- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Verðlaun
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Svava fæddist í Neskaupstað 4. október. Foreldrar hennar voru (Hans) Jakob Jónsson prestur og Þóra Einarsdóttir.
Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1949 og BA-prófi í enskum og amerískum bókmenntum frá Smith College í Northampton í Massachusetts, Bandaríkjunum, árið 1952. Svava starfaði í utanríkisráðuneytinu og í sendiráðinu í Stokkhólmi 1955 til 1960 og var blaðamaður við Lesbók Morgunblaðsins 1966 til 1969. Hún var þingmaður Alþýðubandalagsins í Reykjavík 1971 til 1979 og átti m.a. frumkvæði að jafnréttislögum sem Alþingi samþykkti.
Svava sat í stjórn Rithöfundafélags Íslands 1968 til 1971. Hún gegndi ýmsum nefndarstörfum og var meðal annars í nefnd til að semja frumvarp um hlutdeild ríkisins í byggingu og rekstri dagvistarheimila 1971 og í nefnd til að semja frumvarp til laga um Launasjóð rithöfunda 1973. Hún var enn fremur varamaður í Norðurlandaráði 1971 til 1974 og aðalmaður þess 1978 til 1979. Svava var fulltrúi á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árin 1972, 1974, 1977 og 1982. Hún var í stjórn Máls og menningar 1976 til 1979 og átti einnig sæti í fulltrúaráði þess. Hún var fulltrúi Íslands í jafnréttisnefnd Norðurlanda 1980 til 1983. Hún sat einnig í stjórn Leikskáldafélags Íslands 1986 til 1990, svo nokkuð sé nefnt.
Fyrsta bók Svövu var smásagnasafnið Tólf konur sem kom út árið 1965 en hún skrifaði smásögur, skáldsögur og leikrit auk þess að semja leikrit bæði fyrir sjónvarp og útvarp. Hún skrifaði enn fremur fjölda ritgerða og blaðagreina og gerði þætti fyrir útvarp. Verk hennar hafa verið þýdd á fjölmörg tungumál og hafa leikrit hennar einnig verið flutt víða erlendis.
Eiginmaður Svövu var Jón Hnefill Aðalsteinsson prófessor, (sjá Blaðamannaminni 1773–1960) og hún var systir Jökuls Jakobssonar (sjá Blaðamannaminni 1773–1960.
https://www.althingi.is/altext/cv/is/?nfaerslunr=562
http://is.wikipedia.org/wiki/Svava_Jakobsd%C3%B3ttir
https://bokmenntaborgin.is/bokmenntavefur/hofundar/svava-jakobsdottir