- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Þórarinn fæddist 19. september í Ólafsvík. Upplýsingar frá Þórarni sjálfum fyrir blaðamannatalið sem verið var að taka saman á sjötta áratugnum eru dagsettar 28. september 1951 og þar kemur fram að hann hafi verið í Samvinnuskólanum 1931-33 og jafnframt byrjað í blaðamennsku árið 1933 á Nýja dagblaðinu. Hann er á Nýja dagblaðinu til 1936 en starfar upp frá því á Tímanum. Upplýsingarnar í drögum blaðamannatalsins eru af skornum skammti og því við að bæta að foreldrar hans voru Þórarinn Þórðarson sjómaður og Kristjana Magnúsdóttir. Hann varð ritstjóri Nýja dagblaðsins 1936, aðeins 22 ára gamall. Árið 1938 var honum fengin ritstjórn Tímans og því starfi gegndi hann til ársins 1984. Hann var handhafi blaðamannaskírteinis númer 1 um tíma. Þórarinn tók þátt í endurreisn Blaðamannafélagsins í tvígang á fjórða áratug síðustu aldar og var alla tíð umhugað um hag og viðgang félagsins. Þórarinn tók virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins. Hann var fyrsti formaður Sambands ungra framsóknarmanna 1938-1944. Hann var þingmaður Reykvíkinga 1959-1978. Þórarinn sat í miðstjórn Framsóknarflokksins í áratugi og var formaður þingflokks framsóknarmanna 1971-1978.
Þórarinn starfaði mikið að utanríkismálum fyrir Framsóknarflokkinn. Hann sat í utanríkismálanefnd Alþingis 1959-1978 og var formaður nefndarinnar 1971-1978. Hann var fulltrúi í undirbúningsnefnd hafréttarráðstefnunnar 1971-1973 og fulltrúi á hafréttarráðstefnunni 1973-1982. Hann sat margoft sem fulltrúi Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þórarinn sat í fjölmörgum nefndum og ráðum á starfsævi sinni, m.a. átti hann sæti í útvarpsráði í mörg ár. Hann skrifaði einnig sögu Framsóknarflokksins sem út kom í þriggja binda ritröð undir nafninu Sókn og sigrar.