- Félagið & fagið
- BÍ
- Faglegt
- Atvinnutorg
- Kaup & kjör
- Styrkir & sjóðir
- Orlofskostir
- Mínar síður
Jökull fæddist í Neskaupstað 14. september, sonur hjónanna séra Jakobs Jónssonar frá Hrauni og Þóru Einarsdóttur. Jökull lauk námi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1953 og lagði síðan um hríð stund á nám í leikhúsfræðum í Vínarborg. Við heimkomuna tók hann að fást við blaðamennsku og vann um tíma á dagblaðinu Tímanum í kringum 1960, en síðan einkum á ýmsum tímaritum, svo sem Vikunni og Fálkanum. Jónas Kristjánsson nefnir tíma Jökuls á Tímanum í endurminningum sínum á jonas.is: „Á Tímanum var ég innan um tóma snillinga, rithöfunda og ljóðskáld og menningarvita. Þeir skrifuðu fínan texta, miklu betri en minn. En þeir voru lausir í rásinni, skiluðu verki á ýmsum tímum og voru stundum fjarri dögum saman. Þarna voru menn eins og Jökull Jakobsson, Baldur Óskarsson og Ólafur Jónsson, sem kallaður var vitsmunavera. Einnig menn, sem síðar urðu rithöfundar, svo sem Birgir Sigurðsson. Með svona menn umhverfis mig varð ég fljótlega hornsteinn á fréttastofunni. Ég nennti að sitja frameftir og loka síðum, fara með þær niður í prentsmiðju og standa yfir umbrotsmönnum. Stundum urðu menningarvitarnir skrautlegir á Tímanum, en aldrei leiðinlegir.“ Jökuls Jakobssonar verður þó fyrst og fremst minnst sem einhvers helsta leikritaskálds sem þessi þjóð hefur alið, en hann var einnig afar framsækinn, frjór og vinsæll dagskrárgerðarmaður í útvarpi. Jökull kvæntist Jóhönnum Kristjónsdóttur, blaðamanni á Mogunblaðinu og seinna ferðafrömuði, og eignuðust þau blaðamennina Illuga Jökulsson og Hrafn Jökulsson, sem mjög hafa komið við sögu íslenskra blaðamanna hin síðari ár. Einnig hefur systir þeirra, Elísabet Kristín, komið nærri blaðamennsku þótt fyrst og fremst sé hún þekkt sem rithöfundur og ljóðskáld. Þá var Svava, systir Jökuls og síðar rithöfundur og leikritaskáld, blaðamaður á Lesbók Morgunblaðsins um tíma, og eiginmaður hennar, Jón Hnefill Aðalsteinsson, síðar prófessor, starfaði einnig sem blaðamaður á Morgunblaðinu um skeið. Má því segja að þessi fjölskylda hafi lagt allnokkuð af mörkum til blaðamennsku á Íslandi á síðari hluta 20. aldar.