- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Vilhjálmur fæddist 4. október á Eyrarbakka. Hann var Samvinnuskólagenginn, en samkvæmt upplýsingum hans sjálfs í drögum að blaðamannatali frá því á sjötta áratug síðustu aldar segist hann hafa byrjað í blaðamennsku 1925 við Eyjablaðið í Vestmannaeyjum, eða árin 1925-1926, en á Alþýðublaðinu 1926 og síðan. Eyðublaðið með þessum upplýsingum hefur hann hins vegar ekki dagsett. Um helstu æviatriði segir Vilhjálmur: „Fæddur á Eyrarbakka. Foreldrar Gíslína Erlendsdóttir og Vilhjálmur Ásgrímsson verkamaður. Til Reykjavíkur 1919. Byrjaði að læra skósmíði, hætti, klæðskurð, hætti. Samvinnuskólinn 1923-1925. Gekk í verkalýðshreyfinguna 1920. Ritstjóri Blaðamannabókanna, Fólksins í landinu, Útvarpstíðinda í eitt ár, Heima er bezt í eitt ár. Skáldverk: Ég skal segja þér..., Brimar við Bölklett, Krókalda, Kvika, Beggja skauta byr. Kvæntur Bergþóru Guðmundsdóttur, Haukadal, Dýrafirði.“
Við þetta er því að bæta að Vilhjálmur S. Vilhjálmsson var vinsæll og mikilsmetinn blaðamaður og rithöfundur. Hann telst ásamt Valtý Stefánssyni brautryðjandi viðtalsformsins í íslenskri blaðamennsku og um árabil hélt hann úti dálki um daglega lífið.
Um Vilhjálm segir í fjölmiðlasögunni Nýjustu fréttir!:„Merkasta framlag hans til íslenskrar blaðamennsku vou daglegir dálkar í Alþýðublaðinu er hann hélt úti frá 1937 til dauðadags er hann skrifaði undir dulnefninu Hannes á horninu. Dálkurinn var nýjung á Íslandi er hann hóf göngu sína. Hann var í senn vettvangur fyrir almenning til að koma á framfæri skoðunum sínum, umkvarti, lofi og lasti og jafnframt leið fyrir Vilhjálm sjálfan til að koma á framfæri áhugamálum sínum. Blaðaviðtöl hans við alþýðufólk voru einnig merk nýjung. Hann lést 4. maí 1966.“ Vilhjálmur S. Vilhjálmsson var mjög virkur innan Blaðamannafélags Íslands og lét þar mikið til sín taka á mörgum sviðum. Blaðamannabækurnar fjórar, frá 1946, 1947, 1948 og 1949 eru gott dæmi um atorku hans.
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=184860&pageId=2401361&lang=is&q=Vilhj%E1lmur%20S