- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sverrir fæddist í Reykjavík, sonur hjónanna Þórðar Sveinssonar geðlæknis og Ellen Johanne Kaaber frá Kaupmannahöfn. Ólst Sverrir upp í foreldrahúsum á Kleppi, yngstur sjö systkina. Sverri hóf nám í rafvirkjun, en sneri sér að blaðamennsku 1943 þegar hann hóf starf á Morgunblaðinu. Hann starfaði lengst af í fréttum og var einn helsti fréttahaukur blaðsins á árum áður. Hann fylgdist m.a. með stríðsglæparéttarhöldunum í Nürnberg fyrir Morgunblaðið fljótlega eftir seinna stríð. Sverrir hafði vistaskipti skamma stund er hann hóf störf á Vísi undir lok sjötta áratugarins sem fréttastjóri innlendra frétta, en sneri fljótlega aftur til Morgunblaðsins, fyrst sem dreifingarstjóri, en síðan tók blaðamennskan við á ný. Hafði hann m.a. umsjón með minningargreinum Morgunblaðsins allt til starfsloka er hann varð sjötugur. Sverrir Þórðarson gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Blaðamannafélag Íslands og var m.a. formaður Menningarsjóðs BÍ og Orlofsheimilasjóðs sem tóku þátt í kaupunum á núverandi skrifstofuhúsnæði félagsins í Síðumúla og orlofshúsum í Brekku. Sverrir er einn þeirra sem rætt er við í bókinni Íslenskir blaðamenn sem út kom á 110 ára afmæli Blaðamannafélags Íslands árið 2007, en hann var þá handhafi blaðamannaskírteinis nr. 3. Sverrir er faðir Ásgeirs Sverrissonar, sem lengi var blaðamaður á Morgunblaðinu, m.a. sem fréttastjóri erlendra frétta, og var ritstjóri Blaðsins/24 stundir um tíma.