- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Jón fæddist í Gilsárteigi í Eiðaþinghá, S-Múlasýslu, 13. september.Foreldrar hans voru Þórarinn Benediktsson, hreppstjóri og alþingismaður, og Anna María Jónsdóttir. Jón varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1937 og stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík. Hann hélt síðan til Bandaríkjanna og nam við Yale-háskóla undir handleiðslu Paul Hindemith, eins helsta frömuðar nútímatónlistar á þeim tíma. Sumarið 1945 stundaði hann nám við Juilliard-tónlistarháskólann í New York og fór til námsdvalar í Austurríki og Þýskalandi 1954-1955. Jón var yfirkennari í tónfræði og tónsmíði við Tónlistarskólann í Reykjavík 1947-1968, stundakennari við sama skóla frá 1979 og kennari við Söngskólann í Reykjavík 1983-1987. Jón Þórarinsson hóf störf við Ríkisútvarpið 1938-1940 og aftur 1942-1943, en þá sem fréttamaður á fréttastofu útvarpsins og var þá tekinn inn í Blaðamannafélag Íslands. Jón starfaði að mestu óslitið hjá Ríkisútvarpinu 1938-1956, en þegar hann hélt til Bandaríkjanna 1944 til tónlistarnáms samdist svo um að hann héldi hálfum launum hjá útvarpinu gegn því að hann kæmi til starfa á tónlistardeild útvarpsins að námi loknu, að því er segir í bókinni Útvarp Reykjavík eftir Gunnar Stefánsson. Eftir heimkomuna 1947 starfaði Jón á tónlistardeildinni í níu ár og hafði veruleg áhrif á tónlistarmál Ríkisútvarpsins á þeim tíma, eins og síðar segir í umræddri bók. Jón varð síðar dagskrárstjóri lista- og skemmtideildar Ríkissjónvarpsins 1968-1979 og sat í útvarpsráði 1983-1987. Hann var einn af stofnendum Sinfóníuhljómsveitar Íslands, fyrsti stjórnarformaður 1950-1953 og framkvæmdastjóri hennar 1956-1961. Jón var einnig forseti Bandalags íslenskra listamanna 1951-1952 og 1963-1966. Hann var jafnframt afkastamikið tónskáld og auk stærri verka liggja eftir hann mörg alkunn sönglög, svo sem Fuglinn í fjörunni og Íslenskt vögguljóð á Hörpu. Þá skrifaði hann sögu Sveinbjörns Sveinbjörnssonar, tónskálds og höfundar íslenska þjóðsöngsins.