- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Þórunn fæddist í Reykjavík og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1931. Hún gerðist þá blaðamaður hjá Morgunblaðinu og starfaði þar fram til 1941. Hún giftist dr. Sveini Þórarinssyni, menntaskólakennara á Akureyri og fyrsta skólameistara Menntaskólans á Laugarvatni, en hann var bróðir Sverris Þórðarsonar, blaðamanns á Morgunblaðinu til margra ára. Þórunn fluttist með fjölskyldu sinni til Kanada árið 1959 þar sem eiginmaður hennar starfaði lengst af sem háskólaprófessor. Á 25 ára afmæli Morgunblaðsins 1938 birtist grein eftir Valtý Stefánsson ritstjóra, Sólarhringur við Morgunblaðið, sem fjallar um starfsemi Morgunblaðsins. Þar lýsir Valtýr störfum og verkaskiptingu og segir m.a.: „Þórunn Hafstein mun vera fyrsti kvenmaðurinn, sem unnið hefir að blaðamensku hjer á landi öðru vísi en sem ritstjóri kvennablaðs. Hún hefir starfað við blaðið í fimm ár, annast „kvennasíðu“ blaðsins og séð um annað efni, sem konum er hugleikið. Hún þýðir hinar vinsælu neðanmálssögur, auk ýmsra annarra starfa á skrifstofu blaðsins. Hefir hún t.d. umsjón með myndamótasafni blaðsins.“
Á 60 ára afmæli Morgunblaðsins í byrjun nóvember 1973 rifjar Ívar Guðmundsson, fyrrum fréttaritstjóri blaðsins og þá orðinn starfsmaður Sameinuðu þjóðanna, upp fyrstu ár sín á blaðinu og nefnir sérstaklega til sögunnar Þórunni Hafstein, „fyrstu blaðakonu Íslands. Ég staðhæfi þetta með fullri virðingu fyrir Bríeti Bjarnhéðinsdóttur og öðrum kvenhetjum á Íslandi, sem hafa fiktað við pólitíska blaðamennsku, en hún á ekki nema að nafninu til skylt við atvinnublaðamennsku. Pólitíski blaðamaðurinn skrifar til að þjóna flokki sínum eða til að upphefja sjálfan sig, en atvinnublaðamaðurinn, sem ber virðingu fyrir köllun sinni, þjónar almenningi með skrifum sínum, burtséð frá flokkshagsmunum eða eigin upphefð.“
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=130884&pageId=1913099&lang=is&q=HAFSTEIN%20%DE%F3runn