- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sigurlaug fæddist í Vigur í N-Ísafjarðarsýslu 4. júlí. Umsókn hennar um upptöku í Blaðamannafélag Íslands er í drögunum að blaðamannatali frá því á sjötta áratug síðustu aldar dagsett 12. apríl 1953. Þar kemur fram að hún er með stúdentspróf og BA-próf frá háskólanum í Leeds í Englandi. Hún er þá blaðamaður á Mogunblaðinu, hóf störf 1. október 1952 og hefur starfað á ritstjórn blaðsins í rúmlega sex mánuði. Meðmælendur á umsókn hennar eru þeir Guðni Þórðarson, Tímanum, og Valtýr Stefánsson, Morgunblaðinu. Um helstu æviatriði segir Sigurlaug: „Fædd í Vigur í N-Ísafjarðarsýslu, dóttir hjónanna Bjarna Sigurðssonar, bónda, og Bjargar Björnsdóttur frá Veðramóti, eiginkonu hans. Dvaldist í heimahúsum til 15 ára aldurs, en fór þá til náms í Menntaskólanum á Akureyri og lauk þaðan stúdentsprófi vorið 1947. Dvaldi næsta vetur, 1947-1948, á Akranesi og kenndi við gagnfræðaskólann þar. Fór til Englands haustið 1948 til náms við háskólann í Leeds og lauk þaðan BA-prófi í ensku og frönsku þremur árum síðar, 1951. Dvaldi sl. vetur, 1951-1952, við framhaldsnám í frönsku og frönskum bókmenntum við Sorbonne-háskólann í París. Hóf störf við blaðamennsku hjá Morgunblaðinu sl. haust, 1.október, og hefi aðallega fengist við þýðingar erlendra greina um ýmis efni., samtöl o.s. frv.“
Sigurlaug starfaði á Morgunblaðinu um þriggja ára skeið, samkvæmt alþingismannatali, en sneri sér eftir það aðallega að kennslu. Hún var borgarfulltrúi í Reykjavík 1970-1974, og sat á þingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á Vestfjörðum 1974-1978 og sem varaþingmaður öðru hverju allt til ársins 1983. Maður Sigurlaugar var Þorsteinn Thorarensen, blaðamaður, rithöfundur, og útgefandi og bróðir hennar var Sigurður Bjarnason frá Vigur, ritstjóri Morgunblaðsins.
http://www.althingi.is/altext/cv.php4?nfaerslunr=528
http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=53923&pageId=986877&lang=is&q=SIGURLAUG%20BJARNAD%D3TTIR