- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Pétur fæddist í Reykjavík, sonur Ólafs Björnssonar í Ísafold. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1931 og prófi í hagfræði frá háskólanum í Kiel árið 1934, en stundaði framhaldsnám við London School of Economics árið 1935. Hann var blaðamaður við Morgunblaðið með námi árin 1929-1931, en í föstu blaðamannsstarfi frá 1935-1942 og aftur 1953-1955. Hann sérhæfði sig einkum í erlendum fréttum. Pétur beitti sér fyrir endurreisn Blaðamannafélags Íslands 1938 og var formaður þess á árunum 1938-1942. Mikil gróska var í Blaðamannafélaginu framan af formannstíð Péturs og gekkst félagið fyrir kvöldvökum á Hótel Borg, síðdegisskemmtunum í kvikmyndahúsum til ágóða fyrir Vetrarhjálpina og efnt var til fyrsta pressuballsins, sem orð fór af. Þá beitti Pétur sér fyrir því að Blaðamannafélag Íslands bauð til landsins um tug danskra blaðamanna árið 1939, sem fór víða um landið, og þótti heimsókn þessi takast afar vel, þótt hún yrði endaslepp að því leyti að gestirnir máttu hraða sér heim í skyndi þar sem heimsstyrjöldin síðari var að brjótast út. Pétur Ólafsson varð síðar forstjóri Ísafoldar, prentsmiðjunnar, útgáfuforlags hennar og verslana.