- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sigvaldi fæddist 6. október á Skeggsstöðum Bólstaðarhlíðarhreppi í Austur-Húnvatnssýslu. Að loknu prófi frá Reykholtsskóla árið 1940 hóf hann nám í Kennaraskólanum í Reykjavík. Kennaraprófi lauk Sigvaldi árið 1943 og var við kennslu og skólastjórn í Hveragerði næstu þrjú ár. Veturinn 1946-1947 var hann kennari í Reykjavík, en hóf að því loknu langan og farsælan blaðamanna- og ritstjóraferil. Hann var blaðamaður á Alþýðublaðinu meira og minna frá 1947-1972. Sigvaldi var þar bæði fréttastjóri og fulltrúi ritstjóra, en var um skeið ritstjóri Fálkans og Úrvals, og yfirmaður þýðingardeildar Sjónvarpsins í eitt ár. Einnig starfaði hann við dagblaðið Vísi og var fréttaritari sænsku fréttastofunnar TT. Jafnframt kom Sigvaldi að félagsmálum blaðamanna og rithöfunda, en hann var formaður Blaðamannafélags Íslands í eitt ár. Árið 1978 stofnaði hann Hugræktarskóla sem starfaði fram á síðasta æviár hans, en Sigvaldi var guðspekingur og var forseti Íslandsdeildar Guðspekifélagsins um árabil. Einnig átti hann sæti í allsherjarráði Guðspekifélagsins og loks var hann í stjórn Evrópusambands Guðspekifélagsins. Auk alls þessa var hann ritstjóri Ganglera, tímarits Guðspekifélagsins. Sigvaldi skrifað bækur um austurlensk fræði auk ferðaþátta frá Indlandi, en eftir hann liggja alls níu bækur.