- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Magnús var fæddur 9. febrúar á Efri-Steinsmýri í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann var sonur hjónanna Bjarnfreðs Ingimundarsonar og Ingibjargar Sigurbergsdóttur, en ólst upp hjá fósturforeldrum sínum, þeim Páli Pálssyni og Magneu Magnúsdóttur í Efri-Vík í Landbroti. Hann var einn af 21 systkini og var sá sextándi í röðinni. Meðal systkina hans var Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, verkalýðsforingi og alþingismaður.
Magnús gekk í barnaskóla í Þykkvabæ og á Kirkjubæjarklaustri, stundaði síðan nám við ML og MR og háskólanám í Þýskalandi. Hann var blaðamaður á Fálkanum, Frjálsri þjóð og Tímanum, einnig þulur hjá Ríkisútvarpinu og seinna fréttamaður og dagskrárgerðarmaður hjá Ríkissjónvarpinu í mörg ár en Magnús vann að stofnun þess.
Magnús og Markús Örn Antonsson voru fyrstu fréttamennirnir sem ráðnir voru til RíkisútvarpsinsSjónvarps og það var Magnús sem flutti fyrstu íslensku sjónvarpsfréttirnar að kvöldi þess 30. september árið 1966. Röddin var þá þegar orðin þjóðþekkt eins og segir í frétt um andlát hans á visir.is en Magnús hafði áður starfað sem útvarpsþulur og hafði hann einnig mikla reynslu sem blaðamaður, á Fálkanum, Frjálsri þjóð og Tímanum. Magnús hætti í sjónvarpsfréttum þegar hann gerðist bæjarfulltrúi í Kópavogi árið 1974 og starfaði hin seinni ár að almannatengslum auk ritstarfa en eftir hann liggja allmargar bækur og fjöldi sjónvarps- og kvikmynda sem hann ýmist gerði og stjórnaði eða samdi handrit að.
Á vef Blaðamannafélags Íslands þar sem greint er frá andláti Magnúsar er vitnað til Facebook-færslu Margrétar Heinreksdóttur, samstarfsmanns hans af Sjónvarpinu til margra ára, þar sem hún segir:
„Nú er skammt stórra högga á milli. Fyrst Gísli Ástráðs og nú Magnús Bjarnfreðs, báðir frábærir blaða- og fréttamenn og miklir indælismenn og öðlingar. Vekur upp margar minningar frá liðnum dögum og minnir á að mjög styttist nú heimsreisan okkar sem eftir eru þessarar kynslóðar fjölmiðlafólks. Mér verður þungt um hjarta og raki í augum byrgir sýn. Megum þó þakka fyrir að hafa fengið að lifa merkilega tíma og margvíslegar breytingar sem okkur hefði aldrei órað fyrir þegar við hófum ferilinn um miðja síðustu öld.“
https://www.mbl.is/greinasafn/grein/1435689/
http://is.wikipedia.org/wiki/Magn%C3%BAs_Bjarnfre%C3%B0sson
https://timarit.is/files/26460739
http://www.kvikmyndavefurinn.is/person/nr/7474