- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Siðavefur
- Lög og reglugerðir tengdar blaðamennsku
- Verðlaun
- Blaðamaðurinn
- Ritstjórnarlegt sjálfstæði
- Aðgengi að hættusvæðum
- Viðburðir
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Jón fæddist á Kolfreyjustað í Fáskrúðsfirði og var hálfbróðir Páls Ólafssonar skálds. Á engan er hallað þótt hann sé kallaður litríkasti blaðamaður Íslandssögunnar. Hann fór til náms í Lærða skólann í Reykjavík og varð snemma ritstjóri skólablaðsins. Átján ára gamall hóf hann hinn eiginlega blaðamennskuferil sinn með því að gerast ritstjóri Baldurs sem var ekki síst gefinn út til höfuðs Þjóðólfi, helsta blaði landsins um þær mundir, og ekki leið á löngu þar til hann átti í útistöðum við hinn áhrifamikla ritstjóra þess, Jón Guðmundsson.
Jón Ólafsson fékk snemma það orð á sig að vera illskeyttur á prenti og í tvígang mátti hann flýja land af þessum sökum. Í fyrra skiptið fór hann til Noregs, en öðru sinni - fyrir óþægð við stjórnvöld á Íslandi 1872-1873 vegna blaðs hans Göngu-Hrólfs - fór hann í kjölfarið til Ameríku. Þá voru Vesturferðirnar að hefjast og fékk Jón þá hugmynd að Íslendingar næmu land í Alaska. Hann vann að því að afla fylgis stjórnvalda í Bandaríkjunum við þá hugmynd og hitti sjálfan Grant forseta sem fór með honum á kráarrölt, að því er sagan segir. Settu bandarísk stjórnvöld herskip undir Jón til að kanna aðstæður í Alaska. Ekkert varð þó úr þessum áformum og Jón sneri aftur til Íslands árið 1875.
Jón hafði orðið fyrir miklum áhrifum í vestanhafs og ekki síst hrifist af blöðunum í Vesturheimi. Hann fluttist til Eskifjarðar og gaf þar út blaðið Skuld sem þykir um margt tímamótablað í íslenskri blaðasögu. Hann eignast síðan hið gamalgróna blað Þjóðólf um 1883 og varð ritstjóri þess. Hann lenti þá í miklum ritdeilum við Gest Pálsson, ritstjóra Suðra, þótt þeir væru skoðanabræður í flestu.
Árið 1885 var svo komið að Jón mátti selja Þjóðólf vegna skulda. Hann sneri þá aftur til Vesturheims 1890 og gerðist ritstjóri Lögbergs og síðan Heimskringlu.
Jón er sagður hafa átt sinn þátt í þeim skætingstón sem þróaðist milli blaðanna þarna í Íslendingabyggðum. Lægst töldust ritstjórar blaðanna tveggja hafa lagst þegar þeir sökuðu hvor annan um að eiga sök á dauða Gests Pálssonar skálds, sem var ritstjóri Heimskringlu árið 1890-91. Jón gaf vestra einnig út mánaðarritið Öldina, sem þótti gott menningarrit.
Jón sneri aftur til Íslands 1897 „til að hefja síðasta og kannski merkilegasta tímabil sitt sem ritstjóri,“ segir í fjölmiðlasögunni Nýjustu fréttir! „Hann stofnaði Nýju öldina 1897 og sagði Fjallkonan af því tilefni að Jón væri orðinn ritstjóri í 13. skipti. Þetta leiðrétti Jón umsvifalaust og sagði það vera að minnsta kosti í 18. skipti.
Og enn átti hann eftir að ritstýra nokkrum blöðum, enda var hann ekki nema 47 ára,“ segir Guðjón Friðriksson í áðurnefndri fjölmiðlasögu sinni. Þessi blöð voru m.a. Sunnanfari 1898, Reykjavík 1903-1907 og 1909, Dagblaðið 1906-1907 og Iðunn 1915-1916, en auk þess ritstýrði hann Skírni 1896-1902.
Það var um þetta leyti sem Jón Ólafsson sendi út boðsbréf um stofnun Blaðamannafélags Íslands, en stofnfundur þess var haldinn 19. nóvember 1897. Auk bókar Gils Guðmundssonar um Ævintýramanninn Jón Ólafsson, sem er vísað á hér í tengli, hefur Hjörtur Pálsson skrifað bók um Alaskaför Jóns og ferðir hans í Ameríku sérstaklega.
http://www.althingi.is/cv.php4?nfaerslunr=327 http://agbjarn.blog.is/blog/agbjarn/entry/1032538/ http://www.landogsaga.is/section.php?id=4470&id_art=4510