- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Svavar fæddist í Reykjavík 16. nóvember. Foreldrar hans voru Pétur Hjaltested, úrsmiður, og Sophia Hjaltested, upphaflega Finsen. Ekki liggja fyrir upplýsingar um menntun Svavars, en hann var systursonur Vilhjálms Finsen, stofnanda Morgunblaðsins, og hafði meira segja verðið gerður út af Vilhjálmi til að fara um bæinn og selja fyrsta tölublaðið af Morgunblaðinu í byrjun nóvember 1913. Síðar fékk Vilhjálmur Svavar aftur til liðs við sig tólf árum síðar, þegar fyrsta tölublaðið af Fálkanum kom út. Þetta þóttu talsverð tímamót, eða eins og sagði í blaðinu sjálfu á 35 ára afmæli þess: „Með útkomu Fálkans var brotið blað í sögu blaðamennskunnar hér á landi. Hafin var útgáfa fyrsta myndskreytta vikublaðsins og jafnframt blaðs sem ekki var háð neinni stjórnmálastefnu.“ Í grein í Blaðamanninum 2012 er fjallað um Svavar Hjaltested vegna þess að hann hafði komið til félagsins mótum af hinu upprunalega heiðursmerki félagsins sem Leifur Kaldal gerði. Segir þar að tildrögin að stofnun Fálkans hafi verið þau að Vilhjálmur Finsen, stofnandi Morgunblaðsins, hafi lengi velt því fyrir sér hvort tök væru á að gefa út myndskreytt vikublað hér á landi. „Þegar hann hafði selt Morgunblaðið og starfaði sem blaðamaður á Dagens Nyheter ákvað hann að gera þessa hugmynd sína að veruleika. Hann fór þess á leit við Svavar Hjaltested að hann gerðist meðeigandi og stofnandi að blaðinu ásamt þriðja manni. Þeir voru heilt ár að undirbúa blaðið, útvega sambönd í myndamótum og efni og fleira. Árið 1928 kemur Skúli Skúlason til landsins frá Kaupmannahöfn, en hann hafði verið samstarfsmaður Vilhjálms í fjöldamörg ár á Morgunblaðinu og getið sér gott orð sem dugmikill og fjölhæfur blaðamaður. Hann gerðist þriðji stofnandinn og aðalritstjóri.“ Ennfremur segir: „Fálkinn var frumkvöðull í íslenskri blaðaútgáfu á margvíslegan hátt. Hann birti fyrstur blaða afmælismyndir af þekktum borgurum, hann birti fyrstu krossgátuna sem birtist í íslensku blaði og hann birti fyrstu myndasögupersónuna hér á landi, Adamson. Fékk blaðið mjög góðar viðtökur. Þegar Vilhjálmur Finsen varð sendiherra í Svíþjóð urðu þeir Skúli og Svavar tveir eigendur Fálkans. Þeir störfuðu saman við blaðið í 34 ár. Skúli var ritstjórinn öll þessi ár enda þótt hann dveldist langdvölum í Noregi, sendi þaðan allt efni blaðsins nema hið innlenda sem unnið var hér heima. Svavar var á sama tíma framkvæmdastjóri blaðsins og jafnframt auglýsingastjóri og afgreiðslustjóri.“ Svavar var þannig aldrei skrifandi blaðamaður, en hann þótti ágætur ljósmyndari og lagði blaðinu til myndir auk þess að annast önnur störf. Skúli og Svavar hurfu frá blaðinu snemma á sjöunda áratugnum. Svavar réðst þá, kominn af léttasta skeiði, til Almennra trygginga, en þar átti hann eftir að starfa 28 ár til viðbótar, eða til ársloka 1987 er hann lét af störfum 86 ára að aldri. Hann lést í september árið 1991.