- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Styrmir Gunnarsson fæddist 27. mars. Foreldrar Styrmis voru Salmanía Jóhanna Jóhannesdóttir og Gunnar Árnason framkvæmdastjóri. Styrmir varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík þar sem hann bast vinaböndum við marga sem áttu eftir að verða áberandi í íslensku þjóðlífi seinna meir svo sem Jón Baldvin Hannibalsson, Ragnar Arnalds, Halldór Blöndal, Atla Heimi Sveinsson, Brynju Benediktsdóttur og Svein Eyjólfsson.
Að loknu laganámi frá háskólanum hóf Styrmir störf við Morgunblaðið hinn 2. júní 1965 og varð fyrst aðstoðarritstjóri en síðan einn aðalritstjóra þess árið 1972.
Styrmir varð fljótlega áhrifamaður innan Sjálfstæðisflokksins sem hann hafði fylgt að málum frá því á unga aldri. Fyrsta verkefni hans hjá Morgunblaðinu var að sögn hans að taka viðtal við Bjarna Benediktsson, þáverandi forsætisráðherra og áður ritstjóra Morgunblaðsins.
Styrmir lét af ritstjórastarfi þann 2. júní 2008. Þá hafði hann unnið hjá Morgunblaðinu í 43 ár, þar af 36 sem ritstjóri. Árið 2009 gaf hann út bókina Umsátrið - fall Íslands og endurreisn, sem fjallar um bankahrunið á Íslandi haustið 2008 og afleiðingar þess, sem vakti talsverða athygli og deilur. Athygli vöktu einnig orð sem hann lét falla í vitnisburði fyrir Rannsóknarnefnd Alþingis:
„Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“
Styrmir hefur síðan skrifað fleiri bækur um stjórnmál á Ísland, svo sem Í köldu stríði – Barátta og vinátta á átakatímum, Átök og uppgjör – Sjálfstæðisflokkurinn, Hrunadans og horfið fé, auk bókarinnar Ómunatíð sem fjallar um baráttu eiginkonu Styrmis við geðræn veikindi um árabil.