- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sigurður fæddist 18. desember 1915 í Vigur í Ögurhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Foreldrar hans voru Bjarni Sigurðsson, bóndi og hreppstjóri, og Björg Björnsdóttir húsmóðir. Sigurður lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1936, lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1941 og einnig stundaði hann framhaldsnám í lögfræði í Cambridge á Englandi 1945. Sigurður hóf störf á Morgunblaðinu 1941 og starfaði þar um nær 30 ára skeið, fyrst sem blaðamaður, síðan stjórnmálaritstjóri og loks ritstjóri frá 1956-1970. Sigurður var kjörinn alþingismaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norður-Ísafjarðarsýslu 1942-1959 og í Vestfjarðakjördæmi 1959-1970. Hann var forseti neðri deildar Alþingis 1949-1956 og 1963-1970, 2. varaforseti neðri deildar 1946-1949 og 1. varaforseti efri deildar 1959. Þegar Sigurður féll frá í ársbyrjun 2012 var í fréttum greint frá því að þar væri horfinn af sjónarsviðinu síðasti þingmaðurinn sem átti sæti á Alþingi við lýðveldisstofnunina 1944. Þar var hann yngstur þingmanna, 28 ára gamall. Sigurður lýsti lýðveldisstofnuninni í viðtali við Gísla Sigurðsson í Morgunblaðinu á 50 ára afmæli lýðveldisins 1994:
„Eins og aðrir í mínum þingflokki var ég hraðskilnaðarmaður. Danmörk var hernumin og engir vissu hverjar lyktirnar yrðu. Við vorum á einu máli um að fresta ekki aðskilnaði og lýðveldisstofnun. Allir vita hvernig þjóðaratkvæðagreiðslan fór og allt í einu er runnin upp þessi stóra stund í slagviðrinu á Þingvöllum. Það var tvímælalaust stærsti atburðurinn á mínum stjórnmálaferli,“ sagði Sigurður. Þegar hann var spurður hvort eitthvað einstakt við lýðveldisstofnunina væri honum ofar í huga en annað, svaraði Sigurður. „Mér er í rauninni minnisstæðastur fögnuður fólksins.“ Að lokinni þingmennsku gerðist Sigurður sendiherra víða um lönd, m.a. í Kaupmannahöfn og London. Hann gegndi fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum um ævina, var m.a. formaður Blaðamannafélags Íslands 1957-1958 og formaður Norræna blaðamannasambandsins sömu ár. Sigurður átti sæti í Norðurlandaráði 1953-1959 og 1963-1970, var formaður Íslandsdeildar og einn af forsetum ráðsins 1953-1956, 1958-1959 og 1963-1970. Hann sat á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 1960-1962. Sigurður er faðir Hildar Helgu blaðamanns og bróðir Sigurlaugar, fyrrverandi alþingismanns og blaðamanns á Morgunblaðinu.