- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Þorsteinn fæddist á Stóru- Mörk undir Eyjafjöllum. Foreldrar hans bjuggu í fátækt og var nýfæddum syninum komið mánaðargömlum í fóstur til ömmu sinnar í Hlíðarendakoti í Fljótshlíð þar sem hann ólst upp. Er minnisvarði um Þorstein í Hlíðarendakoti. Sagan segir að Þorsteinn hafi verið „uppgötvaður“ 18 ára að aldri af þjóðskáldunum Steingrími Thorsteinssyni og Matthíasi Jochumssyni og altént sáu þeir til þess að Þorsteinn komst til náms til Reykjavíkur. Hann útskrifaðist sem stúdent árið 1883 og hélt að loknu stúdentsprófi til Kaupmannahafnar, en flosnaði upp úr námi. Hann vann fyrir sér ytra á þessum árum, m.a. með stundakennslu, og lifði oft við kröpp kjör. Þorsteinn var á þessum tíma farinn að vekja athygli fyrir ljóð sín. Hann var mótaður af rómantísku stefnunni, en orti þó mörg þekktustu kvæði sín í anda raunsæis, enda gekk hann jafnaðarstefnunni á hönd einn fyrstur Íslendinga. Þorsteinn Erlingsson fluttist heim árið 1896 og gerðist þá ritstjóri Bjarka á Seyðisfirði, fyrst einn og síðan með Þorsteini Gíslasyni. Þaðan hvarf Þorsteinn vestur á Bíldudal og gerðist þar ritstjóri Arnfirðings, sem Pétur J. Thorsteinsson athafnamaður gaf út frá 1901-1903. Þá settist Þorsteinn að í Reykjavík. Vilhjálmur Þ. Gíslason segir um Þorstein í riti sínu Blöð og blaðamenn 1773 til 1944 að hann sé skýrt dæmi um tvískinnung blaðamennskunnar milli milli skáldskapar og stjórnmála. Hann hafi greinilega oft kunnað illa við sig í blaðamennsku þess tíma, sem löngum hafi þurft að vera pólitísk. Afstaða Þorsteins til pólitískrar blaðamennsku og deilumála sé þó að því leyti einkennileg að hann hafi verið það skáld samtíma síns, „sem frægastur var og umdeildastur einmitt fyrir harða ádeilu,“ segir Vilhjálmur.
Þorsteinn var ekki meðal hinna upphaflegu stofnfélaga Blaðamannafélags Íslands, en varð félagi ekki löngu síðar meðan hann ritstýrði Bjarka á Seyðisfirði og ekki ólíklegt að meðritstjóri hans þar, Þorsteinn Gíslason, hafi haft þar hönd í bagga. Alltént hefur Þorsteinn gjarnan verið talinn meðal stofnfélaga.
http://is.wikipedia.org/wiki/%C3%9Eorsteinn_Erlingsson
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=156076&pageId=2179024&lang=is&q=%DEorsteinn%20Erlingsson