Blaðamannafélag Íslands, að tryggja fjölmiðlafrelsi, tjáningarfrelsi og upplýst samfélag – heldur þarf virka þátttöku og vilja margra aðila. Þessari lýðræðislegu stoð verður ekki viðhaldið nema með sameiginlegu átaki.

Vernd blaðamanna á Gaza

Aðalfundur Blaðamannafélags Íslands fordæmir harðlega kerfisbundna aðför að blaðamönnum á Gaza.

Í skýrslu frá Watson stofnuninni við Brown háskóla kemur fram að frá 7. október 2023 til 25. desember 2024 hafi a.m.k. 217 blaðamenn og starfsmenn fjölmiðla verið drepnir á Gaza. Það samsvarar því að uþb 13 blaðamenn falli mánaðarlega.

Fleiri blaðamenn hafa nú verið drepnir í Palestínu en í báðum heimsstyrjöldunum. Samtökin Committee to Protect Journalists (CPJ) hafa áður lagt til atlögu við það sem þau greina sem ofsóknir gagnvart blaðamönnum af hálfu Ísraelsmanna. Reporters Without Borders hafa kallað eftir að alþjóðasamfélagið þrýsti á ísraelsk yfirvöld að hætta fjöldamorði á palestínskum blaðamönnum.

Fjölmörg dæmi eru um að blaðamenn hafi verið gerðir að sérstökum skotmörkum Ísraelshers, nú síðast fyrir örfáum dögum þegar þegar tjald palestínskra blaðamanna við sjúkrahús í Khan Younis varð fyrir mannskæðri árás.

Það að enginn hafi þurft að svara til saka fyrir dauðsföllin skapar ásýnd réttdræpni.

Brýn þörf er á að alþjóðlegir blaðamenn fái að fara inn á svæðið en það er hindrað eða verulega takmarkað.
Við skorum á stjórnvöld að kalla eftir vernd blaðamanna á Gaza, í samræmi við alþjóðalög. Blaðamenn verða að fá að segja okkur söguna og skrá hana án þess að fórna sínu lífi.