- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Sigurður fæddist á Móum á Kjalarnesi. Á upplýsingaeyðublaði vegna blaðamannatals sem er dagsett 12. febrúar 1957 kemur fram að hann hefur numið í háskólum í Reykjavík, Kaupmannahöfn, Aþenu og Stokkhólmi. Hann kveðst hafa byrjað í blaðamennsku 1. október 1956 og gengið í Blaðamannafélagið 10. febrúar 1957. Hann er starfandi við Morgunblaðið þegar hann veitir þessar upplýsingar. Um helstu æviatriði segir hann: „Alinn upp í Reykjavík. Stundaði nám við Gagnfræðaskólann í Reykjavík (1942-1944) og Menntaskólann í Reykjavík (1944-1948). Vann fyrir námskostnaði með húsamálun á sumrum. Var við guðfræðinám í Háskóla Íslands 1948-1950, en kenndi sömur vetur við Sjómannaskóla Íslands og við Gagnfræðaskóla Austurbæjar. Þýddi og nokkrar bækur úr ensku og dönsku. Sigldi til Hafnar haustið 1950 og lagði stund á bókmenntir við háskólann þar. Fór til Grikklands í júní 1951, vann þar að endurreisnarstarfi um sumarið, en nam grísku og gríska sögu við háskólann í Aþenu veturinn eftir. Ferðaðist um Norðurlöndin öll sumarið 1952, en stundaði nám við háskólann í Stokkhólmi fram að jólum 1952. Hóf þá að rita bókina „Grískir reisudagar“, sem kom út ári síðar. Kom til Íslands í janúar 1953, var skrifstofustjóri hjá varnarliðinu í Keflavík fram í júní, en fór þá til Bandaríkjanna þar sem ég sótti sumarnámskeið hjá SÞ. Sama haust hóf ég bókmenntanám í háskóla í New York og lauk þaðan BA-prófi vorið 1955. Kenndi íslensku og forníslenskar við tvo háskóla í New York veturinn 1955-56. Hóf fréttamannsstörf hjá SÞ haustið 1954 og hélt því þar til ég fór til Íslands í september 1956. Þegar heim kom réðst ég til Morgunblaðsins. Á undanförum sex árum hef ég ritað fjölmargar greinar í íslensk, dönsk og bandarísk blöð og tímarit.“
Því er við þessar upplýsingar að bæta að árið 1962 varð Sigurður meðritstjóri Lesbókar Morgunblaðsins og tók þátt í að endurmóta hana. Fimm árum síðar tók hann síðan við ritstjórn Samvinnunnar, endurmótaði það tímarit og stýrði til 1974. Mikil menningar- og þjóðmálaumræða þótti einkenna Samvinnuna í ritstjóratíð Sigurðar. Á árunum 1971-1978 vann hann mikið starf innan hagsmunasamtak rithöfunda og hann varð fyrsti formaður hins sameinaða Rithöfundasambands Íslands á árunum 1974-1978.
Eftir Sigurð liggur mikið ritverk; ferðasögur, ljóð, þýðingar öndvegisbókmennta, en síðast en ekki síst minningabækur hans sem hafa vöktu mikla athygli.
http://bokmenntir.is/desktopdefault.aspx/tabid-3903/6066_read-18720/RSkra-105