- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Magnús Finnsson fæddist í Reykjavík 8. apríl, sonur Finns Magnúsar Einarssonar, kennara og fv. bóksala, og Guðrúnar Magnúsdóttur Einarsson. Magnús varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík en stundaði síðan nám í viðskiptafræði við Háskóla Íslands án þess þó að ljúka lokaritgerðinni sem hefur orðið hlutskipti margra sem ánetjuðust blaðamennsku á háskólaárum sínum.
Magnús réðst til Morgunblaðsins 26 ára gamall og byrjaði að fást við venjuleg blaðamannsstörf, sá þá m.a. um Dagbók Morgunblaðsins. Friðrik Sigurbjörnsson annaðist þá Dagbókina og dálkinn Storkinn, en í forföllum hans svaraði Magnús með því að skrifa Strútinn. Enn fremur var fastur liður um tíma sá „Næst besti,“ sem sem bauð upp á Velturnar, svo sem: „Ég er að velta því fyrir mér: „Hvort meðal prestakall út á landi, sé ekki eins konar normalbrauð?“
Síðar fór Magnús að annast frekari fréttaskrif, svo sem um ferðamál, þar með talda breytingu umferðar í hægri akstur, um landhelgismál og stækkun landhelginnar og síðast en ekki síst samningamál á almennum markaði er vörðuðu kaup og kjör.
Hann var um árabil í stjórn samninganefndar blaðamanna og loks eitt ár sem formaður Blaðamannafélags Íslands árið 1967. Þá kom hann því til leiðar að Lífeyrissjóður blaðamanna, sem var lítill og vanmáttugur, gekk í Lífeyrissjóð verslunarmanna, sem átti þátt í því að félagið keypti m.a. skrifstofuhúsnæði í Síðumúlanum og tvö orlofshús í Brekkuskógi auk lítils raðhúss á Akureyri.
Árið 1981 var hann, ásamt tveimur kollegum, Freysteini Jóhannssyni og Sigtryggi Sigtryggssyni,ráðinn fréttastjóri Morgunblaðsins. Það gerðist eftir að Björn Jóhannsson, sem gegnt hafði því starfi í áratug, hafði óskað eftir því að láta af störfum. Hann varð svo fulltrúi ritstjóra eftir það en það átti eftir að verða hlutskipti Magnúsar nokkrum árum síðar eða árið 2006 og allt til starfsloka.