- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sveinn fæddist 9. apríl á Leirárgörðum í Borgarfjarðarsýslu. Í drögum að blaðamannatali frá því á sjötta áratug síðustu aldar kemur fram að hann hefur sótt nám í kvöldskóla, Iðnskólanum, og skóla í Kanada. Umsókn hans um upptöku í Blaðamannafélag Íslands er dagsett 1. júlí 1956, en hann starfar þá á Tímanum og byrjaði þar í blaðamennsku sex mánuðum fyrr. Um helstu æviatriði skrifar Sveinn: „Fæddur í Leirárgörðum, Borgarfjarðarsýslu. Fluttist á öðru ári til Akraness. Þar til 16 ára aldurs. Var á Íþróttaskólanum í Haukadal. Við ýmis störf unz ég hóf iðnnám í rafvélavirkjun 1942. Lauk prófi 1946. Frá 1948-1954 rafvélavirki á ýmsum skipum Eimskipafélags Íslands. Fór til Kanada 1954 til framhaldsnáms í rafbúnaði skipa. Vann í skipasmíðastöðinni Burrard Dry Dock og stundaði kvöldnám í Vancouver Technical School. Fór þaðan til Þýskalands. Stundaði nám hjá Plat Co. í Hamborg í viðgerðum og viðhaldi Gyro-atlanta. Síðan hjá AEG, sama stað. Lærði þar um sjálfstýringar í skipum o.fl. Kom heim í júní 1955. Hóf að nýju störf hjá EÍ sem skiparafvirki. Fyrst á Lagarfossi og síðan á Tröllafossi. Hætti þar 23. desember 1955. Réðst til Dagblaðsins Tímans sem blaðamaður 1. janúar 1956.“
Sveinn staldraði ekki lengi við í blaðamennskunni því árið 1957 réðst hann sem blaðafulltrúi til Flugfélags Íslands og síðar Flugleiða, þar sem hann átti mikil og margvísleg samskipti við íslensku blaðamannastéttina. Eftir Svein liggur um tugur bóka, aðallega sjómannabækur, auk Flugsögu Íslands sem hann skrifaði í félagi við annan blaðamann, Steinar J. Lúðvíksson.